18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

118. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur 1947

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, er útséð um það, að fjárl. fyrir árið 1947 verði afgr. fyrir áramót. Þetta stafar ekki af því, að hv. fjvn. hafi ekki unnið að afgreiðslu málsins, og hygg ég, að hún hafi varið miklum tíma til þess að athuga fjárlagafrv., heldur stafar þetta einungis af því ástandi, sem nú ríkir í stjórnmálum landsins. — Það má teljast nokkuð víst, að fjárl. verða ekki afgr., fyrr en ný ríkisstj. hefur verið mynduð, en hins vegar er sjálfsagt og nauðsynlegt, að ríkisstj. fái heimild til þess að halda áfram greiðslum á nauðsynlegum útgjöldum ríkisins fram yfir áramót, meðan fjárl. hafa ekki verið afgr. Slíkt sem þetta hefur átt sér stað fyrr. Ég ætla, að það hafi verið haustið 1942, sem fjárl. voru ekki afgr. fyrir áramót — má vera, að það hafi verið oftar —, en þá var sú leið valin, að fjvn. í samráði við ríkisstj. beitti sér fyrir því, að sérstök l. voru sett, sem heimiluðu ríkisstj. að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða venjuleg rekstrargjöld ríkisins. Þessi leið hefur nú einnig verið valin.

Ég sneri mér til hv. fjvn. og óskaði eftir, að hún beitti sér fyrir því, að löggjöf yrði sett í þessa átt. Varð n. við þessum tilmælum og er frv. á þskj. 226 flutt af 4 fjvnm. í hv. Ed.

Ég skal aðeins benda á það, að þessi heimild er bundin við 1. marz 1947, og er sú takmörkun að sjálfsögðu við það bundin, að menn gera sér vonir um, að fyrir þann tíma geti afgreiðsla fjárl. farið fram. Ef sú yrði hins vegar ekki raunin á, yrði að framlengja þessi l. aftur.

Vil ég svo vænta þess, að hv. d. geti fallizt á, að þetta frv. nái fram að ganga, án þess að því verði vísað til n., og leyfi mér að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, ef frv. verður samþ. við þessa umr., að hann setji fund á ný, að afloknum þessum fundi, og stuðli að því, að málið nái fram að ganga í dag eða á morgun.