22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

255. mál, eignakönnun

Finnur Jónsson:

Ég þarf í rauninni ekki miklu að svara hv. þm. Siglf. Hann getur stundum verið dálítið skrítinn og jafnvel skemmtilega skrítinn, til dæmis þegar hann talar um, að ég hafi ekki vitað, hvað ég var að gera, þegar þetta frv. var til umr. í gær og ég gerði mínar aths., né heldur vitað, um hvað verið var að tala. Til sönnunar um málflutning hans má minna hann á, að fyrir liggur skrifleg brtt. til leiðréttingar eða skýringar á þeirri gr., sem ég gerði aths. við, og geri ég ekki ráð fyrir, að fjhn. hafi lagt fram þessa brtt. einungis til þess, að hún yrði skýrari fyrir mér, heldur til leiðréttingar á frv. Nú er það svo um fjárlagaáætlunina s. l. haust, að ekki var ljóst, hvernig hún mundi reynast, þ. e. hve mikið mundi vanta, fyrr en það sýndi sig, að síldveiðarnar höfðu brugðizt. Það var alveg eins með féð í byggingarnar og svo margt annað, að það var ekki vonlaust um að fá allt, sem þurfti í byggingarnar, fyrr en eftir að síldarvertíðin hafði brugðizt í annað sinn. Nú, til sönnunar því, að l. um opinbera aðstoð við íbúðarhúsbyggingar hafi komið að gagni á s. l. ári, má geta þess, að samkv. skýrslum félmrn. voru nokkuð á sjötta hundrað byggingar í smíðum eftir þessum l. um síðustu áramót. Það er vitanlega miklu meira en nokkurn tíma áður hefur átt sér stað og miklu meira vegna þess. að l. voru samþ., en ef þau hefðu ekki verið samþ. Nú er það svo, að það er alveg sannanlegt, að fjárútvegun á síðasta hausti strandaði ekki á stríðsgróðamönnunum í Sjálfstfl., þeir fengu aldrei að ræða við Sósfl. um það mál, þar eð þeir voru ekki til viðtals um það, og mér þykir vænt um, að hv. þm. Siglf. er búinn að viðurkenna þetta, þótt á óbeinan hátt sé. Ég hef enga tilhneigingu til þess að bera blak af stríðsgróðamönnum í Sjálfstfl., en ég verð að láta þá njóta þess sannmælis, að í þessu tilfelli strönduðu öll viðtöl um fjárútvegun ekki á þeim, heldur á Sósfl. Þetta gerðist á fundum hjá fyrrv. ríkisstj., og ég veit, að hæstv. samgmrh., sem situr á móti mér, mundi votta þetta, og veit, að hann hefur skrifaðan hjá sér mánaðardaginn, og veit, að allir aðrir ráðh. í ríkisstj. vita þetta, og mér þykir vænt um, að hv. þm. Siglf., þótt óvinur sé, er búinn að viðurkenna þetta. Hann afsakar sig með því, að byrjað sé að afgreiða flugvallarmálið. Það mál bar ekki á góma á annan hátt en þann, að ráðh. Sósfl. voru ekki til viðtals um að útvega fé til þess að afgreiða gefin loforð, fyrr en búið væri að afgreiða flugvallarmálið.

En í sambandi við svona skrítilegheit og skemmtilegheit hv. þm. Siglf. vil ég rifja upp, að hann talaði um það hér, að þessi l. væru svona ákaflega óréttlát vegna þess, að þau stefndu að því að taka eignir manna, sem hefðu verið að koma sér upp húsi, og féfletta þá. Nú segir þessi maður, að í þessu frv. sé ekkert um það, að fara eigi fram athugun á fasteignum. Um sama leyti talar hann um, að hér sé verið að taka mikið fé af þeim, sem litið eiga, með þessu frv. En nú lemur hann sér á brjóst og segir, að ekkert fé komi í ríkissjóð með þessu frv. Hverjum er þá verið að gera rangt til? Nei, þetta stoðar ekki fyrir hv. þm. Siglf., það rekur sig hvað á annars horn.

Hv. þm. taldi, að þetta frv. væri ekki í samræmi við þær yfirlýsingar, sem Alþfl. hefur gefið fyrr og síðar í sambandi við stríðsgróðann. Ég fyrir mitt leyti tel, að þetta frv. sé í fullu samræmi við stefnu og yfirlýsingar Alþfl. í þessu máli, en hvaða stefnu hv. Sósfl. hefur haft í þessu máli, veit ég ekki. Ég veit, að hann hefur oft haft stór orð, en að hann hafi nokkurn tíma haft stefnu, sem honum datt í hug að framkvæma, álít ég, að hafi ekki verið til staðar. Ég hef áður rifjað upp till., sem kom fram á ríkisstjórnarfundi frá einum ráðh. Sósfl., um það beinlínis að gefa skattsvikurum upp sakir til þess að fá fé til nýsköpunarinnar. Í þessu frv. eru skattsvikurum ekki gefnar upp sakir. Gert er ráð fyrir 1% skuldabréfum, og er það ekki svo lítill eignarskattur, samanborið við það, sem sósíalistar vilja, að gefa skattsvikurum upp sakir.

Annars veit ég það, að hv. þm. Siglf. hefur alveg rétt fyrir sér, þegar hann segir, að það mundi alltaf hafa verið hægt að fá svona eignakönnunarfrv. hjá Sjálfstfl. En það er annað, sem ég veit líka, og það er það, að Sjálfstfl. hefði áreiðanlega getað fengið miklu vægara eignakönnunarfrv. hjá Sósfl., ef þeir hefðu setið saman í stjórn, því að ég varð aldrei var við annað, meðan ég sat í ríkisstj. með ráðh. sósíalista, en flokkshagsmunir og bitlingar gengju alltaf fyrir öðrum stefnumálum. Ég hef aldrei þekkt flokk, sem hefur verið eins reiðubúinn að fórna öllum hagsmunum almennings fyrir bitlinga og flokkshagsmuni. Það er þess vegna alveg sannanlegt, að ef samið hefði verið um eignakönnunarfrv. milli Sjálfstfl. og Sósfl., hefði áreiðanlega ekki verið tekið harðari tökum á. neinu af því, sem Sjálfstfl. vildi hlífa, ef Sósfl. hefði átt að semja við hann. Ég get að sjálfsögðu ekki á neinn hátt sannað þetta með vitnaleiðslum, en hitt er það, að öll fortíð Sósfl., meðan hann sat í stjórn með Sjálfstfl., ber þess glöggt vitni. Það eina, sem ég hef orðið var við, að Sósfl. setti á oddinn í ríkisstj., var sambúðin við Rússa. Ekki sambúðin við Alþfl. og alþýðu manna, heldur sambúðin við Rússa. — Ég held þess vegna, að hv. þm. Siglf. ætti að fara svolítið varlegar í það að sýna mönnum smáskrítilegheit en hann gerir, því að sá, sem býr í svo þunnu glerhúsi, ætti ekki að kasta steini að öðrum.