22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

255. mál, eignakönnun

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. er ákaflega hrifinn af þeim hetjuskap sínum að flytja þessar brtt. við málið og finnur þar mikinn mun á afrekum okkar, sem hann segir, að engin rödd hafi heyrzt frá. — Ég hef áður bent honum á, að þessi eignakönnun, sem frv. gerir ráð fyrir, er ekki annað en háðung, ef hún verður ekki framkvæmd á þeim eignum, sem ég áður gat um, og hv. þm. V-Húnv. hefur gætt þess rækilega að koma hvergi nærri aðalatriðunum í brtt. sínum. Hér er aðeins gert ráð fyrir að gera „stikkprufu“ í örfáum greinum og framkvæma þessa svo nefndu eignakönnun eftir dúk og disk. Þetta gerir það að verkum, að engin raunveruleg eignakönnun verður hjá þeim ríkari. Samt sem áður vill hann ekki viðurkenna þetta og afsakar sig með því, að svo erfitt sé að koma slíku við. Þetta er rangt, það er hægt, en þeir, sem segja, að þetta sé óframkvæmanlegt, eiga ekki að koma fram með frv. um ýtarlega eignakönnun á alla hina smærri, sem miklu minni ástæða er til að ætla, að hafi svikizt undan skatti heldur en hinir ríkari, sem hér er gefinn kostur á að sleppa. Um þetta höfuðatriði flytur hv. þm. V-Húnv. engar brtt. Ég er sannfærður um það, að meginhluti stórgróðamannanna er þannig settur vegna ákvæða frv., að hann þarf ekki á því að halda að kaupa ríkisskuldabréf, af því að þessir menn geta með bókfærslulegum brellum hagað svo til sínu framtali, að þeir þurfa ekki að festa fé í þessum bréfum, og þetta er höfuðástæðan fyrir því, að þetta frv., þegar það er orðið að l., kemur ekki til með að afla ríkissjóði mikilla tekna. Ef sú raun yrði á, að þingmeirihluti fengist fyrir því að lagfæra frv. í þessum höfuðatriðum, er Sósfl. reiðubúinn til samstarfs um þessi mál og til að taka þátt í endurskoðun á frv. og vill sitt til þess leggja, að frv. verði gert sem bezt úr garði. Það er líka rétt að taka það fram, að meðan verið var að semja þetta frv., var farið með það eins og mannsmorð og þess vandlega gætt, að Sósfl. frétti ekkert um það eða fengi ekkert að leggja til málanna. Þar kom fram þetta sama, að ætlunin er ekki að framkvæma eignakönnun, eins og eignakönnun með réttu á að vera, heldur að löghelga skattsvik stóreignamanna, en til þess að sýnast og til þess að binda eignir hinna smærri á að framkvæma róttæka eignakönnun á þeim. Brtt. hv. þm. V-Húnv. eru enginn hetjuskapur, og hann gætir þess mjög vandlega að koma hvergi nærri þeim atriðum, sem hans flokkur hefur beygt sig í duftið fyrir, sem sé stórgróðamönnunum. Það er helgur dómur, sem ekki má á neinn hátt raska, og þess gætir þessi hv. þm. mjög dyggilega.

Hv. þm. V-Húnv. sagði, að mér færist ekki að kvarta yfir því, að framkvæmd þessa máls yrði frestað, því að ef mín till. yrði samþ., yrði sá frestur miklu lengri. Þetta er alveg öfugt. Ef ríkisstj. starfaði samkvæmt minni till., væri hægt að útbúa frv., sem yrði lagt fyrir þingið strax og afgreitt og framkvæmt strax á eftir, því að aðalatriðið er, að sem stytztur tími líði, frá því frv. væri samþ. og framkvæmd hafin, því að eftir því sem lengri tími líður, þar til framkvæmd hefst, þeim mun meiri möguleiki er fyrir stórgróðamennina til þess að koma sér undan eignakönnun. Við höfum því ekki borið fram neinar brtt. við frv., því að séð er, að þetta mál hefur fyrir fram verið ákveðið og samið um, og við munum sjá það við atkvgr. um till. hv. þm. V-Húnv., að hans flokksbræður eru alveg bundnir. Það kom beinlínis fram hjá hv. frsm. meiri hl. n., að það yrði ekki um neinar verulegar breyt. á frv. að ræða, því að fulltrúar flokkanna í hæstv. ríkisstj. hefðu þegar komið sér saman um afgreiðslu málsins.

