21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

255. mál, eignakönnun

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. kom inn á, skildu leiðir hér í n. um málið. Meiri hl. n. vill samþykkja frv. óbreytt, en með kannske nokkrum breytingum þó. Og þess vegna gat ég um í nál. mínu, að meiri hl. n. vildi samþykkja frv. með nokkrum breytingum. — Ég legg til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, og geri ég grein fyrir þeirri till. í nál. mínu.

Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar og lesið það yfir og kynnt sér málið og haft á fundum með sér Þórð Eyjólfsson, sem var einn af þeim mönnum, sem sömdu þetta frv., til þess að fá skýringar hjá honum á ýmsum atriðum frv., og svaraði hann spurningum um ýmis ákvæði frv., sem ekki er gott að átta sig á, hvað átt er við með, enda er frv. stórt og viðamikið og of orðmargt. Mér finnast ákvæði, sem í því felast, gætu komið fram miklu skýrar og í styttra máli. En það er oft einkenni á illa undirbúnum frv., að þau eru löng og erfitt að átta sig á þeim.

Þetta frv. er geysimikið bákn, og ég hygg, að aldrei hafi verið á Íslandi byggt upp eins mikið bákn og gert er í sambandi við þessa eignakönnun. Það er hinn mesti aragrúi af hvers konar yfirlýsingum og skjölum, sem á að undirbúa í þessu sambandi. Og það er mjög erfitt að átta sig á þessu öllu saman, því er þannig fyrir komið. T. d. er gert ráð fyrir, að hver maður, sem á peninga í sparisjóði og banka, skuli fylla út sérstök eyðublöð, sem send eru til n. til athugunar, jafnvel þó að innstæðan sé á nafni hans í bankanum og n. geti því fengið þar þær upplýsingar. Þetta nefni ég sem lítið dæmi, því að þetta virðist gert í þeim tilgangi að hafa þessa skoðun sem allra mesta skriffinnsku og gera hlutina eins flókna og hægt er. Það hefði áreiðanlega verið hægt að gera þetta frv. miklu einfaldara og þó eins verið hægt að ná tilgangi þess.

Í umr. í fjhn. lagði ég fyrirspurn fyrir dr. Þórð Eyjólfsson. hvernig stæði á því, að n. teldi það vera forsvaranlegt, að hægt væri að ganga þannig frá frv. um eignakönnun, að annars vegar væri meginþorri manna þannig settur, að hann væri eltur út í yztu æsar, hins vegar væri tiltölulega litlum hóp manna, sem mestan gróðann hafa og mest tilefni hafa gefið til þess, að þessi l. verði sett, leyft að skjóta eignum sínum undan skatti, sem eru stórgróðamennirnir, sem reka alls konar fyrirtæki. Þessir menn hafa samkv. frv. möguleika til þess að smeygja sér undan með sínar eigur, og eignakönnunin nær ekki til þess að rannsaka til fulls eigur þeirra.

Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, að þannig væri þessu fyrir komið í frv., að uppistaða þess og fyrirkomulag ákvæðanna er alveg röng. Og er í raun og veru ekki hægt að komast til botns í þeirri rannsókn, nema fram fari raunveruleg eignaskoðun. Dr. Þórður Eyjólfsson viðurkenndi, að þetta væri rétt. Og hann viðurkenndi, að eignaskoðun væri í flestum tilfellum tæmandi hjá þeim mönnum, sem ekki reka fyrirtæki, en aftur engan veginn hjá þeim, sem þau reka. Og hann gat þess, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, að það hefði n. ekki farið inn á, fyrst og fremst af þeim ástæðum, að það var ekki lagt fyrir hana af ríkisstj. að gera það, og í öðru lagi af því, að það væri ekki í raun og veru framkvæmanlegt. En ég vil þá segja, að ef það er ekki framkvæmanlegt að rannsaka eignir þeirra, sem vitað er, að mest hafa grætt undanfarið og mestu skotið undan skattaframtali af tekjum sínum, og þar af leiðandi gefa mesta tilefnið til þess, að þessi löggjöf er sett, þá á ekki að setja svona löggjöf, af því að eignaskoðun lendir þá fyrst og fremst á þeim, sem sízt hafa möguleika til þess að draga undan af tekjum sínum. Það er sem sagt það sama endurtekið hér eins og oft hefur verið gert. Skattalöggjöf okkar fer fram hjá þeim, sem hún helzt ætti að koma nærri. Við vitum, að til eru mörg hlutafélög, sem eru í raun og veru sama fyrirtækið, og svo eru gerðir óhagstæðir samningar milli þessara félaga, og þannig er skipt gróðanum, til þess að hann sýnist sem allra minnstur. Og það er einmitt vegna þessara vandamála, að þetta umtal um eignaskoðun hefur komið fram. En þegar svo frv. um eignakönnun kemur fram, er hún ekki miðuð við þá menn, sem gáfu tilefni til hennar, heldur einmitt miðuð við hina, sem ekki hafa gefið það tilefni. Þetta er í raun og veru það sorglega við þetta frv.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, lýsti hún því yfir í málefnasamningi sínum, að hún ætlaði að gera þær ráðstafanir, sem tryggðu, að framtöl manna væru rétt. Mér vitanlega hefur hún ekkert gert. Hún hefur ekki gefið út reglugerðir eða fyrirmæli til þess að tryggja þetta. Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, að hann muni nú í sumar skipa n. til þess að rannsaka skattamálin og gera till. um breyt. á þeim fyrir næsta þing. Það má segja, að það veiti ekki af, því að langt er síðan þau voru endurskoðuð síðast, en eðlilegt hefði verið, að stjórn, sem tekur sæti í febrúar, einmitt þegar verið er að skila framtölum, framkvæmdi þessa hátíðlegu yfirlýsingu sína um að auka eftirlitið með skattaframtölum. Þetta hefur hún ekki gert. Nú í þessu frv. um eignakönnun er gert ráð fyrir að byggja hana á framtölum fyrirtækja, sem mestu skjóta undan. Þessi ákvæði, sem frsm. meiri hl. lagði mesta áherzlu á, eru þannig, að þau má framkvæma samkvæmt skattal., og það þarf ekki að setja eignakönnunarl. til þess. Stjórnin hefur fullkomna heimild til þess að gera ráðstafanir vegna þessara manna um framkvæmd skattal., og þess vegna er þetta ekkert nýtt. Þetta er sett inn í frv. vegna þess, að þeim, sem bera það fram, hefur fundizt óeðlilegt, að um leið og slíkar ráðstafanir væru gerðar, væri ekkert sérstaklega tekið fram, sem á að gera gagnvart þeim, sem hafa alls kostar bezta möguleika og eignakönnunin á að fara fram hjá.

Við skulum segja, að menn hafi gefið upp sínar eignir, sína peninga og sína bankainnstæðu, en menn, sem reka stór fyrirtæki, hafa mikla möguleika til þess að geyma eignir sínar í vörubirgðum, efnisbirgðum, vélum o. fl. Þetta veit hver maður, sem nokkuð er kunnugur bókhaldsteknik og framtali tekna. Þetta er opinbert leyndarmál. En þegar þessar ráðstafanir eru ekki fullkomnar, eru ekki tæmandi, þá koma þær ekki að neinu haldi. Það kann að vera, að einhver fyrirtæki eigi meira af peningum en þau geta forsvarað, en meiri hlutann geta þau forsvarað með bókhaldstilfærslum.

Því hefur verið haldið fram, að ekki sé hægt að framkvæma þetta. Það er ekki af því, að stjórnin vilji ekki gera það. Þetta er hægt vegna þess. hve umfangsmikið það er, segir frsm. meiri hl. Þetta er orðum aukið. Það er miklum örðugleikum bundið, en það er líka örðugleikum bundið að gera þær ráðstafanir, sem frv. fyrirskipar. Eignakönnunin er ekki það erfið, að hún sé ekki framkvæmanleg. Þar kemur fyrst og fremst til greina, hvort vilji er fyrir hendi til þess að framkvæma hana, og það er frumskilyrðið. Slíka eignakönnun yrði að framkvæma á örskömmum tíma og haga framkvæmdunum svo, að útilokað sé, að menn geti skotið undan. Enda veit hver maður, að þessar ráðstafanir eru ekki svo þéttar, að þar séu ekki smugur, sem hægt er að smjúga í gegnum. Það veit hver maður, að það eru alltaf smugur, en það veit líka hver maður, að það er hægt að komast miklu nær hlutunum en með því að láta stórgróðamennina sjálfa um að telja fram, hvað þeir eiga.

