21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

255. mál, eignakönnun

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég þakka hv. frsm. meiri hl. n. fyrir þau svör, sem hann gaf, þau voru greinagóð, það sem þau náðu. Og ég efast ekki um, að rétt er skýrt frá samtali hans við hæstv. ráðh. En mér skilst, að það gæti verið athugandi fyrir fjhn., hvort ekki væri rétt að gera þau ákvæði skýrari eða setja skýrari ákvæði í frv. um þetta, að ekki skyldu raskast hlutföllin á milli sparisjóðsinnistæðna bankanna af þessum ástæðum, sem sé að inn á ríkisreikning bankanna væri lögð sú upphæð, sem ætla mætti, að væri sem næst því, sem færi út vegna skuldabréfakaupa.

Varðandi svör hv. frsm. hvað snertir 17. gr. frv., þá voru þau alls ekki tæmandi eða fullnægjandi. Það er rétt, að ef maður hefur átt 25 þús. kr. í peningum eða verðbréfum fyrir stríð, þá eru þær jafnmikils virði og hverjar aðrar 25 þús. kr. nú, ef maður hefur átt þær sem peninga fyrir stríð. en hafi hann átt þær kr. í fasteign, þá hafa þær að sjálfsögðu margfaldazt í verði. Og virðist mér þess vegna, að þessi munur á þeim, sem stolið hafa undan skatti fyrir 1940, og hinum, sem gert hafa það síðan, sé ekki fyllilega rökstuddur, og sýnist mér, að eðlilegra hefði verið að miða við einu og sömu upphæðina, hvort sem skattsvikin voru framin fyrr eða síðar.

Mér hafði aldrei dottið í hug, að tekin væru upp í þessi l. ákvæði um nafnskráningu verðbréfa og bankainnistæðna í framtíðinni. Ég veit mjög vel, að þessi l., ef frv. verður samþ., eru fyrst og fremst miðuð við einn dag og ákveðið ár, enda var mín fyrirspurn miðuð við það, hvort nokkrar framtíðaráætlanir væru hjá ríkisstj. um það að innleiða hið nýja kerfi um nafnskráningu verðbréfa og bankainnistæðna lengra fram í tímann en þessi l. mæla fyrir um. Og vildi ég gjarnan fá frá hæstv. ríkisstj. svar um það, hvort nokkrar ákvarðanir hefðu verið teknar í því efni.