22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

255. mál, eignakönnun

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Satt að segja finnst mér afstaðan til þessa máls hafa skýrzt mjög mikið við þessar umr. Hv. þm. Ísaf. gaf þá yfirlýsingu, að frv. væri í fullu samræmi við stefnu og yfirlýsingar Alþfl. fyrr og síðar. Þá má segja, að ljóst sé um afstöðu þessa virðulega flokks: hann stendur óskiptur og einhuga með frv. Það er í samræmi við yfirlýsingar hans og stefnu fyrr og síðar, segir þm. Þá þarf enginn að villast framar á þeim virðulega flokki í þessu sambandi. Hér er stefnan, yfirlýsingarnar, svo sem þær hafa verið fyrr og síðar: frv. ríkisstj. um eignakönnun.

Það er dálítið öðru máli að gegna með Sjálfstfl. Einn virðingamesti maður þessa flokks innan þings, hv. þm. A-Húnv., hefur lýst ákveðinni andstöðu við frv. og hefur lýst yfir, að með þessu væri að því stefnt að lama lánastarfsemi og allt framkvæmdalíf þjóðarinnar og þeirra áhrifa mundi gæta um langa stund. Hins vegar standa flokksbræður hans — og fremstur í flokki hæstv. fjmrh. — með frv. og verja það með oddi og eggju, og vitað er með vissu, að Sjálfstfl. hefur lagt á það verulega áherzlu að koma frv. á framfæri. Sjálfstfl. er sem sagt klofinn um málið, og kemur engum á óvart, og brotalömin er sú sama og í öðrum stórmálum, annars vegar milli fulltrúa heildsalanna og annarra stórgróðamanna innan flokksins og hins vegar þeirra manna, sem eru fulltrúar hinna smærri framleiðenda í landinu. Og það er ekki að efast um, að þótt það sé hv. þm. A-Húnv. einn af þeim þm. þess flokks, sem í raun og veru eru hér fulltrúar smáframleiðenda, sem hefur þorað að taka þessa afstöðu, eru fleiri, sem hugsa á sama hátt og hann. Sjálfstfl. er þarna greinilega klofinn.

En svo kemur Framsfl. Ég hef ekki í þessum umr. heyrt nema eina rödd úr þeim herbúðum, en þó má vera, að fleiri hafi talað, því að ég gat ekki alltaf verið við í dag, en þessi rödd er frá hv. þm. V-Húnv., og hann lætur sitthvað til sín heyra. Hann byrjaði ræðu sína að vanda — ég segi að vanda, því að nærri allar ræður, sem hann hefur flutt á þessu þingi, hefur hann byrjað nokkurn veginn á sama hátt — með því að segja, að það hefði verið svo sem nær að gera eitthvað í þessa átt, þegar fyrrv. ríkisstj. sat að völdum og Sósfl. var þar þátttakandi. Hann byrjaði á að tala um það, að þetta eignauppgjör hefði átt að framkvæma í stríðslok og þá hefði verið tækifæri fyrir Sósfl. að taka skelegglega á þessum málum. Aftur og aftur klifar hann á því sama, að sósíalistar hefðu getað framkvæmt ýmis stórvirki og róttæka hluti í því stjórnarsamstarfi, sem þeir voru í um tveggja ára skeið. Svo heldur hv. þm. áfram og segir, að frv. sé nú að vísu dálítið gallað. Það er sem sé heill kafli, 1. kaflinn, sem ætti þarna alls ekki að vera, og svo er það líka heil grein önnur, 17. gr. í 3. kaflanum — sbr. 17. gr. í jarðræktarl. á sínum tíma —, sem er svona veigamikil, því að hún kveður á um það, hvaða viðurlög skuli viðhöfð, þegar upp kemst um skattsvik, og er hann þeirrar skoðunar, að þessi gr. sé óverjandi, eins og hún er í frv. Það er dálítill galli á frv., hv. þm. V-Húnv.! Og til þess að undirstrika þetta betur lýsir þm. þessu á þessa leið: Þeir sleppa betur, sem talið hafa rangt fram, en hinir, sem hafa talið rétt fram. Það er nú ekki leiðinlegt að fá að vera með í því að setja löggjöf með fulltrúum stórgróðamannanna, sem felur í sér, að þeir, sem telja rangt fram, sleppi betur en hinir. Það skal raunar játað, að hv. þm. V-Húnv. fannst þetta eiginlega heldur rangt, en vill þó ekki kveða sterkara að orði. Framsfl. er með þessu frv. Ráðh. hans flytja það, og flokkurinn stendur með því. Þó að hv. þm. V-Húnv. ætli nú að skerast úr leik og reyna að hamla gegn því, að þeir séu látnir sleppa verr, sem gera rétt, en hinir, sem gera rangt, stendur sú staðreynd eigi að síður, að flokkur hans virðist sem heild standa með þessu.

