29.11.1946
Efri deild: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Það er í sjálfu sér ekki auðvelt að svara fyrirspurn hv. þm. Það fer fyrst og fremst eftir óskum þess manns, sem með viðskiptamálin fer á þeim tíma, sem leyfin eru veitt. Viðskiptaráð mundi að sjálfsögðu ekki láta fara fram leyfisveitingu í janúar, nema viðskmrh. væri því samþykkur. Ég mundi ekki láta fara fram úthlutun gjaldeyrisleyfa, fyrr en séð verður, hvaða afgreiðslu mál þetta fær á Alþ., og er mér nær að halda, að flestir mundu gera hið sama, er svo stendur á sem nú.

Ég efast um, að það sé rétt hjá hv. þm., að leyfisveitingar hafi farið fram í janúar. Ég held þær hafi oftast dregizt fram í febrúar og jafnvel marz, því að fyrr hefur varla unnizt tími til þess. En hvað sem um það er, hygg ég, að þm. þurfi ekki að bera kvíðboga fyrir því.