23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

255. mál, eignakönnun

Frsm. meiri hl. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Það er vissulega ekki neitt nýtt, þó að talað sé á Íslandi um slæm skattaframtöl eða orð leiki á, að dregið sé undan skatti. Um þetta hefur verið rætt í fjórðung aldar, eða síðan l. um tekjuskatt voru sett 1921. Að vísu var til lítils háttar skattur fyrir 1921, en hann var svo smávægilegur, að hans gætti ekki, og skattaframtöl þekktust ekki fyrr.

En fljótt eftir að skattal. voru sett, myndaðist orðrómur um það, að allir, sem því kæmu við, drægju tekjur og eignir undan skatti. Ástæðurnar til þessa liggja að nokkru í mannlegu eðli, þeirri tilhneigingu að safna miklu fé, og svo hafa l. sjálf átt þátt í því, hvernig farið hefur í þessum efnum. Og satt að segja hafa skattal. nú síðari ár verið miðuð við það, að fé sé dregið undan skatti. Í ungdæmi mínu gekk sú saga um kaupmann einn, að hann launaði fólki sínu mjög illa. Einn vinur hans fór að tala um þetta við hann og sagði honum, að þetta gæti ekki gengið, því að fólkið gæti ekki lifað af þessu, en kaupmaður svaraði því til, að það stæli jafnmiklu, hvort sem því væri launað mikið eða lítið. Sama er að segja um skattalögin. Það er talið hæfilegt að hafa skattstigann svo háan, af því að gengið er út frá því, að dregið sé undan skatti. En nú getur ekki hjá því farið, að þetta skapi mikið misrétti, ef einn maður með sömu tekjur og einhver annar verður að borga tvöfaldan skatt á við hann. Þessi undanfari átti vafalaust höfuðþátt í því, að þegar samningurinn var gerður milli núverandi stjórnarflokka, þá var eitt aðalatriði hans, að fara skyldi fram eignakönnun. Takmark hennar er fyrst og fremst það að koma framtölunum í rétt horf og fá fullkomið yfirlit yfir það, hverjar eignir séu til í landinu. Árangurinn af þessu samningsatriði er nú kominn í ljós með þessu frv. á þskj. 884. Það hefur verið til athugunar, að vísu skammrar, í fjhn. Fjórir nm. mæla með, að frv. verði samþ. óbreytt, en einn, hv. 4. landsk. þm., hefur sérstöðu, sem hann mun gera grein fyrir. Ég býst við, að öllum hv. þdm. sé fullkunnugt efni þessa frv., og mun ég því ekki rekja efni þess nema að litlu leyti, en reyna að vekja athygli á ákvæðum, sem sérstaklega hafa valdið ágreiningi eða vafi er á, hvernig beri að skilja.

