29.11.1946
Efri deild: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þessari síðari ræðu hv. þm. Barð. Hann talaði um það sem höfuðbreyt. á 1., sem þetta frv. er um framlengingu á, að lagt er til, að leyfisgjaldið vegna innflutningsleyfa skuli vera innheimt um leið og leyfi er gefið út, en ekki um leið og varan kemur hingað.

Ég játa, að ef ég hefði litið svo á, að hér væri um höfuðbreyt. að ræða á l., þá hefði mér ekki dottið í hug að bera þetta fram. En þetta er borið fram af því, að gert var ráð fyrir, að enginn maður hefði neitt við það að athuga, að þessi leiðrétting færi fram á l., um leið og l. voru framlengd. Hér er verið að reyna að koma í veg fyrir ósið, sem komizt hefur á í þessu efni. Það er verið að reyna að bæta úr ágalla, sem fram hefur komið, að er á l., og það er ekki hægt að sjá, að það geti orðið til tjóns fyrir nokkra aðra heldur en þá, sem — svo maður taki sér í munn venjulegt orðtak — eru að braska með innflutningsleyfin. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir þetta oft kallaða brask, og hér er um ekkert annað að ræða, sem sé tilgangurinn með þessari breyt. Það er því alls ekki verið að reyna að ná sér niðri á þeim mönnum, sem reka innflutningsverzlun á eðlilegan og heilbrigðan hátt. En það sjá allir, að það er ótækt, að menn séu að verzla með innflutningsleyfin, kannske árum saman, án þess að fá nokkurn tíma að taka vörur út á þau, og hindra á þann hátt, að aðrir menn, sem hafa miklu betri rétt til innflutnings, sem geta veitt þá þjónustu, sem þjóðfélagið óskar eftir, fái að rækja sitt starf.

Ég get ekki skilið, að þessi breyt. geti orðið til gagns fyrir fjársterkustu fyrirtækin, enda þótt hv. þm. Barð. talaði hér í umr. um einhverja séraðstöðu þeirra fyrirtækja, eins og þau nytu einhverra forréttinda á einhvern hátt, og vitnaði hann í timburkaup frá Svíþjóð og Rússlandi. Það gildir hið sama um timburkaup frá Rússlandi og Svíþjóð, að borga þarf vöruna frá þessum báðum löndum, áður en henni er skipað um borð, og það er misskilningur hjá hv. þm., ef hann heldur, að aðstöðumunur manna um innkaup frá þessum löndum á timbri stafi af einhverri ástæðu í sambandi við veitingu innflutningsleyfa. Ástæðan er sú, að menn, sem fá lítil innflutningsleyfi, eiga óhægara með að fá vöruna innflutta, nema þeir sameini sig um flutning á henni til landsins eða fái þá stóru til þess að taka hana með í sín skip, og þessir erfiðleikar koma jafnt til greina, hvort sem leyfisgjaldsgreiðsla fer fram um leið og innflutningsleyfi er veitt eða eftir á. Það er vitanlegt, og hv. þm. Barð. veit það kannske betur heldur en margir aðrir, hve mikill aðstöðumunur er yfirleitt á milli þess að reka viðskipti í stórum stíl eða smáum stíl.

