20.12.1946
Efri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

23. mál, gjaldaviðauki 1947

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Nd. hefur samkvæmt till. fjhn. þeirrar d. gert lítils háttar breyt. til skýringa, að mér virðist, á frv., eins og það fór frá þessari d. Eins og frv. var, þá var ríkisstj. heimilt að innheimta á árinu 1947 með 100% viðauka vitagjald, aukatekjur ríkissjóðs samkvæmt l. nr. 27 27. júní 1921 o.s.frv. Þessu orðalagi hefur verið breytt þannig, að nú stendur í frv. „þær aukatekjur ríkissjóðs, sem taldar eru í l.–VI. kafla l. nr. 27 27. júní 1921“, þ.e.a.s. að VII. kafli þessara l. fellur niður. Það var og tilætlunin, þegar málið var hér afgr., að þessi kafli félli niður, þó að orðalagið væri látið standa, eins og það var í frv. Ég sé ekki, að þessi breyt., sem Nd. hefur gert á frv., þurfi að valda neinum töfum, og tel ég rétt, að d. samþ. frv., eins og það er hingað komið.