07.11.1946
Neðri deild: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Einar Olgeirsson:

Þegar samningurinn við Bandaríkin eða uppkast að honum var hér til umr., komst ég þannig að orði, að ég væri hræddur um, að lögfesta þyrfti þau atriði, er vörðuðu réttindi Bandaríkjaþegna hér til toll- og skattfrelsis, og spurði ég þá, hvort ríkisstj. þætti ekki rétt að leggja fram þá þegar frv. til l. um þetta, er fylgt gæti samningsuppkastinu gegnum þingið, og hefði á þegar reynt á þingfylgi þessara réttindaveitinga. Ég áleit stjórnarfarslega rétt að undirbúa samninginn með slíkri lagaheimild, en það náði ekki samþykki þá, eins og ég gerði ráð fyrir. Hin leiðin var farin, að samþykkja fyrst samninginn með þáltill., er forseti þarf ekki að staðfesta, eins og kunnugt er. Hins vegar er það stjórnarskráratriði, að forseti hefur heimild til að skjóta lagafrv. undir þjóðardóm, áður en hann staðfestir þau. En það mátti ekki, og því varð endilega að samþykkja þáltill. hér og láta hana taka gildi. Till. mínum var ekki sinnt, er hún var á döfinni. En nú liggur hér fyrir lagafrv., sem á að fyrirskipa, að fyrrgreind þál. skuli í rauninni öðlast lagagildi. Ég mótmæli því í fyrsta lagi, að slíkt frv. skyldi ekki vera látið fylgja þáltill. í gegnum þingið, og í öðru lagi aðferðinni, sem hér á nú að hafa. Fyrsta gr. þessa frv. er alveg óhæf. Þar er fyrirskipað, að ákvæði þessa samnings, „er varða aðflutningsgjöld, útflutningsgjöld, tekjuskatt, afnotarétt fasteigna og önnur atriði, sem sérstaklega er rætt um í samningnum og varða íslenzka löggjöf“, skuli hafa lagagildi hér á landi. Það á með öðrum orðum að ákveða, að ákvæði í þessum gerða samningi. sem að vísu var flausturslega gerður, skuli öðlast gildi. án þess að tilgreint sé um leið, hvaða landslögum þarf að breyta í því sambandi.

Í aths., er fylgja frv., segir um 2. gr.: „Í 9. lið samningsins frá 7. okt. 1946 segir, að eigi skuli leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem inn er flutt til afnota fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmenn hennar samkvæmt samningnum eða til afnota fyrir starfslið það, sem dvelur á Íslandi vegna starfa, sem leiðir af framkvæmd samningsins“. Það eru aðallega þessi tvö atriði. sem ég hef hér bent á, sem ég tel athugaverð, og svo er í 1. gr. frv. talað um „önnur atriði“, sem virðast standa opin. Ég álít, að Alþingi eigi ekki að samþykkja þetta frv. og búa þar með til gat í íslenzka löggjöf, og þá allra sízt, þegar við það vald er að eiga, sem sýnt er, að verður ágengt og reynir að smjúga gegnum íslenzk lög. Mér dettur í hug í sambandi við þá áherzlu, sem lögð var á samþykkt samningsins, að sýslumaður Gullbringusýslu hefur þegar gefizt upp við löggæzluna á flugvellinum. Þannig var þá undirbúningur þess atriðis, og skyldi það ekki verða eitthvað svipað með tollgæzluna?

Í aths. með frv., er varða 1. gr., segir m.a.: „Til þess að þessi réttindi samrýmist íslenzkri löggjöf og fái hér lagagildi, þarf að breyta hlutaðeigandi íslenzkum l. í samræmi við þetta. Hefði ef til vill verið eðlilegast að breyta hverjum einstökum l., sem samningurinn snertir, í samræmi við hann, en þar eð sú aðferð yrði of umsvifamikil, er hér farin sú leið að breyta með einum l. þeim ákvæðum íslenzkra laga, sem samningurinn snertir.“ Þetta er m.ö.o. þannig, að með einni þáltill. er gerð svo mikil breyt. á íslenzkri löggjöf, að of viðamikið þykir að breyta hverjum einstökum l., sem skert eru við þetta, en einfaldara að breyta þeim öllum í einu. Þetta getur ekki gengið svo til. Hvaða einstökum l. á að breyta og hvernig? Ef þetta er of umsvifamikið fyrir þá, sem búið hafa þetta frv. út, þá þarf bara að setja fleiri menn í að vinna við undirbúning slíkrar löggjafar, til þess að hægt sé að leggja fyrir þingið frv. til sérstakra l. um hvert þessara atriða fyrir sig, svo að hv. þm. viti, hvað verið er að afgreiða. En ef við eigum hér að fara að samþykkja eitthvað, sem við vitum ekki, hvað er, þá er farið að gefa víðar heimildir fyrir lagatúlkun og lagabreyt. á Íslandi, því að þetta þýddi þá það, að öllum þessum l. yrði breytt með reglugerð. Þetta nær að mínu áliti ekki nokkurri átt. það er viðurkennt í röksemdunum fyrir þessari 1. gr., að til þess að réttindi, sem samningurinn er um, samrýmist íslenzkri löggjöf og fái hér lagagildi, þurfi að breyta viðkomandi íslenzkum l. í samræmi við þetta. Og þetta, álít ég, að þurfi að gera með sérstakri breyt. á hverjum l. fyrir sig, sem breyta á. Þyrfti þá að flytja t.d. sérstakt frv. um breyt. á ísl. tollal., annað um breyt. á skattal. og enn annað um afnotarétt á fasteignum, þannig að við hefðum ákveðinn lagabókstaf að halla okkur að í þeim efnum, sem embættismenn ríkisins þurfa að framkvæma. Ef við ætlum embættismönnum okkar að halda uppi rétti Íslendinga í þessu sambandi, þá verða þeir að hafa ákveðinn lagabókstaf til að vitna í og dæma eftir. Þess vegna álit ég það að taka of létt á málinu að segja, að það sé „of umsvifamikil aðferð“ að breyta þannig hinum viðkomandi íslenzku l., því að hér er sagt í aths. við frv. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Til þess að þessi réttindi samrýmist íslenzkri löggjöf og fái hér lagagildi, þarf að breyta hlutaðeigandi íslenzkum lögum í samræmi við þetta. Hefði ef til vill verið eðlilegast að breyta hverjum einstökum lögum, sem samningurinn snertir, í samræmi við hann, en þar eð sú aðferð yrði of umsvifamikil, er hér farin sú leið að breyta með einum l. þeim ákvæðum íslenzkra l., sem samningurinn snertir.“

Það hefur áður komið fram frv. af þessu tagi hér í þinginu. Menn muna eftir því, en það var ekki vinsælt. Það var hinn svo kallaði „höggormur“. En það þótti ófært annað en að gerbreyta því frv. Íslenzk löggjöf er sannarlega nógu flókin, þótt ekki sé verið að gera hana flóknari með svona aðferðum. — Ég álít þess vegna, að hæstv. utanrrh., sem hefur lagt þetta frv. fram, ætti að breyta þannig til að leggja fram sérstakt frv. til l. um breyt. á hverjum einstökum l., sem ætlað er að breyta með þessu frv. Annars finnst mér ekkert við þetta frv., sem hér liggur fyrir, eins og það er, annað að gera en að fella það.