22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

255. mál, eignakönnun

Finnur Jónsson:

Ég tel rétt, áður en mál þetta fer úr d., að gera með fáeinum orðum grein fyrir afstöðu minni til þess, og sérstaklega í tilefni af ræðu hv. þm. V-Húnv. Hann taldi þetta frv. í rauninni nokkuð seint fram komið og komst svo að orði, að það hefði átt að leggjast fram strax eftir stríðslok, enn fremur, að það hefði verið áhugaleysi fyrrv. stjórnar að kenna, að þetta frv. hefði ekki fyrir löngu komið fram. Nú er það svo, að í sambandi við nýsköpunaráform fyrrv. ríkisstj. kom ekki í ljós fyrr en á s. l. hausti, að erfitt væri að fá fé til þeirra framkvæmda. Sala stofnlánadeildarbréfanna hafði að vísu ekki gengið vel. En þó voru nokkrar vonir til þess, ef síldarvertíðin hefði heppnazt vel s. l. sumar, að nóg fé hefði fengizt til nýsköpunarframkvæmda. Ég hygg, að ekki sé hægt að mótmæla þessu með nokkrum rökum. En eins og allur þingheimur veit, varð fyrrv. ríkisstj. óstarfhæf á s. l. hausti, þegar áður en þing kom saman, við það, að einn flokkanna, Sósfl., skoraðist algerlega undan að eiga nokkra umræður innan ríkisstj. um það, hvernig bæta skyldi fjárhagsástandið, þar á meðal að útvega fé til nýsköpunarinnar, meðan flugvallarmálið var ekki afgreitt. Þá var svo ástatt og er væntanlega enn í dag, að fé, sem átti að afla til A-lána stofnlánadeildarinnar af þeim 100 milljónum, sem seðlabankinn átti að lána, var ekki talið líklegt, að mundi hrökkva til nauðsynlegra lána út á þau fiskiskip, sem þegar var búið að leyfa að kaupa, og mundi þá vanta fé til annarra framkvæmda A-lána stofnlánadeildarinnar. Og um B-lánin var það að segja, að áætlað var, að til þeirra mundi þurfa 35–40 millj. En ítrekaðar sölutilraunir gáfu ekki meiri árangur en 13 millj. kr.

Til þess að afla fjár til B-deildarinnar vantaði um 27 millj. kr. Þá var vitað, að fé vantaði til framkvæmdar l. um byggingu íbúðarhúsa, og það vantaði að selja skuldabréf fyrir byggingarsjóð verkamanna og eins að selja skuldabréf fyrir byggingarsjóð samvinnumanna. Líka er vitað, að fé vantaði fyrir rafveitur og hafnargerðir og til ýmissa framkvæmda, sem ríkið hefur lofað ábyrgð fyrir. Fyrir utan þann mikla halla, sem auðséð var, að mundi verða á fjárl., var sennilegt, að fjárþörfin væri allt að 100 millj. kr. til að efna þau loforð, sem Alþ. var búið að gefa þjóðinni með ýmiss konar nýrri löggjöf. Alþ. var í rauninni líkt á vegi statt og maður, sem hafði gefið út ávísanir fyrir miklu meiri innistæðum en hann átti í banka. Það var búið að lofa þjóðinni stórum framkvæmdum, en ekkert fé var til að efna þau loforð. Þegar svona var ástatt, hljópst Sósfl. úr ríkisstj., ekki vegna ágreinings um innanlandsmál, heldur utanríkismál, ef svo mætti kalla.

Ég hygg, að það hafi verið rétt að rifja þetta svolítið upp, áður en þetta mál væri afgr., sérstaklega með tilliti til afstöðu Sósfl. til þessa máls, því að honum hefur ekki verið nóg að svíkjast um að gera tilraun til að uppfylla þau loforð, sem hann gaf í fyrrv. ríkisstj., heldur setti hann sig á móti því á allan hátt, að aðrir gætu efnt þau loforð, sem honum bar skylda til að uppfylla.