Ég þarf ekki mörgu við það að bæta, sem ég áður sagði viðvíkjandi kröfum þeim, sem hv. þm. Barð. ber fram um rétt útvegsmanna til þess að fá fulltrúa í viðskiptaráð. Ég skal fúslega játa, að langtum æskilegra væri, að viðskiptaráð væri þannig skipað, að það væri einhver sá maður í viðskiptaráði, sem útvegsmenn treystu sérstaklega til að sjá fyrir hagsmunum þeirra. En hv. þm. verður að gera sér það ljóst, að ef sú leið væri valin að veita útgerðarmönnum með l. rétt til þess að fá fulltrúa í viðskiptaráð, mundu aðrar stéttir koma, sem þættust hafa ekki minni rétt heldur en útgerðarmenn í þessum efnum, — og ekki sízt fyrir það, að ég hygg, að útgerðarmenn séu sú stétt landsins, sem sízt þarf að kvarta um það að hafa ekki fengið uppfylltar sínar óskir um innflutning. Það hefur orðið að takmarka mjög verulega innflutningsbeiðnir, sem komið hafa frá flestum eða öllum öðrum stéttum þjóðfélagsins. En ég hygg, að það muni vera erfitt að finna dæmi þess, að útgerðarmönnum hafi verið neitað um innflutning á vörum, sem þeir hafa þurft vegna atvinnu sinnar. — Heldur hv. þm. t. d., ef útgerðarmenn fengju þessum kröfum hans framgengt, að það liði á löngu, þangað til kannske fullt eins háværar kröfur um hið sama kæmu frá iðnaðinum um að fá fulltrúa í viðskiptaráð? Ég nefni þessa stétt, en það mundu áreiðanlega fleiri stéttir koma með sömu kröfu einnig, að ég ekki tali um, hvaða kröfur verzlunarstéttin sjálf mundi gera í þessu efni. Hún mundi, og vafalaust með nokkrum rökum, geta sagt. að innflutningurinn skipti hana sem stétt ekki minna máli heldur en aðrar stéttir í þjóðfélaginu. — Ég lít svo á, að það væri ekki vel farið, að nokkur sérstök stétt hefði fulltrúa í viðskiptaráði. Ég held, að heppilegra sé, að þeir, sem í því ráði eru, líti á sjálfa sig sem embættismenn, sem eigi að koma algerlega hlutlaust fram og eigi að líta á málin frá hagsmunasjónarmiði þjóðfélagsins í heild sinni, en ekki frá stéttarhagsmunasjónarmiðum, hvorki einnar stéttar né annarrar, og heldur ekki þeirrar stéttar, sem kannske er tilhneiging til að hlynna sérstaklega að, eins og útvegsmannastéttinni. Ég held, að heildarsvipur viðskiptaráðs verði einna skemmtilegastur með því, að það líti á sig sem sagt í þjónustu þjóðfélagsins í heild, en ekki í þjónustu stéttanna í þjóðfélaginu.

Hv. þm. Barð. talaði um það, að á árunum 1930–1939 hefði verið illa búið að útgerðarmönnum og að þeir hefðu þá ekki getað fengið innflutning á þeim tækjum, sem þeim voru nauðsynleg. Það þýðir náttúrlega ekki að fara að ræða um þetta mál nú. En ég held áreiðanlega, að ekki sé ástæða til að brigzla því viðskiptaráði, sem hefur haft þessi mál með höndum nú undanfarin ár, að það hafi fetað í fótspor fyrirrennara sinna, ef það er rétt, sem hv. þm. Barð. segir um það viðkomandi þessum árum, 1930–1939. (BSt: Það er nú mikið efamál? Já, ég býst líka við, að það sé nú. Hv. þm. Barð. talaði um, að ekki væri hægt að sjá, að þessir menn, sem farið hafa með innflutningsmálin, hefðu neina sérþekkingu á viðskiptamálum þjóðarinnar. Um þetta má náttúrlega deila til eilífðar. En ég held, að ef hv. þm. Barð. rennir augum yfir þá menn, sem nú eru í viðskiptaráði, þá hljóti hann að komast að þeirri niðurstöðu, að yfirleitt hafi þeir menn fengið þann undirbúning fyrir sitt starf þar, að þeir hafi þá þekkingu á viðskiptamálum þjóðarinnar, sem nauðsynleg er til þess að geta innt þessi störf af hendi sómasamlega. Hitt verður alltaf ágreiningur um, hvernig þetta tekst. Og vitað er, að stjórn innflutningsmálanna er eitthvert vanþakklátasta verk, sem unnið hefur verið í þessu þjóðfélagi. Þessir menn, sem hafa haft þessi störf með höndum, hafa verið taldir vargar í véum, og jafnvel þó að þeir hafi rækt sín störf eftir beztu samvizku.