29.11.1946
Efri deild: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Aðalefni þessa frv. er það að framlengja l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð. Svo er í frv. eitt ákvæði, sem ekki beinlínis snertir þetta og raunverulega hefði ekki átt að vera í þessu frv., vegna þess að tilgangurinn með því er aðeins sá að framlengja l., en ekki að endurskoða þau. Ég álít, að það séu aðeins tveir kostir fyrir hendi í þessu máli. Annar er sá, að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir, m. ö. o. samþykkja framlengingu á þessum l., sem sennilega flestir eru sammála um, að sé nauðsynlegt. Hinn kosturinn er sá að taka l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð til endurskoðunar. Og ef það er gert, er hætt við, að fleira komi til greina heldur en það eitt, sem hv. þm. Barð. gerði hér að umtalsefni, aðstaða útvegsmanna. Það líta margir svo á í landinu — það er áreiðanlegt —, að meðferð þessara mála sé ekki réttlát, og að það sé að sumu leyti l. að kenna og að sumu leyti framkvæmdinni á þeim, t. d. að gjaldeyrisfyrirkomulagið skapi eins konar einokunaraðstöðu þeirra, sem innflutninginn hafa haft, og útþenslumöguleikar nýrra fyrirtækja og reyndar annarra séu hindraðir. Ef það á á annað borð að fara að taka l. sjálf til meðferðar og endurskoðunar, þá er ég hræddur um, að það veiti ekkert af því að vísa frv. til n. Og ég held meira að segja, að það veiti ekkert af því, að n. hafi nokkurn tíma til umráða til þess að starfa að athugun frv. Og gæti þá svo farið, að l., sem nú gilda og hér er stefnt að að framlengja, féllu úr gildi núna í vikunni, og þessi mál yrðu sem sagt þar með stjórnlaus, sem ég hugsa að enginn óski eftir. — Og ég segi það, að ef hv. þm. Barð. eða aðrir fara að bera fram brtt. um að breyta l. sjálfum, þá mun ég óska eftir, að þeirri umr., sem þær brtt. eru bornar fram við, verði frestað og málinu vísað til n. Ég álít, hvort sem þessar brtt. eiga rétt á sér eða ekki, að það sé óforsvaranlegt að fara að bera fram brtt., sem þýða breyt. á l. sjálfum, við frv., sem í raun og veru er ekki um annað en að framlengja ákveðin l., og ætlast svo til, að frá því verði gengið á skyndifundi á einum degi. — Ég og mínir flokksmenn munu greiða atkv. með frv. eins og það liggur fyrir, því að við álítum þessa framlengingu l. nauðsynlega. En það eru margar breyt., sem við óskum eftir, að gerðar verði á þessum l. í heild sinni, alveg eins þýðingarmiklar eins og þær, sem hv. þm. Barð. er hér að orða. En hvað bíður síns tíma. Og það er ekki á nokkurn hátt hindrað, þó að þetta frv. verði samþykkt óbreytt og verði að 1., að menn geti borið fram frv. um breyt. gjaldeyrisl. eða alveg frv. um ný gjaldeyrlsl. Því að þó að svo standi í þessu frv., að l. skuli framlengd, þá er það auðvitað mál, að það bindur ekki þingið á nokkurn hátt, þannig að það geti ekki alveg eins sett nýja löggjöf um þessi mál, ef þinginu svo sýnist. — Þetta vildi ég nú biðja hv. þm. Barð. að athuga, að breyt. nú á l. sjálfum, ef samþykki næðu, hljóta að trufla gang þessa máls og gera það hæpið, að l. verði framlengd fyrir 1. des. n. k.