11.11.1946
Neðri deild: 14. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

56. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson) :

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 82, sem hér er til umr.,er flutt af heilbr.- og félmn. samkv. ósk félmrn., og er gert í því skyni að gera lögin léttari í framkvæmd. Það felur ekki í sér neinar endurbætur eða breytingar, heldur aðeins viðauka, sem gerir framkvæmd l. auðveldari á fyrsta árinu.

Ég skal nú rekja efni frv.

Fyrsta atriðið er, að iðgjöldin árið 1947 innheimtast með vísitöluálagi, er miðist við 300 stig. Meðalvísitala ársins hefur enn ekki verið reiknuð, og má búast við, að því verði ekki lokið nægilega snemma, en ekki er hægt að bíða lengi með að fara að innheimta iðgjöldin. Er það von okkar, að vísitalan verði ekki mjög fjarri 300 stigum.

Annað atriði er, að skírteinagjaldið 1947 skuli vera 30 kr., jafnt fyrir konur og karla. Í l. er það ákveðið, að það sé ekki jafnt, en það þótti hagkvæmara að hafa það jafnt og skiptir heldur ekki miklu máli, hvort það hækkar hjá öðru kyninu, en lækkar hjá hinu.

Þriðja atriðið er um það, að iðgjöld atvinnurekenda, sem lögð eru á með tekju- og eignarskatti 1947, skuli eigi innheimt, hafi atvinnurekandinn hætt rekstri fyrir árslok 1946.

Fjórða atriðið varðar sjúkrasamlögin, þannig að vangreiðslur iðgjalda hafi í för með sér réttindamissi. Sjúkrasamlögin starfa áfram árið 1947. og því þarf að taka þetta fram.

Fimmta atriðið fjallar um sjúkrasamlagsiðgjöldin. Þau eru mjög misjöfn eftir því, hvar á landinu er. Er hér lagt til, að lágmarksiðgjald verði 60 kr. á ári.

Þetta er það helzta, sem frv. þetta felur í sér. Ég vona, að hv. d. afgreiði þetta mál, því að telja verður þetta nauðsyn, meðan l. eru að koma til framkvæmda. Þar sem frv. er borið fram af heilbr.- og félmn., sé ég ekki ástæðu til að vísa málinu til n.