22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

255. mál, eignakönnun

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég get ekki neitað því, að mér þótti gaman að horfa á skylmingar þeirra hæstv. menntmrh. og hv. þm. V-Húnv. En ég tek ekki undir það fornkveðna, að þar hafi mætzt tveir seigir. En ég hefði óskað, að hinn góði málstaður frá Hvammstanga sigraði þar. En ég held, að þessi veiki gróður, sem þar hefur komið fram hjá stjórnarstuðningnum, eigi sér því miður lítillar hlýju von nema frá stjórnarandstöðunni.

Hæstv. menntmrh. sagði, að fyrrv., ríkisstj. hefði átt að dreifa gróðanum. Þetta er rétt. Það var allmikið um það talað, að nauðsynlegt væri að dreifa gróðanum. Það var líka af hæstv. menntmrh. talað um það, að þetta hefði ekki verið gert. Það er einnig rétt. Það er sem sé staðreynd, að það verður aldrei framkvæmd nein auðjöfnun í landinu eða dreifing gróðans í samstarfi við Sjálfstfl. Þetta er reynsla, sem Sósfl. hefur fengið, og reynsla, sem Framsfl. hefur hlotið að fá fyrir mörgum árum. Hins vegar var það alveg óhætt fyrir Sjálfstfl. að koma fram svo í þessum málum eins og honum sýndist í samstarfi við Framsfl., því að hann hefur vitað, og hv. þm. V-Húnv. hefur einnig vitað, að Framsfl. var tilbúinn til að starfa með Sjálfstfl. að því að dreifa stríðsgróðanum ekki. — Svo var hæstv. menntmrh. að tala um það, að það hefði verið þolað og þótt gott í tíð fyrrv. stjórnar, að menn hefðu svikið undan skatti, og því væri nú komið sem komið væri. Og mér fannst hæstv. menntmrh. klökkna af þessum orðum. Það hefði verið þolað, meðan Sósfl. var í stjórn. Þetta hefði svo sem verið betra, áður en fyrrv. stjórn tók við, og allt hefði verið þá með felldu, skildist mér. En nú fæ ég ekki betur séð en að eftir því frv., sem fyrir liggur, sé gert ráð fyrir, að menn hafi svikið undan skatti, jafnvel löngu fyrir tíma þeirrar lofsælu fyrrv. stjórnar Sósfl., Alþfl. og Sjálfstfl. Það eru a. m. k. í sambandi við skattsvik fyrir þann tíma, en eftir 1940, ákvæði í því, og eru þeir, sem þá byrjuðu að svíkja skatt, látnir sæta sérstökum vítum. Það er sem sé gert ráð fyrir því í frv. sjálfu, að menn hafi áður svikið skatt en fyrrv. ríkisstj. tók við völdum, og eiga þeir að sæta vítum með nokkuð öðrum hætti en hinir nýrri skattsvikarar. Ef allt hefði verið með felldu í stjórnartíð hæstv. núverandi menntmrh., þá hefði þetta ákvæði verið óþarft. Það skyldi þá ekki vera, að núverandi hæstv. menntmrh. hefði á þessum árum skipað hinn virðulega sess fjmrh.? Og þar áður, þegar einnig var svikinn skattur, þá ætla ég, að hann hafi setið í hinu þýðingarmikla sæti skattstjórans í Reykjavík. Og það skyldi nú ekki vera, að það hefði verið svikið undan skatti öll þessi ár, undir hinni ágætu forustu hæstv. núverandi menntmrh.? Svo kemur þessi hæstv. ráðh. klökkur og talar um það með fjálgleik, að það hafi verið svikinn skattur þessi tvö ár, sem Sósfl. hefur setið í stjórn, — það hefði verið eitthvað öðruvísi nú, ef þetta hefði ekki verið gert þessi tvö ár.

Svo heldur hæstv. menntmrh. áfram og fer að tala við flokksbróður sinn, hv. þm. V-Húnv., og segir: Ef Framsfl. hefði ráðið þessu frv., þá hefði það verið öðruvísi. Þá væri frv. ekki eins og hv. þm. V-Húnv. leggur nú til. Það hefði ekki verið undir neinum kringumstæðum meiningin að hafa það eins og hann lagði til. Síður en svo. Heldur ætlaði Framsfl. að finna upp alveg sérstakt kerfi, sem að vísu var ekki ýtarlega lýst, en ekki átti það að vera neitt í líkingu við það, sem röddin frá Hvammstanga vill vera láta. — Er þetta skrípaleikur, sem er verið að leika hér? Hæstv. menntmrh. stendur hér upp og lýsir stefnu Framsfl. sem slíkri kalt og ákveðið, en hv. þm. V-Húnv. flytur svo brtt. við frv., sem fer í bága við þessa yfirlýstu stefnu hæstv. menntmrh., sem á að vera stefna Framsfl. Ég hef ekki heyrt, að skilnaður hafi orðið á milli hv. þm. V-Húnv. og Framsfl. að öðru leyti. Eitthvað virðist þetta vera undarlegur skrípaleikur. Það skyldi þó ekki vera þannig. að þessi eina rödd eigi að kalla þetta úr flokknum og svo ætti að segja það fáfróðum mönnum úti um land, að svona hafi Framsfl. viljað hafa þetta.

Ég held, að það hefði verið æskilegt, að hér færi fram nafnakall um þetta mál, til þess að sjá, hve margir framsóknarmenn verða með Hvammstangaröddinni.

