22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

255. mál, eignakönnun

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson) :

Hv. þm. Ísaf. er nokkur vorkunn, þó að hann segi ýmislegt hæpið, af því að svo sýnist, að hann hafi alls ekki lesið frv. eða hlustað á umr. hér. Hann sýndi það, þegar hann talaði hér við 1. umr., einu sinni þegar hann skauzt inn í Alþ., að hann vissi þá ekki, hvað hann var að tala um. Og hann sýnist ekki vita það enn, að það er nú komið fram, að gengið er út frá því af hæstv. fjmrh. og frsm. meiri hl., að það eru sáralitlar líkur til, að nokkrar tekjur fáist af þessu frv. Þetta er viðurkennt. Það er alls ekki aðaltilgangur frv. að fá tekjur af því. Og þegar hv. þm. segir, að vanti 100 millj. til að uppfylla gefin loforð, þá verður að gera um það efni aðrar ráðstafanir en þær, sem hér er um að ræða.

Hv. þm. var að afsaka, að það hefði dregizt, að frv. kæmi fram. Hann segir, að það sé fyrir það, að ekki hafi verið þörf peninga í tíð fyrrv. stjórnar fyrr en haustið 1946. Það er skrítið. Ég veit ekki betur en hann hafi staðið að því að koma fram gagngerðum till. og stórkostlegum frv. um byggingarmál, þar á meðal samvinnubyggingarfélög og aðstoð við bæjar- og sveitarfélög til að koma upp byggingum til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, en það voru ekki til peningar þá strax, og það var vitað, þegar frv. var afgr., að peningar voru þá ekki til í þessar framkvæmdir, og enn sem komið er hefur ekkert verið látið til bæjar- og sveitarfélaga, sem eru að byggja yfir fólk, sem nú býr í óhollum íbúðum. Það hefur líka verið upplýst hér á þingi, að það mundu ekki nægja venjuleg ríkisskuldabréf til að tryggja fé handa samvinnubyggingarfélögum nema að því leyti, sem lífeyrissjóður opinberra starfsmanna og bankamanna mundi hafa lánað eitthvað. Það var því orðin full þörf þá fyrir peninga. En það strandaði á þeim, sem töldu sig fulltrúa hinna ríku. Það strandaði á þeim, sem töldu sig fulltrúa gróðamannanna. Ég get sagt hv. þm. Ísaf., að það var hvenær sem var hægt að fá samkomulag um svona eignakönnun. En Sósfl. vildi ekki standa að svona lausn, þó að kannske Alþfl. hefði gert það.

Út af því, sem hv. þm. V-Húnv. talaði um drátt á þessu máli, þá tel ég, að það hefði verið miklu sæmra að slá þessu máli frá sér en að afgreiða það svo hörmulega sem hér er gert, því að þetta er hvorki eignakönnun til að rannsaka skattaframtal hjá þeim, sem mestu máli skiptir, né til að tryggja peninga til nýsköpunarinnar.

Ein af ástæðum hv. þm. Ísaf. fyrir því, að eignakönnun hefði ekki verið framkvæmd, var sú, að Sósfl. hefði neitað að taka þátt í afgreiðslu mála vegna afgreiðslu utanríkismáls. Ég veit, hvað hann á við. Þegar ráðh. Alþfl. og Sjálfstfl. voru á stöðugum launfundum við að gera flugvallarsamninginn við Bandaríkin á bak við okkur sósíalista og við vorum leyndir öllu, sögðum við, að við kynnum ekki við, að stórmál væru afgr. með leynd af tveimur flokkum í ríkisstj. bak við Sósfl., þrátt fyrir það að samkomulag hefði verið um það í stjórninni að hafa samráð um öll stærri mál. Það er ekki nema í stíl við annað hjá hv. þm. að segja, að flugvallarsamningurinn sé ekkert nema utanríkismál, en ég veit ekki betur en það sé líka innanríkismál. Það er verið að láta setja upp herstöð á okkar landi. Þetta var ástæðan.

