07.11.1946
Neðri deild: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta er að mestu leyti á misskilningi byggt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Hann heldur fram, að hér muni vera einhver mismunur á öryggi viðkomandi ákvæðum þessa samnings eftir því, hvort ein leið er farin eða önnur í að lögfesta ákvæði hans. Ég hygg líka, að hv. 2. þm. Reykv. hafi ofmælt í fyrri ræðu sinni, er hann sagði, að sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu hefði gefizt upp við löggæzlu á flugvellinum. Ég veit ekki annað en að þar sé framkvæmd löggæzla og tollgæzla. En hverjir það framkvæma — ég hef ekki skoðað eyrnamarkið á þeim svo nákvæmlega, en þeir eiga að hafa gát á því, að tollskrá allar vörur, sem til flugvallarins eru fluttar, líka þær, sem þessir menn, sem þarna vinna, eiga að fá til sinna þarfa. Það er sjálfsagt. En það er þessu máli óviðkomandi.

En það gildir sjálfsagt nákvæmlega það sama, hvað öryggi okkar Íslendinga snertir, hvort ein leið er farin eða önnur í því, sem hér er um að ræða, lögfestingu á því, sem frv. fjallar um. Og ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. gerir sér þetta ljóst nú, eftir þessar umr., ef honum hefur ekki verið það ljóst í öndverðu.