Eins og ljóst er, er þetta frv. þannig sniðið, að það á að gera kleift að telja rétt fram án þungra refsinga, þó að menn hafi orðið sekir um undandrátt undanfarin ár. Af sumum var það talið óverjandi, hvað refsing við skattsvikum væri væg, og er rétt, að samkv. þessu frv. er ekki þung refsing við eldri undandrætti, en mjög þung, ef talið er rangt fram við þetta framtal, sektir allt að 200 þús. kr. eg allt það fé, sem undandregið er, eign ríkissjóðs. Það þarf ekki að færa mikil rök að því, hvers vegna þessu er svo hagað. Þetta gerir miklu minni truflun en ef farið er eftir reglunni auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Það er líka hægt að láta refsivöndinn ná til manna, ef efni standa til. Og ef undandrátturinn er jafnalmennur og haldið er fram og líkur eru til, þá er ekki heppilegt frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar að láta refsivöndinn ná til allra, sem sekir hafa orðið um þetta. Þær aðferðir, sem ætlazt er til, að notaðar verði við þetta, eru í fyrsta lagi, að boðið verður út ríkisskuldabréfum með 1% vöxtum, sem mönnum er gefinn kostur á að kaupa fyrir þá peninga eða verðbréf, sem þeir hafa dregið undan, eftir nánari ákvæðum l. Ef þeir nota peningana eða verðbréfin, sem þeir hafa dregið undan, til þess að kaupa þessi bréf, eru þeir lausir allra mála um ábyrgð vegna eldri undandráttar. Í 6. gr. segir, að þessi bréf skuli eigi talin með skattskildum eignum manna, og er þetta til þess, að menn verði ekki hræddir við það að verða stimplaðir skattsvikarar, þó að þeir kaupi þessi bréf. Ég skal geta þess við 5. gr., að veðskuldabréf skuli keypt við nafnverði, ef þau eru þinglesin fyrir 1. júlí 1946. Þessu hefur verið breytt frá því. sem upphaflega var í frv. Þar var 1. jan. 1947, og verð ég að játa, að það er mjög hæpið að miða við 1. júlí 1946, því að enginn var farinn að spekúlera með verðbréf af ótta við eignakönnun fyrir áramót, enda var þessi stjórnarsamningur ekki gerður fyrr en í febrúar. En þetta leiðir til þess, að þeim, sem hafa eignazt bréf eftir þann tíma, er skapað misrétti, en n. hefur ekki séð sér fært að flytja við þetta brtt. Í 7. gr. eru svo ákvæði um það, að þegar innlausnar er krafizt, þá skuli bréfið skráð á nafn eiganda, enda skal sá, er við greiðslu tekur, greina skriflega frá nafni sínu og heimilisfangi. Í 8. gr. eru svo ákvæði um það, ef fram kemur eignarauki hjá mönnum eftir 1. ágúst og hvernig með hann skuli farið, og er þetta sett til þess, að menn geti ekki notað þessi bréf til þess að dylja með eign sína frá því, að hún verði framtalin eftir eignakönnunina. Um það hefur verið rætt, að þessi tilhögun mundi gera mönnum kleift að nota tímann til að koma undan eigum sínum, þetta mundi valda ýmiss konar glundroða, og má nú vera, að ekki verði komizt hjá ýmsum miður æskilegum viðskiptum í sambandi við þetta. Það er hætt við, að ýmsir festi kaup á ýmiss konar óþarfa, til þess að fjármunir þeirra þurfi ekki að koma í ljós. En hjá þessu er ekki hægt að komast, úr því að þessi möguleiki er gefinn. Á það hefur verið minnzt, að þetta þyrfti að koma eins og þjófur á nóttu, líkt og var í Danmörku og Noregi, þar sem l. voru samþ. á einni nóttu og framkvæmd daginn eftir. Þetta er ekki hægt með þessu fyrirkomulagi, því að gefa verður frest til að kaupa bréfin, en þann frest er líka hægt að nota til að kaupa önnur verðmæti, sem ekki er æskilegt. En ég held, að með þessu móti fáist það bezta, sem hægt er með þessari tilhögun, sem hér er ákveðin.

Samkv. öðrum kafla á sérstakt framtal að fara fram á tímanum frá 1. sept. til 31. des. 1947, en fjmrh. ákveður daginn. Það þótti ekki heppilegt að ákveða daginn, enda hættulaust að gefa ráðh. vald til þess að ákveða hann. Á þessum tiltekna degi eiga menn svo að telja fram allar eigur sínar, nema áður nefnd ríkisskuldabréf, en þau eru undanþegin framtalinu eftir nánari reglum, sem áður er getið. Í 15. gr. eru ákvæði um það, hvaða skýrslna er heimilt að krefjast og skylt að afhenda og víðtækar heimildir, svo að hægt sé að vita, hvort framtölin séu rétt. Í 17. gr. eru sérreglur um það fé, sem fram kemur við framtalið, en hefur ekki verið talið fram áður. Um fyrstu 45 þúsundirnar gilda eftirfarandi reglur. Eign, sem ekki nemur meiri upphæð en 25 þúsundum og orðið hefur til fyrir 1. jan. 1940, skal undanþegin og eigandi hennar ekki sæta refsingu. Hér er um sakaruppgjöf að ræða eða nokkurs konar fyrningu. En af eignum, sem orðið hafa til eftir þennan tíma, eru fyrstu 15 þúsundirnar frjálsar, af 15–25 þús. eru 5%, af 25–35 þús. 10% og af 35–45 þús. eru 15%, þ. e. a. s., af 45 þús. kr. eign þarf viðkomandi að greiða 3 þús. kr. Sumum kann að þykja þetta vægilega í sakirnar farið, og það er það raunar, en það kemur svo margt til athugunar í þessu sambandi. Það hefði t. d. verið hæpin leið að skylda alla, sem dregið hafa undan, að festa fé sitt í verðbréfum, þó að það hefði verið hugsanlegt, en þegar ekki er um meiri upphæðir að ræða en hér, þá er hugsanlegt. að viðkomandi þurfi að grípa til þess fjár til framfæris sér og sínum, og þá óheppilegt, að það sé fast í verðbréfum. Mönnum finnst 45 þús. kr. allmikil fjárhæð, en í rauninni er kaupmáttur hennar ekki mjög mikill. Annars skal ég játa það, að um það má mjög deila, hvort hér sé hitt á hið rétta, hvort hin frjálsa upphæð skuli vera hærri eða lægri.

