22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

255. mál, eignakönnun

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Af því að hv. þm. Siglf. bar mig beinlínis fyrir því, að ég hefði gefið yfirlýsingu um það, að af þessu frv. væri sáralítil von um tekjur, vil ég taka fram, að þetta hlýtur að vera misheyrn eða misminni, ég hef enga slíka yfirlýsingu gefið. Ég sagði í frumræðu minni, að þótt ég liti ekki á þetta sem höfuðtilganginn, væri frv. einnig borið fram til þess að ná í stóran hluta af þeim gróða, sem menn hyggja, að hafi verið dreginn undan skatti. Ég vildi leiðrétta þetta, því að ég vil ekki, að það sé borið upp á mig, að ég leggi í frv. þann skilning, sem hv. þm. vill vera láta. Hins vegar er það augljóst, eins og hv. þm. Ísaf. hefur réttilega bent á, að þörfin fyrir tekjur, hvort sem þær verða meiri eða minni í sambandi við þetta frv., til þess að standa undir t. d. útlátum af þessum svo kölluðu nýsköpunarfrv., það er augljóst, að þörfin er ákaflega mikil.

Hv. þm. Siglf. hefur nú haldið ýmsu fram í sambandi við frv., og hefur það — eins og komizt hefur verið að orði — virzt standa á höfði fyrir hv. þm., þegar hann talar um málið. Um eitt skeið talaði hann mjög um það, hve illa væri farið með þessa undandráttarmenn, sem verða að greiða 15% af 45 þús. kr., sem þeir draga undan skatti. Þm. ber þungar sakir á þá, sem fyrir frv. standa, fyrir það, hvað þeir séu harðhentir og óréttlátir í garð þessara manna, sem í augum þm. eru fátækir, en ég efast um, að geti kallazt það. En svo kemur það einkennilega fyrir, að þegar hv. þm. V-Húnv. kemur með brtt., sem miðar að því að taka talsvert harðari höndum á þessum flokki manna, sem um ræðir hér í 17. gr. frv., þá lýsir hv. þm. Siglf. yfir því, að hann muni aðhyllast brtt. hv. þm. V-Húnv. Þetta virðist mér nú m. a. sanna það, að hv. þm. hafi ekki meint mjög mikið með þeim fullyrðingum sínum, sem hann viðhafði við í umr. málsins varðandi það, hve hart þessir skattþegnar yrðu úti.

Annars er ekki ástæða til að orðlengja meira um þetta mál. Það er orðið svo áliðið þings, og frv. á eftir að fara gegnum aðra d. En ég held, að þegar frv. er athugað æsingalaust og án sérstakrar tilhneigingar til þess að færa ákvæði þess til verri vegar, þá muni það koma í ljós, að við samningu þess hefur gert vart við sig rík tilhneiging til þess að láta þá, sem hafa skotið undan framtölum hinum svo kölluðu minni upphæðum, ekki verða hart úti, og aftur hitt, að gera þeim, sem stærri syndir hafa á bakinu í þessum efnum, þung gjöld að greiða sem nokkurs konar sekt fyrir þau skattsvik, sem þeir kunna að hafa á samvizkunni. — Þetta mun nú láta nærri, að sé sú rétta mynd af frv. eins og það er. En hv. þm. Siglf. hefur sagt mjög margt um þetta mál, og sé ég ekki ástæðu til þess að eltast við það allt, en út af fyrir sig er þessi fullyrðing hans um það, að ég hafi staðhæft það, sem ég aldrei hef sagt, góð mynd þess, hvernig þm. hefur tekið á málinu.