22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

255. mál, eignakönnun

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við atkvgr. við 2. umr. þessa máls lýsti ég yfir því, að ég væri andvígur þessu frv., en ég kaus heldur að geyma það til 3. umr. að gera grein fyrir afstöðu minni, því að andstaða mín er ekki bundin við einstakar gr. frv., heldur aðferðina, sem hér er gengið inn á.

Eignakönnun og eignaraukaskattur eru orð, sem oft hafa heyrzt hér síðustu árin. Þau láta vel í eyrum, þó að menn hafi tæplega gert sér grein fyrir, hvað af slíkri framkvæmd leiðir. Svipuð mál voru lögð hér fram á þingi 1941 og 1942, en þá var frv. um eignaraukaskatt borið fram af Framsókn og Alþfl. Þetta frv. varð ekki útrætt í fyrra sinnið, en féll í annað sinn á atkv. sjálfstæðismanna og sósíalista. S. l. haust fékk þessi hugmynd nýjan byr í ýmsum flokkum, og þá ekki sízt í Sósfl.

Nú vil ég mótmæla því algerlega, sem stendur í nál. minni hl. fjhn., að það sé fyrir atbeina og ásókn Sjálfstfl., að þetta mál sé knúið fram nú, enda þótt þetta atriði hafi verið tekið með í stjórnarsamningana. Þar að auki vil ég mótmæla því — þó að þess ætti raunar ekki að þurfa —, sem gefið er í skyn í þessu sama nál. og maður hefur oft heyrt áður, að meira sé um þá menn, sem skattsvik iðka, í Sjálfstfl. en öðrum flokkum, því að vitanlega fer þetta ekki eftir flokkum frekar en önnur afbrot.

Fyrirmyndin að þessu máli er frá Dönum. Hún er kannske ekki verri fyrir það. En þar stóð ólíkt á, þar sem einstakir menn og stofnanir höfðu rakað að sér fé með hálfgerðri landráðastarfsemi. En þó hef ég það fyrir satt, eftir mönnum, sem nákunnugir eru í Danmörku og dönsku fjármálalífi, að fjöldi manna þar í landi sjái mjög eftir, að farið var inn á þessa leið, og haldi því meðal annars fram, að afleiðing þessara ráðstafana muni verða lömun viðskiptalífsins næstu 10–15 ár.

Varðandi þetta frv. skal ég taka fram, að úr því að farið er inn á þessa leið, býst ég við, að það verði kannske ekki gert á annan heppilegri hátt eða mildari en hér er lagt til. Hinar einstöku gr. þessa frv. eru ekki þannig, að ég fyrir mitt leyti hafi séð ástæðu til að koma með brtt. við þær. Afleiðingar af þessari eignakönnunarhugmynd eru þegar komnar í ljós. Það er kunnugt, að allt þetta umtal um eignauppgjör, innköllun verðbréfa og fjár o. s. frv. er búið að gera svo mikla röskun í okkar viðskiptalífi, að tjónið af þessu er næstum óútreiknanlegt. Ég tel það meðal mestu ókosta frv., að gert er ráð fyrir að fresta svo lengi framkvæmdum þessum, því að það heldur við þeirri peningakreppu og áhrifum á viðskiptalífið, sem þegar eru mjög rækilega verkandi. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um og hef fyrir mér álit ýmissa manna, sem kunnugastir eru viðskiptalífinu hér, að þessar ráðstafanir muni verða til þess að eyðileggja um ófyrirsjáanlegan tíma verðbréfamarkaðinn í landinu. Og það er þannig, að þau verðbréf, sem einkum hefur verið aðstaða til að draga undan skatti og hljóða á handhafa, eru þau, sem hafa verið seld fyrir opinberar stofnanir, ríkið sjálft, hafnargerðir, hitaveitu Reykjavíkur, bæjarfélög o. s. frv. En aðstaða til að draga undan skatti verðbréf einstaklinga er sáralítil, enda þótt það séu handhafabréf. Þetta tel ég ákaflega mikinn ókost við þessa leið, því að verðbréfamarkaðurinn hefur stórkostlega þýðingu fyrir ýmis mikil framfaramál, sem þarfnast mikils fjár. Þó að þegar sé búið að semja um þessa eignakönnun og hún talin mjög nauðsynleg, er ég fyrir mitt leyti sannfærður um, að hún er óframkvæmanlegt mál, án þess að meira eða minna óréttlæti sé með í spilinu. Ef ætti að gera þetta nákvæmlega, mundi það vera margra ára verk. Og þess vegna tel ég rangt að fara inn á slíka leið. Þetta verður vitaskuld atvinnubótavinna fyrir fjölda manna. En að menn geti framkvæmt þetta með réttlæti, hvað góðan vilja sem menn hafa, hef ég enga trú á.

Ég get búizt við, að menn spyrji: Hvaða leið viltu fara til að laga það ástand, sem er? Mér er kunnugt, að það muni vera allmiklar eignir dregnar undan skattaframtali. Ég vil breyta skattalögunum frá því, sem er, og það hefur hæstv. ríkisstj. á prjónunum. Og þegar búið er að breyta þeim í heilbrigðara horf, tel ég miklu varða, að þau séu framkvæmd með miklu meiri nákvæmni og eftirliti en hingað til hefur verið gert. Hvað mikið hefur sloppið undan skatti undanfarin ár, er mikið því að kenna, hvernig skattalögin hafa verið framkvæmd. Á sumum stöðum er ekki á þessu það lag, sem þyrfti að vera, þó að á mörgum stöðum sé mikil nákvæmni viðhöfð og sáralitlir möguleikar til að draga undan tekjur. Til hins eru kannske fleiri dæmi, að dregið sé undan af eignum, sem eru löglega fengnar. Og það skiptir ríkið miklu minna máli, eins og kunnugt er.

Af þessum ástæðum er það, að ég get ekki léð mitt atkv. með þessu frv. Ég er sannfærður um, að það hefur svo slæm áhrif á okkar viðskiptalíf, að menn hafa ekki ennþá gert sér ljóst, hvernig þau verða.