Ég tel, að þetta frv. sé tilraun til að uppfylla þau loforð, sem ég gat um áðan, tilraun til að fá fé ríkisstj. til ráðstöfunar, svo að hægt verði að efna þau nýsköpunarloforð, sem fyrrv. stjórn gaf. Ég fyrir mitt leyti tel mér sem meðlim fyrrv. stjórnar skylt að fylgja frv., m. a. með þetta fyrir augum. Ég mundi skoða mig minni mann að vilja ekki leggja neina hönd að því að reyna að uppfylla þau glæsilegu nýsköpunarloforð, sem fyrrv. stjórn gaf þjóðinni. Ég skal ekki segja, hvað upp úr þessu hefst, en það er vissulega svo, að það er mikið fé úti meðal almennings, og það var talað um það í fyrrv. ríkisstj., að það þyrfti að ná þessu fé inn á einhvern hátt. Ég man eftir því í fyrrv. ríkisstj., að á ein um fundi kom fram, að vísu ekki skrifl. till., en þó till., þar sem rætt var um, hvort ekki væri rétt að ná fé til nýsköpunarinnar að nokkru leyti á þann hátt, sem fram á er farið í þessu frv., og sú till. kom frá öðrum ráðh. Sósfl. í ríkisstj. Nú heyrum við, að Sósfl. telur á þessu öll tormerki. Hann segir m. a., að það sé verið að níðast á fátæklingunum með þessu frv., og það er þó ekki gengið nær en það, að af eignum, sem hafa orðið til annars vegar fyrir 1. jan. 1940 og dregnar hafa verið undan framtali, skuli ekkert gjald greiða og af eignum, sem til hafa orðið eftir 1. jan. 1940 og dregnar hafa verið undan skatti, skuli greiða aðeins 3 þús. kr. af fyrstu 45 þús., og af því, sem er fram yfir, skuli greiða eftir venjulegum skattstiga. Þetta kallar Sósfl. að verið sé að fara illa með fátæklinga, en fátæklingar eru þá orðnir þeir, sem eiga, að mér skilst, allt upp í 70 þús. kr. Eftir þetta gildir sá venjulegi skattstigi, og hann fer hækkandi, og get ég ekki með bezta vilja séð annað en með þessu frv. sé fyrir því séð, að þeir, sem eru vel bjargálna, verði ekki allt of hart úti, en borgi þó eftir venjulegum skattstiga, sem fer stighækkandi.

Þeir, sem á sínum tíma töluðu um það innan ríkisstj. að fara þessa leið, ættu ekki að vera á móti þessu frv. Þeir, sem voru í eða studdu ríkisstj., sem lofaði að útvega fé til hafnarbygginga, rafveitna og húsabygginga, ættu ekki eð vera á móti þessu frv., eða a. m. k., ef þeir væru á móti frv., að benda á einhverja aðra leið en þá, sem þar er stungið upp á.

Hv. þm. V-Húnv. gat þess, að það mundi vera ákaflega erfitt að komast að því rétta um það, hvað mikið hefði verið dregið undan skatti hér á landi undanfarin ár, og hefur, að mér skilst, af þeim orsökum og tveimur öðrum, sem hann tilgreindi, flutt brtt. við þetta frv. Ég held fyrir mitt leyti, að af því að erfitt er að komast að því rétta í þessu máli, þá sé sú leið, sem hér er farið inn á, fullkomlega framkvæmanleg. Ég tel, að með henni náist sá tilgangur Alþ. að útvega fé til nauðsynlegra framkvæmda, sem Alþ. er búið að lofa þjóðinni og ber skylda til að útvega. Í öðru lagi tel ég, að frv. sé þannig undirbúið, að með því náist meira réttlæti um skattgreiðslur en hægt er að ná á annan hátt.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál, en ég vildi beina því til Sósfl., að ef hann kæmi einhvern tíma aftur í ríkisstj., þá væri kannske betra fyrir hann að gefa færri loforð, en reyna heldur að uppfylla þau betur.