20.12.1946
Efri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

119. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla útlendinga o. fl.

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Frv. þetta var fram borið í því skyni að lagfæra þá ágalla, sem hafa sýnt sig vera á skattgreiðslu útlendinga hér á landi. Eins og hv. þdm. muna, þá var í haust samþ. frv. um þetta mál, en nú hefur það komið í ljós, að ýmsir ágallar voru á þessu frv., en þessu síðara frv. ætlað að bæta úr þeim. T. d. voru í fyrra frv. engin ákvæði um erlenda listamenn, sem hér dveldu skamma stund, en gert ráð fyrir, að þeir útlendingar, sem dveldu hér 3 mánuði eða lengur, skyldu greiða skatt. Það hefur komið í ljós, að margir útlendingar flýttu sér af landi burt, rétt áður en þessir 3 mánuðir voru liðnir, og sluppu þannig burt með álitlegar fúlgur án þess að greiða eyri í skatt. Það er auðvitað ekki eðlilegt, að menn, sem stundað hafa hér góða atvinnu í 3 mánuði með góðu kaupi sleppi við alla skattgreiðslu, og þess vegna var tíminn styttur niður í 1 mánuð og gert ráð fyrir, að ef útlendingur hefði 10 þús. kr. tekjur eða meira, þá skyldi hann greiða skatt af því. Þetta eru aðalbreyt., sem gerðar hafa verið, og óska ég þess eindregið, að frv. nái fram að ganga, áður en þingi verður frestað. Komið hefur í ljós, að mismunandi reglur gagnvart erlendum listamönnum gilda í nágrannalöndum vorum. Ég hef nokkuð kynnt mér þessi ákvæði, sem þar gilda, og virðist mér löggjöf sú, sem er í Bretlandi, einna bezt. Þar er svo ráð fyrir gert, að listamaðurinn fái 1/3 hluta teknanna, hvort sem þær eru meiri eða minni, en greiði skatt af hinum 2/3 hlutunum samkv. skatta1öggjöfinni (HV: Var nokkuð ákvæði hvað snerti listamenn í fyrra frv.?) Nei, það var ekki. Þessar upplýsingar komu ekki fyrr en búið var að taka málið fyrir í Nd., og ég afhenti hv. fjhn. þær, en henni þótti ekki ástæða til að gera neitt með þær. Ég álít nauðsynlegt að gera eitthvað í þessu, því að það kynni að valda nokkrum erfiðleikum, ef látið yrði reka á reiðanum í þessu efni. Ég óska því, að málinu verði vísað til hv. fjhn., og ef það er ekki hægt, þá verði umr. frestað til morguns og þá afgr., ef fundir verða.