Það hefur ekki staðið á Sósfl. að benda á leiðir til að afla peninga, enda er enginn vandi að afla peninga til nýsköpunarinnar, en þetta er ekki leiðin til þess, og það mun reynslan sýna, enda er það skýrt tekið fram í umr.

Hv. þm. Ísaf. gaf þá hátíðlegu yfirlýsingu, að hann væri með þessu frv., af því að hann vildi standa við nýsköpunarloforðin. Þetta frv. verður ekki nýsköpuninni til framdráttar, heldur þvert á móti til að torvelda nýsköpunina. Það er rétt tekið fram hjá hv. þm. V-Húnv., að framkvæmd þessara l. verður ekki til að gera ástandið heilbrigðara í sambandi við rétt framtöl, heldur til að auka á glundroðann.

Þá talaði hv. þm. Ísaf. um, að þetta frv. næði meira réttlæti í skattgreiðslum en hægt væri að ná á annan hátt. Það var leitt, að hann hlustaði ekki á flokksbróður sinn, hv. 4. þm. Reykv., í dag, því að þá hefði hann ekki þurft að segja svona setningu. Hv. 4. þm. Reykv. gerði grein fyrir, hvernig þetta réttlæti væri, sem frv. gerir ráð fyrir. Það hefur margsinnis komið fram í umr., og verður ekki mótmælt, og kom líka fram í fjhn. og viðurkennt af Þórði Eyjólfssyni, sem samdi frv., að mönnum væri mjög mismunað, þær ríku „forretningar“ fengju að sleppa við eignakönnun, af því að eignakönnunin næði ekki til vörubirgða, en hjá þeim smærri, sem ættu ekki nein slík fyrirtæki, væri eignakönnunin alger. Þeir væru gersamlega kannaðir til botns, en hinir stóru gróðamenn, sem ætti að rannsaka, sem ætti að knýja til að leggja fé fram til nýsköpunarinnar á einn eða annan hátt, þeir slyppu. Þetta er það mikla réttlæti, sem ekki hefði verið hægt að ná á annan hátt.

Það væri ósköp skemmtilegt að taka ýmsar yfirlýsingar Alþfl. í sambandi við skattal. og stórgróða og að taka stórgróðann og stríðsgróðann til afnota fyrir þjóðarheildina og bera það saman við það frv., sem hér liggur fyrir. Það er hægt að afgreiða þetta frv. nú á nokkrum dögum. Hv. þm. Ísaf. talaði um, að þetta mál mundi gefa mönnum tækifæri til að staðreyna, hvernig Sósfl. efndi sín hátíðlegu loforð, sem hann gaf fyrir kosningarnar. Ég vil eindregið mælast til þess við hv. 4. þm. Reykv., að hann taki hv. þm. Ísaf. og gefi honum prívatupplýsingar um ýmis atriði þessa frv., honum veitir ekki af því.

Hv. þm. V-Húnv. kvartaði undan því, að þetta frv. skyldi ekki hafa komið fram fyrir löngu. Ég er búinn að svara því. Það hafði verið hægt að ná svona samkomulagi við sjálfstæðismenn. Það er ekki afrek að ná svona samkomulagi. Þetta er að láta stríðsgróðamennina sjálfa um að leysa sitt eignakönnunarmál. En þetta er smán fyrir Framsfl. eftir öll hans miklu glamuryrði í ræðu og riti, sem hann hefur látið falla um röggsamlega eignakönnun, allt þangað til hann taldi sér nauðsynlegt að ganga inn á þetta frv. til að geta verið í ríkisstj., og forystumaður flokksins, sem hæst hefur talað um, hve nauðsynlegt væri að grípa á stríðsgróðanum og taka hann úr umferð og hagnýta hann til þjóðarnytja, hefur valið þann kost að láta ekki sjá sig í þinginu, meðan verið var að ræða þetta mál. Það er eðlilegt, að hann vilji ekki tala mikið um það, og hyggilegt fyrir hann að vera fjarverandi. Hann veit, að þetta frv. er í hrópandi mótsögn við það, sem hann hefur talað og lagt til fram að þessu.