Hæstv. fjmrh. bar til baka ummæli sín um, að sáralítilla tekna væri að vænta af þessu frv. Ég man ekki nákvæmlega, hvernig orð féllu, en hann gerði sjálfur lítið úr tekjuhlið þess, enda kom það fram hjá honum, er hann sagði, að engin leið væri að segja um það fyrir víst, hvort af því fengjust miklar eða litlar tekjur. Virðist mér því staðfest, að frv. sé ekki borið fram fyrst og fremst til þess að afla ríkissjóði fjár. Það er borið fram í allt öðrum tilgangi, eins og ég hef áður minnzt á.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að það væri ósamræmi í því, er ég sagði, að frv. gengi hart að almenningi í landinu, en mundi samt litlar tekjur gefa. Þetta er þó hin sorglega staðreynd, vegna þess að stórgróðamönnum er sleppt. Hins vegar veldur þetta geysilegri röskun á lífi mikils hluta almennings, og langflestir munu geta sýnt það, að þeir hafa ekkert dregið undan skatti. Þessar ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, eru ekki nauðsynlegar þeirra vegna, og þar með munu þessi l. ekki gefa nema óverulegar tekjur, þar sem stórgróðanum er sleppt, svo sem ég hef margtekið fram, en þaðan var einmitt teknanna að vænta. Þetta bendir til þess, að hv. þm. Ísaf. hefur ekki fylgzt með málinu. Það kom líka fram við 1. umr. þessa máls, að hann lagði rangan skilning í 17. gr. frv. Nm. voru sammála um, að allir mundu geta skilið orðalag þessarar gr., en misskilningur þessa hv. þm. kom mönnum til að íhuga, að þar sem þm. hefði getað orðið slíkt á, væri ástæða til að ætla, að sauðsvartur almúginn misskildi gr. Þess vegna var ákveðið að breyta orðalagi hennar, og er nú komin fram skrifleg brtt. þar að lútandi. — Annars var ræða hv. þm. Ísaf. alleinkennileg, og gerði hv. þm. V-Húnv. sér mikinn mat úr henni, þar sem hann ræddi um síld og peninga. Fæ ég heldur ekki séð, hvernig peningar hafi átt að fljóta inn til nýsköpunarinnar, þótt síld veiddist, því að ekki er fjármuna frá útgerðinni að vænta, þótt henni græðist fé. Helzt væri það, að hásetarnir keyptu stofnlánabréf, en slíkt mundi þó aldrei nema neinni verulegri upphæð.

Þá vil ég mótmæla þeim ummælum í garð Sósfl., að hann vilji gefa mönnum upp sakir. Slíkt fleipur er ekki svaravert, og hirði ég ekki um að elta ólar við slíkt.

Þá sagði hv. þm. Ísaf., að á 6. hundrað íbúða væri í byggingu samkvæmt byggingarl. fyrrv. ríkisstj. Ég hallmælti aldrei þessu frv. á sínum tíma eða 1., en vil aðeins benda á það, að það vantaði ákvæði í frv., sem til þurfti til þessara framkvæmda. Það vantaði fjármagn, og það vantar enn. Hef ég reynt að gera tilraunir til þess að hindra, að þessar byggingar stöðvist vegna fjárskorts, og hefur tekizt að merja nokkurt fé í þessu skyni. Allt hefur þetta þó gengið mjög treglega, og er engan veginn komin sú upphæð, sem nauðsynleg er. Hins vegar standa þó vonir til, að þessar framkvæmdir þurfi ekki að stöðvast, enda eru þeir fjármunir til í landinu, að til slíks ætti ekki að þurfa að koma, og vil ég fastlega vænta þess, að hæstv. ríkisstj. afli fjár, a. m. k. til þess að hægt verði að halda áfram þeim íbúðum, sem verið er að byggja samkv. l. — Þá lýsti hv. þm. Ísaf. því yfir, að þetta frv. væri í fullu samræmi við stefnu Alþfl. Vil ég enn á ný minna á þá þáltill., sem hann ásamt 5 flokksbræðrum sínum flutti hér fyrir síðustu kosningar, um að skipa 5 manna mþn. til þess að gera till. um sérstakan skatt á stórgróðann. Vísa ég til fyrri ummæla minna í kvöld, er ég var að svara hv. 4. þm. Reykv. og las till. upp og lýsti allri málsmeðferð hennar, en till. var aldrei afgr. Nú er hins vegar komið til framkvæmdarinnar, því að nú er komið fram frv. um eignakönnun á stórgróðann. Býst ég við því, að mörgum, sem létu ginnast af þessari till., sem aðeins var flutt í áróðursskyni, því að Alþfl. flaggaði óspart með henni í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar, muni nú finnast lítið fara fyrir skattaálagningu á stórgróðann hjá Alþfl.

Út af þeim ummælum hv. þm. Ísaf., að eðli Sósfl. væri þannig, að honum stæði á sama um hagsmuni almennings og hugsaði um ekkert annað en bitlinga fyrir forustumenn sína, vil ég taka það fram, að það verður ekki eftir neinum yfirlýsingum hv. þm. Ísaf. eða neinna annarra flokksbræðra hans, sem Sósfl. verður dæmdur. Hann verður dæmdur eftir því, hvernig hann framkvæmir sín stefnumál, og það verða líka aðrir flokkar. Og Alþfl. verður líka dæmdur á sama hátt, og Framsfl. ekki síður. Þeir flokkar verða dæmdir eftir því, hvernig þeir hafa framkvæmt sín stefnumál. Og einmitt þessa stund er Alþfl. að gefa fólki því, sem kaus hann í góðri trú, vegna þess að það hélt, að hann ætlaði að skattleggja stórgróðann og gera ráðstafanir til þess að hagnýta hann til alþjóðarþarfa — einmitt nú er Alþfl. að gefa fólki þessu tækifæri til þess að öðlast nokkra þekkingu á þessum flokki af reynslunni. Sú þekking verður vafalaust mjög dýrkeypt fyrir marga. En það er einmitt á svona stundum eins og við stöndum á nú, sem flokkar eru reyndir og eftir reynslunni dæmdir.