22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

255. mál, eignakönnun

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það mun margur mæla, að frv. til l. um eignakönnun hefði mátt vera fyrr á ferð á Alþingi. Ekki ber að skilja orð mín svo, að ég telji, að dráttur sá, sem orðið hefur á málinu af hálfu núverandi ríkisstj., sé óeðlilegur. En hinu vil ég halda fram, að að réttu lagi hefði slíkt frv. átt að vera flutt og samþ. á Alþ. strax eftir stríðslok, fyrir um það bil tveimur árum. Þetta var nú ekki gert og stafar af því, sem kunnugt er, að fyrrv. stjórn var með öllu áhugalaus í því efni að ráða nokkra bót á þessu máli. Og vandlætingarræða hv. þm. Siglf. um þetta mál hljómar einkennilega í eyrum manna, þegar athugað er, að hann sat í meira en tvö ár í ríkisstj., sem ekkert gerði í þessu efni, þó að einmitt þá hefði átt að hefjast handa. Er ekki vitað, að þessi fyrrv. ráðh. og flokkur hans hafi hreyft hönd eða fót í þessa átt.

Það er vafalaust alveg rétt, sem segir í grg. þessa frv., að allmikil brögð séu að því, að fé sé dregið undan réttmætum skattgreiðslum. Það er full þörf að taka þessi mál til athugunar og leiðréttingar. Það verður að sjálfsögðu ekki gert nema með framtali eigna, sem framkvæmt er með nokkuð öðrum hætti en venja er til með skattaframtöl árlega. Um þetta fjallar nokkur kafli frv., þ. e. 2. kafli, sem er um sérstakt framtal eigna og tekna. 3. kafli er um innköllun peningaseðla, sem er nauðsynlegur liður í þessu, ef eignakönnunin á að verða að gagni. 4. kaflinn er um skráning innieigna. 5. kafli er um tilkynningu handhafaverðbréfa. Þetta eru allt ráðstafanir í sambandi við eignakönnunina. Og við þessa kafla hef ég ekki séð neitt sérstaklega athugavert. En það eru fleiri ákvæði í þessu frv., þar á meðal ákvæði, sem ég tel óheppileg og ekki eiga að vera. Er það fyrsti kafli þess og einnig 17. gr. Fyrsti kafli, eins og kunnugt er, hljóðar um útgáfu sérstakra ríkisskuldabréfa, sem eiga að vera skattfrjáls ákveðinn tíma og ekki framtalsskyld. Með þessu ákvæði og ákvæðum 17. gr. sleppa þeir menn betur við skattgreiðslu, sem að undanförnu hafa dregið undan við skattframtal nokkuð af tekjum sínum og eignum, heldur en hinir, sem talið hafa rétt fram. Þetta tel ég öðruvísi en á að vera. Lágmarkskrafa, sem ég tel, að gera verði til manna um greiðslu, er, að þeir borgi vangoldna skatta. Það getur að mínu áliti komið til greina að sleppa þeim við sektir samkv. ákvæðum skattalaganna, en meira ekki. Þessir menn mega ekki vera betur settir en þeir, sem hafa talið rétt fram.

Eitt af því, sem stendur í frv., er það, að þessi eignakönnun muni verða til þess að færa eignaframtöl manna í rétt horf nú og framvegis. Virtist mér hv. frsm. meiri hl. fjhn. undirstrika það, sem segir í grg. frv. um þetta. Ég held þetta sé á misskilningi byggt. Ég held einmitt, að ef þetta er framkvæmt með þeim hætti, að menn, sem hafa dregið undan skatti, geta sloppið betur en hinir, sem hafa talið rétt fram, eins og þeir gera, sem nota sér ákvæði 1. kafla og 17. gr., þá verði það til þess, að skattaframtöl verði lakari eftirleiðis en undanfarið. Það er að minnsta kosti ákaflega lítil hvöt fyrir menn, sem talið hafa rétt fram á undanförnum árum, að halda því áfram, eftir að komið er á daginn, að þeir, sem rangt hafa talið fram, fá verðlaun fyrir. Ég vil því leyfa mér að leggja fram brtt. við þetta frv. Ég hef nú undanfarna daga verið fjarverandi af þingi í nauðsynjaerindum og haft forsetaleyfi, kom aftur til þings í dag og hef því ekki haft nema skamman tíma til að athuga frv. Verð ég þess vegna að leggja þessar brtt. fram skrifl. Í fyrsta lagi er brtt. við 1. kafla, að 1.–8. gr. falli burt. Einnig vil ég gera breyt. á 17. gr., að hún orðist svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú kemur fram meiri eign á hinu sérstaka framtali, eða við rannsókn á því, en samrýmzt getur fyrri framtölum viðkomandi skattþegns, og skal hann þá greiða vangoldinn skatt vegna undandráttarins, samkvæmt gildandi skattalögum, án skattsekta.“ Ég vil sem sagt fella niður öll þessi hlunnindi, sem á að veita mönnum samkv. 17. gr., þar sem ákvæðin eru um 25 þús. kr. og 15 þús. kr. Þeir eiga að greiða það, sem vangoldið er, eftir því sem hægt er að komast næst, hvað það er. Ég held ekki fram, að alltaf sé hægt að komast að því rétta. En hinu held ég fram, að skylt sé að gera ýtrustu tilraun til þess. Og ég vil halda því fram, að í mínum till. sé sanngjarnlega á málum tekið. Mér þykir ákaflega einkennilegt, ef nokkur verður til þess að mæla gegn því, að sanngjarnt sé, að þeir menn, sem dregið hafa undan við skattaframtöl á liðnum árum, greiði ekki minna en hinir, sem talið hafa rétt fram tekjur sínar og eignir. Mér er óskiljanlegt, ef nokkur telur þetta of harðar kröfur.

Eitt atriði vil ég enn minnast á, þó að ég hafi ekki flutt um það brtt. Í 9. gr., þar sem talað er um sérstakt framtal eigna og tekna, er svo fyrir mælt, að þetta framtal skuli miðað við þann dag á tímabilinu frá 1. sept. til 31. des. 1947, er fjmrh. ákveður. Ég vil í sambandi við ákvæði þessarar gr. halda því fram, að það eigi að láta þetta framtal fara fram 31. des. Ég tel afar litlu máli skipta, úr því að drátturinn er svo langur orðinn á því, að málið væri tekið til athugunar, hvort þetta yrði 2–3 mánuðum fyrr eða siðar. Og ég vil benda á, að sérstakt skattaframtal kostar mikið fé og fyrirhöfn, ekki einasta fyrir ríkið, heldur fyrir alla einstaklinga, félög og stofnanir, sem lögum samkv. eiga að telja fram. Ég teldi lítt verjanlegt, ef ákveðið yrði sérstakt framtal 1. sept. eða 1. okt., þegar á það er litið, að samkv. skattal. eiga allir að telja fram um áramót. Þessu vildi ég beina til hæstv. fjmrh. Ég held fram, að ekki verði svo mikill munur á útkomu, hvort framtalið er látið fara fram að haustinu eða um nýár. En ef það er flutt til áramóta, sparast bæði fyrirhöfn og fé hjá stofnunum og einstaklingum og hinu opinbera. Ég sé ekki ástæðu til að flytja um þetta brtt., því að eins og þetta er orðað í gr., hefur ráðh. þetta á valdi sínu. — Ég mun ekki ræða þetta mál frekar að svo stöddu, en afhendi hæstv. forseta mínar skrifl. brtt. og vænti, að hann leiti afbrigða fyrir þær.