Þannig er þetta frv. í fullkominni mótsögn við yfirlýsingu stjórnarinnar, þegar hún tók við völdum. Hún undirstrikaði, að hún ætlaði að gera ráðstafanir til þess að tryggja betri framtöl, en hún gerði ekkert í því, heldur kemur fram með frv., þar sem eignakönnunin á að byggjast á framtölum. Þetta er því undarlegra, þar sem það var eitt af því, sem skapaði þessari stjórn tilverurétt, að hún leiðrétti þessi framtöl.

Nei, það er ekki vafi á því, að það er hægt að framkvæma þessa eignakönnun þannig, að hægt sé að komast allnærri raunverulegum eignum þessara stórgróðamanna, og það, að Sósfl. er andvígur því að framkvæma eignakönnunina samkv. þessu frv., byggist á því, að ekki er gengið að stórgróðamönnunum, sem mest svíkja undan sköttum. Frv. er um eignakönnun á hina smærri, en tilkynning til hinna stærri um, að þeir muni ekki í framtíðinni verða ónáðaðir með eignakönnun. Þetta er innihald frv., og ég verð að segja, að mig furðar á því, að ekki skuli frá neinum alþýðuflokksmanni eða framsóknarflokksmanni, sem eru í meiri hl. í stjórn, hafa komið fram eitt orð um þetta mál. Þið heyrðuð, hvernig frsm. meiri hl. stiklaði á stóru í þessu máli og sýndi greinilega, að það eru ekki kjósendur frá Alþfl., sem ráða þessari eignakönnun, enda er hún í ósamræmi við hin stóru orð fyrir síðustu kosningar. Það verð ég að segja. En hvað Framsfl. viðvíkur, þá á víst enginn slíka sérfræðinga í skatta- og tollamálum sem sá flokkur, og sjálfur aðalfræðimaður flokksins á þessu sviði á sæti í stjórn. Ég verð að segja það, að það skýtur dálítið skökku við, ef ekki á að heyrast hljóð úr horni frá þeim flokki, eins og talað var um, að stórgróðinn yrði að lækka, og var það ein aðalástæðan til þess, að sá flokkur tók þátt í stjórninni, að nú þyrfti að kippa í liðinn.

Það kemur fram hér, að þessir flokkar hafa beygt sig fyrir kröfum 3. flokksins, sem lætur sig engu skipta hagsmuni almennings og vill, að stórgróðamennirnir geti skotið sér undan skatti og þurfi ekki að hafa ónæði af því að gera grein fyrir eignum sínum og borga skatta. Það er tilgangur þessa frv.

Það virtist koma fram hjá frsm., að hann vonaði, að frv. kæmi ekki illa við neinn. Ég gæti trúað, að sumir í þessari stjórn óskuðu þess, að frv. kæmi ekki mjög hart niður, til þess að það valdi ekki truflun fyrir stjórnina, en þeir finna, að þessar ráðstafanú. miða að því að dæma þá smáu, sem margir, þótt þeir hafi talið fram, halda, að þeir eigi eftir að borga af tekjunum.

Það er sýnilegt, að með þessu frv. er meiningin að ljúka þessu máli. Það er víst, að við plön stjórnarinnar hafa peningar minnkað mjög í umferð. Það er áreiðanlegt, að margir hafa meiri peninga en þeir hafa þörf fyrir, og einmitt það, hvað stríðsgróðinn er dreifður, þrátt fyrir það að margir telja í hundruðum þúsunda og milljónum, hefur skapað mikla og aukna kaupgetu. Þetta minnkar vald þeirra ríku, og það er þyrnir í augum þeirra stórgróðamanna, að menn almennt hafi peningaráð og geti þannig haft rýrandi áhrif á stórgróðann. Þannig sjá þeir sér hag í því að innkalla peningana, ýmist með því að borga skatta eða festa þá í ríkisskuldabréfum, en þetta er á samræmi við stefnu stjórnarinnar, sem telur það þýðingarmest að minnka kaupgetu almennings til þess að auka með þeim hætti verðgildi peninga þeirra manna, sem hafa meginið af þeim. Þannig þjónar þetta frv. hinni almennu stefnu stjórnarinnar að lækka lífskjör fólksins.