Næsti kafli frv. er um innköllun peningaseðlanna. Það hefur verið álitið, að á síðustu árum hafi allmiklu af seðlum verið skotið undan, þ. e. teknir úr umferð, að sjálfsögðu í því skyni að losna við skattgreiðslur af þeim upphæðum. Þetta er mjög varhugavert og kannske það alvarlegasta af ágöllum skattalöggjafarinnar, því að þetta getur ruglað allt hagkerfi landsins. Ég skal ekki ræða frekar um það, hvers vegna menn hafa gripið til þessa, en sennilega er fyrsta ástæðan sú, að vextir hafa verið lágir, svo að lítið hefur um þá munað, og menn því farið að geyma peningana heima. Þetta ásamt undandrætti frá skatti hefur sjálfsagt valdið mestu í þessu máli. Það atriði, að skylda bankana til þess að gefa upp innistæður, tel ég mjög vafasamt, enda hefur það komið að litlu liði. Hins vegar hefur það orðið til þess, að menn hafa ekki treyst, að bankarnir gæfu upp þær fjárhæðir, sem þeir eiga inni, en afleiðingin hefur verið sú, að trúnaðurinn hefur verið minni en æskilegt er. Nú liggur í augum uppi, að þó að peningarnir verði kallaðir inn, þá heldur seðlahamstur áfram eftir innköllunina, nema einhverjar ráðstafanir verði gerðar. Það er því mikil nauðsyn að vekja aftur gagnkvæmt traust milli bankanna og viðskiptamannanna. Það getur líka verið stórhættulegt fyrir menn að geyma fé sitt heima í seðlum, því að mörg dæmi eru til þess, að stórar upphæðir, sem menn hafa sparað saman með súrum svita, hafa brunnið til ösku. Slíkt er að sjálfsögðu mesta ólán og nauðsynlegt að fyrirbyggja.

Þá hefur verið um það spurt, hvort þessi seðlainnköllun verði ekki óhóflega dýr. Því er til að svara, að heildarkostnaðurinn verður að sjálfsögðu nokkuð mikill, en kostnaðurinn við seðlainnköllunma verður ekki tilfinnanlegur út af fyrir sig, því að ráðgert er að nota sömu mótin, en skipta aðeins um lit á seðlunum. Annars er prentunarkostnaður á seðlum mjög mikill. Varðandi 23. gr. frv. hafa sumir haldið því fram, að þar væri gert ráð fyrir óþarfa skriffinnsku, þar sem menn þurfa að sýna vegabréf eða nafnskírteini við afhendingu seðla. Ég skal viðurkenna það, að þetta ákvæði mun vera óþarft upp til sveita og í fámennum þorpum, en hér í Reykjavík og öðrum stærri kaupstöðum landsins er þetta ákvæði nauðsynlegt, því að annars gæti sami maðurinn komið hvað eftir annað. Það er því á misskilningi byggt, að hér sé um óþarfa skriffinnsku að ræða.