Svo kom þm. inn á að minnast á það, að l. ættu að færa framtölin til réttari vegar en áður hefði verið. Ekki hafði hann trú á, að þetta tækist. Það var síður en svo, að hann áliti, að þetta færðist í rétt horf með þessum l., og hann ályktaði alveg rétt. Nú sjá þeir, sem hafa svikið skatta, að þeir fá bara betra út. Ja, því þá ekki að byrja aftur? Hv. þm. veit þetta, en eigi að síður fluttu ráðh. hans flokks frv., sem miðar að því, að fleiri en verið hefur telji ranglega fram, vegna þess að nú fá skattsvikararnir vissu fyrir því, að þeir muni sleppa betur en þeir, sem telja rétt fram. Hvernig ætla ráðh. flokksins að fara að þessu? Er þetta bara rödd hrópandans í eyðimörkinni? Verður aðeins þetta eina atkv. á móti af flokksmönnum? Það er alveg rétt brtt., sem þessi þm. kemur fram með við 17. gr. Hann vill gerbreyta henni. Hann vill breyta henni í það form, að þeir sleppi ekki betur, sem hafa gert rangt, en þeir, sem hafa gert rétt, Er þetta stefna Framsfl. eða er þetta bara ein rödd norðan af Hvammstanga? Reynslan sker úr því.

Ráðh. flokksins bera fram frv., sem einn af þm. flokksins lýsir þannig, að þeir sleppi betur sem rangt geri, en þeir, sem rétt geri, og þannig, að þeir, sem skattsvikin fremji, viti, að þeim sé það óhætt, af því þeir þurfi að borga minna eftir á en ef þeir hafi talið rétt fram.

Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum að þessum hv. þm. í tilefni af ásökunum hans í garð Sósfl. út af því að hafa ekki gengið í samstarf við þennan flokk. Nú sjáum við, hvað hægt er að gera í samstarfi við þennan flokk, samstarfi Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., sem er í samræmi við sína yfirlýsingu fyrr og síðar. Það eru fleiri mál, sem mætti nefna. Það eru fleiri mál, sem hafa verið afgr. með samstarfi þessara flokka. Það er búið að afgreiða l. um fjárhagsráð. Mér og hæstv. menntmrh. og fleirum var falið það í fyrra sumar að vinna að því, að samvinnufélögin fengju nokkurn veginn réttlæti í innflutningsmálum. Við gengumst með gleði undir verkefnið. Það var samþykkt, að samvinnufélögin gerðu kröfur til þess að fá innflutning á vefnaðarvörum, skófatnaði og slíku í sama hlutfalli og matvörum. Þessu var komið á framfæri hér á þingi, en vegna samstarfsins við Sjálfstfl. varð menntmrh. að ganga á móti kröfum samvinnumanna, að ganga á móti því, sem hafði verið lofað í fyrra. Það er náttúrlega fleira, sem þessir flokkar hafa afgreitt í sameiningu, og skal ég ekki telja það upp, en sannleikurinn er sá, að ég veit, að í samstarfi við þessa menn, fulltrúa heildsala og braskara, er ekki hægt að framkvæma neitt, sem er í samræmi við vilja vinnandi manna í landinu. og ég get sagt það, að við sósíalistar höfum reynslu af þessu. Við höfum unnið með þessum flokki í 2 ár. Það er hægt að koma ýmsu í verk með honum, en þegar þurfti að afla fjármagns með róttækum aðgerðum, var það ekki hægt nema með sköttum á hið breiða bak fjöldans. Það var ekki hægt að skattleggja heildsala og aðra stórgróðamenn. Sósfl. var ekki til í samstarfið. Þetta gerði ekkert til, því að hv. þm. V-Húnv. og menn hans voru tilbúnir að flytja frv. eins og þetta, sem hér er til umr., frv., sem heitir frv. um eignakönnun, en ætti að heita frv. um löggildingu skattsvika. Þetta var Framsfl, tilbúinn að styrkja, gegn því heyrðist bara ein rödd norðan af Hvammstanga.

Nú ætla ég að síðustu að segja nokkur orð við þennan hv. þm. út af samstarfinu við burgeisa Sjálfstfl.: Það er kominn tími til þess fyrir alla róttæka menn á Íslandi og fulltrúa verkamanna og bænda á Íslandi að reyna að vinna saman, en ekki með heildsölum, með fjmrh. og forsrh. Þarna eru tveir heildsalar, og þeir eiga víst að geta komið ár sinni vel fyrir borð, og þeir eru alltaf vissir, á meðan til eru menn, sem vilja flytja frv. eins og þetta frv. um eignakönnun, sem ætti að heita frv. um löggildingu skattsvika. Ég veit það eftir tveggja ára samvinnu, að annars er ekkert samstarf. Þessi hv. þm. ætti að vita það fyrir löngu, því að hann er búinn að vinna lengur með þeim. Það er gagnslítið fyrir hv. þm. V-Húnv. að standa hér upp og lýsa ámáttlega því frv., sem flutt er hér, þegar augljóst er, að það er á þeim grundvelli, sem hv. þm. hefur líkað og líkað vel.

Ég mun greiða atkv. með brtt. hv. þm. V-Húnv. Ég skal taka undir þessa rödd frá Hvammstanga, en mér þykir leiðinlegt, að hún skuli ekki finna hljómgrunn hjá hæstv. menntmrh. og hæstv. landbrh. Ég skal taka undir, þegar hann sýnir, að hann vilji koma á samstarfi innan þings eða utan til þess að fá fram róttækar aðgerðir í landinu, og ég skal hlaupa undir bagga með Sjálfstfl., þegar hann þarf að koma fram skynsamlegum málum.