Það hefur mikið verið reynt að halda því fram, að þetta frv. tæki tillit til hinna smærri. Það er rétt, að í 17. gr. eru ákvæði, sem eiga að vera vernd fyrir hina eignaminni, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki talið fram eignir sínar. Þar er gert ráð fyrir, að af fyrstu 15 þús. kr. skuli ekkert gjald greiða, af 15000–25000 kr. greiðist 5%, af 25000–35000 kr. greiðist 10% og af 35000–45000 kr. greiðist 15%. Þetta þýðir það, að maður sem hefur 45000 kr., sem hann hefur ekki fram talið, á að borga þarna 3000 kr. og má segja sem svo, að þetta sé út af fyrir sig ekkert hátt, þegar þarna er um peninga að ræða, sem svo lítur út með, að ekki hafi verið borgaður tekjuskattur af þeim, sem þó þarf ekki að vera, þó svo að fólk skjóti eignum undan skatti bara af fáfræði, af því að það veit ekki, hve lágur eignarskatturinn er, en sá stóri ljóður er á þessu, að enginn getur orðið aðnjótandi þessara vildarkjara, fyrr en hann hefur gerzt iðrandi syndari og komið til stjórnarinnar og beðið um náð og miskunn. Það er áreiðanlega ekkert unnið við það fyrir þjóðfélagið að ætla að fara að stimpla menn í hundraða- og þúsundatali sem skattsvikara, og það getur enginn notið þessa, fyrr en hann er búinn að gera grein fyrir því, hvernig þessi eign er til komin. Vissulega er þagnarskylda, en dæmi eru til, að hlutir leki, ef mikið liggur við, en þarna er ætlazt til, að menn lúti þessu og fái hjá stjórninni þá umbun, sem fyrir er mælt í 17. gr. Ég gæti trúað, að þessi 17. gr. ætti eftir að verða jafnumtöluð og önnur 17. gr., 17. gr. jarðræktari., sem í mörg ár var eitt aðalátakamálið milli stærstu flokkanna í landinu. Ég býst við, að margir segi, að þeir vilji frekar tapa eignum sínum eða binda þær í ríkisskuldabréfum en að fara og viðurkenna sig opinberlega sem skattsvikara, og ég býst víð, að það sé líka betra fyrir þjóðfélagið, að sem fæstir kæri sig um að láta stimpla sig, enda vitað, að ef stórir hópar manna létu þannig stimpla sig, mundi það hafa mjög slæm áhrif fyrir skattaframtöl í framtíðinni, og um stóra hópa af mönnum er það kannske svo, að þeir hafa ekki gefið neitt tilefni — eða kannske svo lítið, að það er ekki heppilegt af þjóðfélaginu að refsa þeim fyrir það, eins og oft á sér stað um afbrot. Það er viðurkennt, að mörg afbrot og yfirsjónir eru það lítilvæg, að það er meiri skaði fyrir þjóðfélagið að stimpla menn, sem hafa orðið fyrir að gera þetta, en að láta þá sleppa.

Ég tel þetta svo geysilegan ókost á þessu frv., að mér finnst það alveg gegna furðu, að stjórnin skuli æskja eftir að gera svo stóran hóp manna að skattsvikurum eins og líkur eru til, að gert verði með þessu.

Við l. umr. málsins benti ég fjmrh. á þetta, en hann gat ekki gefið eðlilega skýringu á því, hvað fyrir stjórninni vaki með svona ráðstöfunum til þess að gera menn opinberlega misindismenn fyrir lítil brot.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta mál mitt lengra. Með tilliti til þess, sem ég hef sagt hér og á þskj. 917, hef ég ákveðið að leggja til, að málið verði afgr. með rökstuttri dagskrá, sem ég með leyfi hæstv. forseta les hér upp:

„Þar sem frv. það, sem hér liggur fyrir, er að mörgu leyti illa undirbúið og í því felst raunverulega engin eignakönnun á stórgróðann, en hins vegar koma ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir mjög hart niður á smærri skattþegnum, og í trausti þess, að ríkisstjórnin útbúi og leggi fyrir næsta þing frv. til laga um eignakönnun, sem miðað sé við það að ná til stóreignanna fyrst og fremst, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“