23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

255. mál, eignakönnun

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason) :

Herra forseti. Ég hef við 1. umr. þessa máls gert stuttlega grein fyrir afstöðu minni til þess. Ég hef ekki getað orðið sammála meiri hl. n. um þetta mál. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. gat um, leggur hann til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég legg hins vegar til, að frv. verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá — með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem frv. það, sem hér liggur fyrir, er að mörgu leyti illa undirbúið og í því felst raunverulega engin eignakönnun á stórgróðann, en hins vegar koma ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir, mjög hart niður á smærri skattþegnum, og í trausti þess, að ríkisstjórnin útbúi og leggi fyrir næsta þing frv. til l. um eignakönnun, sem miðað sé við það að ná til stóreignanna fyrst og fremst, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil nú gera nokkra grein fyrir viðhorfi mínu til þessa máls.

Í fyrsta kafla frv., í sambandi við þau ákvæði, sem á eftir fara, er kveðið á um það, að menn skuli þvingaðir til þess að leggja fé sitt í hlutabréf eða innistæður með lágum vöxtum — 1% — eða að öðrum kosti vera stimplaðir sem skattsvikarar. Hv. frsm. vildi ekki viðurkenna þetta. Hann sagði, að ef undandregnar eignir reyndust vera yfir 15 þús. kr., þá væri kannske ástæða til þess, að gerð væri út af því rekistefna, en ef upphæðin væri minni en það, kæmi slíkt ekki til greina. Þetta er að vísu rétt, en þó er það viðurkennt af hv. frsm., að í slíku tilfelli er viðkomandi maður samt sem áður stimplaður sem skattsvikari. Þetta frv. mun bera árangur að því leyti til, að þessi 1. kafli og eftirfarandi ákvæði frv. munu ná tilgangi sínum gagnvart þeim, sem ekki hafa aðstöðu til þess að fela eignir sínar í verðmætum eða í erlendum bönkum. Þá er og í frv. gert ráð fyrir, að eftir að eignin er orðin 35–40 þús. kr., þá skuli greidd af henni 15%. Hv. frsm. vildi gera lítið úr þessu. Ég vildi þó meina, að það munaði ekki svo litlu, því að þegar það er komið upp í 45 þús., þá nemur þetta um það bil 3000 kr., og vera kann, að suma munaði ekki svo lítið um það.

Í 4. kaflanum er það sama uppi á teningnum. Í báðum tilfellunum hafa menn um tvennt að velja: annaðhvort að leggja eigur sínar inn á litla sem enga vexti til langs tíma eða vera stimplaðir sem skattsvikarar. Þessir kaflar ná því fullkomlega tilgangi sínum gagnvart þeim — eins og ég hef áður sagt —, sem ekki geta lagt fé sitt í verðmæti eða komið því fyrir erlendis.

6. kaflinn fjallar um ákvæði, er varða framkvæmd laga þessara. Sá kafli er gersamlega einskis virði. Þar er gert ráð fyrir, að skipuð sé af fjmrh. sérstök nefnd, sem kallast skal framtalsnefnd, og eiga sæti í henni 3 menn og 3 til vara, og skal fjmrh. eftir tillögum hennar setja nánari reglur um framtölin. (PM: Þetta er nú í 15. gr.) 15. gr. er nú um framtölin, en ég er að tala um B.-kaflann og ákvæði hans, sem varða framkvæmd laga þessara. Þessi þriggja manna nefnd skal sem sagt sjá um framkvæmd laganna. Kafli þessi er aðeins til þess að sýnast, og auk þess er valdið yfir framkvæmd skattalaganna með þessu lagt í hendur fjmrh. í enn ríkara mæli en ella. Hann hefur sem sagt í höndum vald til að ákveða, hverjir skuli settir undir smásjá og hverjir sleppa. Niðurstaðan verður þessi: Þeir, sem eiga sparifé, verða fyrir barðinu á l., en þeir, sem mikið hafa umleikis og hafa jafnvel lögfræðinga í þjónustu sinni til þess að koma eignum sínum undan skatti, þeir hafa öll tækifærin til þess að sleppa. Þetta eru sem sagt lög, sem harðast koma niður á hinum smáu, en ekki hinum stóru í þjóðfélaginu. Það er nú svo, að það eru helzt hinir efnaminni, sem eiga fé sitt í sparisjóði, og ætti yfirleitt að hvetja menn til þess. Þetta frv. mundi valda miklum truflunum í þessu efni, og ákvæði laga þessara kæmu hart niður á þeim, er sízt skyldi. Ég get ekki hugsað mér meira ranglæti en að láta stórskattsvikara og smáeignamenn sitja við sama borð í þessum efnum. Hér á landi er það iðulega svo, að þegnarnir verða að leggja fé sitt fyrir í bönkunum til þess að eiga eitthvað, þegar versnar í ári. Þetta fé hafa menn oft talið fram til tekjuskatts, en ekki til eignarskatts. Hér er því yfirleitt ekki um bein skattsvik að ræða, heldur aðeins vangá.

Ef frv. þetta verður að lögum, mega menn vissulega vera vel á verði til þess að falla ekki í einhverja gryfjuna, sem þeim er búin með þeim, og ef út af er brugðið, jafnvel þótt það sé óviljandi, þá varðar það ströngum viðurlögum. Einna makalausust eru þó ákvæðin um það, að hægt sé að taka 25% af innstæðum í sektarfé, ef þeir koma ekki í bankann og gefa yfirlýsingu um, að þeir eigi sparisjóðsbækur, sem þeir sjálfir eru skráðir fyrir. Hv. frsm. gat þess, að erfitt mundi fyrir bankana að gefa skýrslur um innistæður. Ég þekki ekki bókhaldskerfi bankanna og veit ekki, hvernig það er, en allt þetta yfirlýsingafargan, sem frv. gerir ráð fyrir, yrði ekki svo lítið umstang, og harla hart, að menn séu dæmdir hart fyrir að koma ekki í bankann og yfirlýsa sig eigendur að innistæðum, sem bankinn veit, að þeir eiga, og gera sig þannig að fífli, eða að öðrum kosti að hljóta jafna sekt og þeir, sem ekki hafa skráð sig með réttum nöfnum. Allt það bákn, sem skapast mundi með setningu laga þessara, mundi að fróðra manna hyggju kosta nokkrar milljónir, en engar upplýsingar hafa þó verið gefnar um það, eins og æskilegt hefði verið. Mér virðist sem forsvarsmenn frv. þessa hafi ekki farið dult með það, að þeir fylgdu frv. m. a. til þess að koma í veg fyrir eða torvelda það, að frv. um eignakönnun, sem hald væri að og næði til stórgróðans, yrði samþ. síðar. En þetta er einmitt ein ástæðan fyrir því, að ég tel, að frv. eigi ekki að ná fram að ganga, og önnur sú, að það kemur aðallega niður á hinum efnaminni í þjóðfélaginu, en ekki þeim, sem helzt ættu að verða fyrir því, eða nánar tiltekið stórgróðamönnunum.

Frv. þessu er ekki hægt að breyta, svo að gagn verði að, öðruvísi en að umsteypa það algerlega og semja nýtt frv., en til þess þarf vandlegan undirbúning.