Um brtt. hv. þm. vil ég segja, að þær eru út af fyrir sig hroðvirknislegar, enda er miklum erfiðleikum bundið að flytja brtt. við svona bálk, en þær eru að ýmsu leyti skref í rétta átt, og með tilliti til þess, að verði þessar till. samþ., þá eru líkur til þess, að frekari leiðréttingar fáist á frv. við meðferð þess hér á þingi, þá mun ég fyrir mitt leyti greiða atkv. með þeim, þó að þær séu nokkuð einhliða og komi nokkru ósamræmi á það kerfi, sem hér hefur verið byggt. Það mun þá koma fram, hvort Framsfl. stendur að þessum till. eða hvort þetta er bara einkafyrirtæki hjá hv. þm.

Hv. þm. A-Húnv. mótmælti því, sem ég hafði haldið fram, að Sjálfstfl. hefði knúið þetta fram. Sjálfstfl. á sjálfsagt ekki hugmyndina að eignakönnuninni, en Sjálfstfl. neytti færis að setja nafnið eignakönnun á frv. til að veita hinum skattsvikna stórgróða möguleika til að sleppa í gegn, án þess að viðkomandi menn þyrftu að borga af honum eðlilegan skatt, og hann hefur fengið það gott lag, að honum hefur tekizt að tryggja meiri hluta þings með þessu. Það er engum blöðum um það að fletta, hvaða flokkur hér á þingi telur sig málsvara stórgróðamannanna, enda er það vitað mál, að innan a. m. k. annars flokksins, sem styður hæstv. ríkisstj. með Sjálfstfl., hafa komið óánægjuraddir um, hvernig þetta mál sé í pottinn búið, sem ekki verður vart hjá Sjálfstfl. Nei, það er vitað mál, að ýmsir „mattadorar“ Sjálfstfl., peningauppsprettur Sjálfstfl., hafa þarna mikla möguleika til að sleppa í gegn, þess vegna ganga þeir inn á svona algera eignakönnun á almenning manna, vegna þess að þeir fá um leið syndakvittun fyrir stórgróðamennina.

Hv. þm. V-Húnv. lagði áherzlu á það, að draga bæri sem mest þessa eignakönnun, til 31. des. Hann minntist ekki einu orði á það, að gerðar yrðu ráðstafanir til gagngerðrar eignakönnunar, nema gagnvart stríðsgróðamönnunum. En það er vitað mál, að það, að láta líða langan frest, er bezta tryggingin, sem stríðsgróðamennirnir, sem stór fyrirtæki eiga, geta fengið til að koma eignum sínum undan, og mun það vafalaust verða óspart notað. Það er þess vegna í fullu ósamræmi við vandlætingartal hv. þm., þegar hann leggur slíkt til.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að ég mun greiða atkv. með þessum till. hv. þm. V-Húnv. Þrátt fyrir það að þær eru nokkuð einhliða, eru þær þó til bóta, þó að erfitt sé að koma með till. við s vona lagabálk eins og hér er til umr., og kemur fram í því, hvað þessar till. eru einhliða, að gera þyrfti ýmsar aðrar ráðstafanir, ef vel ætti að vera, þó að erfitt sé að koma þeim fyrir. eins og nú er komið, og ekki sízt vegna þess, að ég veit, að ef breyt. fengjust á frv., þá mundu skapast möguleikar til þess, að tækifæri gæfist til að endurskoða aðra pósta frv., sem nauðsynlega þurfa endurskoðunar við. En ekki virðast vera líkur til þess, að hægt sé að ná samkomulagi um slíkt, því að búið er að binda þetta með samningi milli stjórnarflokkanna.