Þm. Barð. spurði að því hér í d. í gær viðvíkjandi 26. gr., hversu mikið fé það væri, sem Landsbankanum væri ætlað af hagnaði þeim, sem innköllunin hefur í för með sér. Eins og stendur í grg., eru það 2% af seðlafjárhæðinni, en heildarupphæðin mun vera um 160 milljónir. Það eru því nálægt 3 millj., sem Landsbankinn fær. Þetta er að vísu nokkuð há upphæð, en þess ber að gæta, að bankanum er ætlað að bera allan kostnað af seðlaskiptunum.

Fjórði kafli frv. fjallar um nafnskráningu innieigna í lánsstofnunum. Það hafa sumir talið þetta óþarft og álitið, að lánsstofnanirnar gætu gefið þetta upp, en þetta er misskilningur. Það eru margir, sem eiga þetta 4 til 5 bankabækur, og þess vegna væri þetta svo erfitt og stirt í vöfum, ef bankinn ætti að leita þetta uppi, en hins vegar mjög auðvelt fyrir eigandann að gefa upp sínar bækur. Sömuleiðis munu allmargir eiga nafnlausar bækur, en auk þess geta menn flutt til, þannig að heimilisfangið sé allt annað nú en það var, þegar umrædd upphæð var lögð inn í bankann, og þar af leiðandi nær ómögulegt að finna út viðkomandi eiganda nema með langri leit. Eins og hér er gert ráð fyrir, er aftur á móti auðvelt að finna bækurnar, þegar viðkomandi eigandi gefur upp númer á sínum bókum. Ég geri ekki ráð fyrir, að þörf sé að fara lengra út í þetta atriði, til þess að menn skilji nauðsyn þessa ákvæðis í frv.

Í 34. gr. eru ákvæði um þær innistæður, sem ekki hefur borizt yfirlýsing um innan tilskilins tíma, og renna þær upphæðir til ríkissjóðs. Þó þótti rétt að veita ráðh. heimild til þess að víkja frá þessu ákvæði, ef sérstakar ástæður lægju fyrir hendi. Það má geta þess í þessu sambandi, að það liðu 20 ár, þegar gömlu landsbankaseðlarnir voru kallaðir inn, þar til þeir síðustu komu. Í slíkum tilfellum getur verið um athugunarleysi að ræða og það hjá fólki, sem alls engar ástæður hefur til þess að missa það fé, sem um ræðir, t. d. getur verið um gamalmenni að ræða, sem ekki fylgjast með, enda er ekki sennilegt, að í slíkum tilfellum sé um háar upphæðir að ræða.

Þá er það næsti kaflinn, sem fjallar um tilkynningu handhafaverðbréfa. Öll innlend handhafabréf, sem út hafa verið gefin fyrir framtalsdag og þann dag eru í umferð innan lands eða utan, skal tilkynna til sérstakrar skráningar, og er gert ráð fyrir, að bréfið sé merkt.

Það er kannske rétt að geta þess, að gert er ráð fyrir, að aðeins bréfið, en ekki vaxtamiðar eða arðmiðar, verði stimplað, því að það að stimpla það allt. mundi hafa í för með sér óeðlilega fyrirhöfn, sem vart mundi svara kostnaði.

Í 38. gr. er svo ákveðið, að fyrir drátt á tilkynningu verðbréfa geti fjmrh. úrskurðað eiganda í sekt allt að 25% af andvirði bréfanna og vanræksla á sýningu varði missi þeirra. Í 42. gr. eru svo nánari ákvæði um þetta.

Síðasti og 6. kafli frv. er um ýmis ákvæði varðandi framkvæmd laganna, og álít ég ekki sérstaka ástæðu til að gera hann að umtalsefni.

Ég hef nú drepið á þau atriði í frv., sem ég taldi, að þyrfti að gera nánari grein fyrir en gert er í nál. og grg., en vel má vera, að fleiri atriði séu þess verð, að þau séu gerð að umtalsefni, og ef einhverjir hv. þm. vilja fá nánari upplýsingar, mun ég láta þær í té, eftir því sem ég get. — Ég hef þá ekki fleiri orð um þetta, en óska fyrir hönd meiri hl. fjhn., að frv. þetta nái fram að ganga og hljóti samþykki hv. þd.