Hv. þm. V-Húnv. byrjaði sína ræðu á því að segja, að ég hefði undirstrikað með hv. þm. A-Húnv., að eignakönnunin fyrirhugaða mundi valda mjög mikilli truflun á atvinnulífinu. Ég lýsti aðeins þessari skoðun hv. þm. A-Húnv., en sagði ekkert sérstakt um hana, hvorki til lofs né lasts. Ég benti aðeins á, að ekki væri Sjálfstfl. alveg samtaka um þetta mál. — Og það er kannske fleira en þetta, sem hv. þm. V-Húnv. hefur heyrt illa. En þarna hefur honum misheyrzt alveg.

Hv. þm. V-Hún v. hefur talað hér um sósíalista, að nú komi þeir með ýmsar till. eftir á, sem þeir hefðu átt að geta framkvæmt, meðan þeir voru í stjórnaraðstöðu á síðustu tveim árum. Hv. þm. veit þó vel að þessar róttæku till. verða ekki framkvæmdar með höfuðbröskurum Sjálfstfl., ekki fremur en hans till., sem hann nú hefur lagt fram í skattamálunum. Það er sem sé lærdómur sem ég var fyrir mitt leyti tiltölulega fljótur að læra, að í samstarf við þennan flokk, Sjálfstfl., verða ekki framkvæmdar róttækar till. Og hæstv. menntmrh. hefur lýst því, bæði nú og áður, að Framsfl. sé bundinn stjórnarsamningum í stjórnarsamvinnunni. Og það var einnig svo, meðan samstarf var milli Sósfl. og Sjálfstfl., að báðir flokkar voru þar bundnir af samningum. En það sýndi sig, að það var ekki lengi hægt að halda áfram þeim samningum. Svo mjög bar á milli um stefnuna.

Þá var hv. þm. V-Húnv. að tala um það, hvar væri rödd sósíalista í þessu máli. Hann kvaðst ekki hafa heyrt hana. Það er nú svo. En áhugi hans fyrir þessu þýðingarmikla frv., sem hann hefur látið sína rödd gjalla fyrir, var ekki meiri en það, að hann hélt sig norður á Hvammstanga, alveg öruggur um að vera ekki í neinu kallfæri þegar umr. byrjuðu og fóru fram að verulegu leyti um þetta mál. Hann hefur því ekki heyrt svo að segja neitt af því, sem um málið hefur verið sagt á þessu þingi. — En hitt er annað mál, að það er að sjálfsögðu þýðingarlítið fyrir okkur sósíalista að bera fram brtt. við þetta frv. Þær verða ekki samþ. Við vitum það vel. Við þekkjum þá aðila, sem að þessu frv. standa, of vel til þess, að okkur komi til hugar, að nokkrar till. að okkar skapi verði samþ. við frv. Og það er ekki sérstaklega hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að vera að koma fram með brtt. við þetta frv., sem stjórnin hefur ákveðið, að skuli ganga fram. Það er nóg fyrir stjórnarandstöðuna að gagnrýna frumvörp eins og við höfum gert, sýna fram á ágalla þeirra og hvernig þau mættu á annan veg vera. En þýðingarlítið starf fyrir okkur væri að forma brtt. aðeins til þess að láta fella þær. Og ef hv. þm. V-Húnv. efast um það, að gagnslítið sé fyrir stjórnarandstöðuna að flytja brtt., þá mun hann sannfærast um það, þegar hann sér, hvernig fer um það græna tré, sem hann ber fram.

Hv. þm. V-Húnv. bar sig illa yfir því að hafa ekki komið fram þeim till., sem okkur báðum var falið á Blönduósfundinum að koma fram fyrir Samband ísl. samvinnufélaga. En hann spurði: Hvernig var aðbúnaður gagnvart S. Í. S. hjá fyrrv. ríkisstj.? Hann var slæmur. Og hann verður alltaf slæmur, þar sem heildsaladeild Sjálfstfl. raunverulega ræður mestu. Þessi hv. þm. mun eiga eftir að sanna, að aðbúnaður þessarar stjórnar, sem nú situr, að S. Í. S. verður áreiðanlega mjög slæmur. Og hann skal ekki vera það barn að halda, að það sé eða muni vera hægt að gera samninga við fulltrúa heildsalanna, m. a. þá, sem nú sitja í ráðherrastólunum, um góðan aðbúnað að Sambandi ísl. samvinnufélaga.

Að lokum fór hv. þm. V-Húnv. að tala um, að minn flokkur hefði fyrr og síðar neitað allri samvinnu við Framsfl. Þetta er tóm vitleysa, eins og hann veit vel. Við höfum hvað eftir annað lagt fram okkar grundvöll fyrir samstarfi við Framsfl., og meira að segja höfum við stundum gert mikið til þess að reyna að koma á samstarfi milli þessara flokka. En það hefur ekki tekizt. Það hafa nefnilega alltaf verið öfl í þeim flokki, sem standa nærri því að vinna með heildsölunum í Sjálfstfl. Þess vegna hefur þetta ekki tekizt.

Ég er ekki á nokkurn hátt að bera blak af því samstarfi, sem við höfum haft hér við Sjálfstfl. En það skildist mér fljótt, að sá flokkur er ekki samstarfshæfur fyrir róttæka flokka. Og þetta veit hv. þm. V-Húnv. og á eftir að reyna þetta betur. — Ég vorkenni hv. þm. V-Húnv. dálítið það, sem hann hefur orðið fyrir hér í kvöld, m. a. með þeim hætti, að hæstv. menntmrh. hefur fundið sig knúðan til að standa upp og mótmæla hans till. Og ég tel rétt af honum að yrkja nú sér til hugarhægðar. Mér þykir vænt um, að hv. þm. V-Húnv. skuli geta létt af sér hörmum með því að iðka þá þjóðlegu íþrótt að kasta fram einni bögu.