20.12.1946
Neðri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv., er hér liggur fyrir, snýst einkum um tvö atriði, og er það fyrra að tryggja bátaútveginum ákveðið fiskverð, en hið síðara, að ríkið skipi 4 manna n. til að gera till. í þá átt, að dýrtíðin vaxi ekki, og skal n. skila áliti fyrir 1. febr. n. k. Hallar heldur á um þessi tvö atriði. Hið fyrra er. stórkostlegasta till., sem fram hefur komið um atvinnuhætti okkar og miðar að gerbreytingu á atvinnulífinu. En síðara atriðið er saklaus till. um nefndarskipun. Þessi 9. gr. um nefndarskipunina gegn aukningu dýrtíðarinnar bregður vissulega allskoplegu ljósi yfir málið, því að með þessu er ekkert gert í þá átt að lækka dýrtíðina. Það ætti ekki að vera óleyfilegt, þegar hefja á allsherjar þjóðnýtingu á íslenzkum sjávarútvegi, að staldra við á þeim merkilegu tímamótum og líta í kringum sig og sjá, hvernig almennt er ástatt í þjóðfélaginu. Ég ætla að taka eitt dæmi úr mínu kjördæmi, en það eru einkennilegar tillögur um húsmæðraskólann á Laugum, er kostaði 50 þús. kr. og rúmaði 20 nemendur. Skólinn var mjög góður, og dáðust allir að honum, enda átti hann afbragðsgóðri skólastýru á að skipa. Þegar forstöðukonan var fallin frá, ætluðu þeir, sem að skólanum stóðu, að stækka hann dálítið og byrja á verkinu í vor. En þá kom hraðboði frá ríkisstj. með þau skilaboð, að hætta skyldi við að gera þessa breytingu eða stækkun á skólanum, sökum þess að hún væri of lítil. Þessu var hlýtt og hætt við verkið. Þá komu lærðir og miklir menn norður með þann vísdóm, að of dýrt væri að hafa kennara og heimilishald í skólanum, nema þar væru a. m. k. 36 stúlkur. Það þyrfti því að byggja nýtt skólahús og selja það gamla. En það var ærið kostnaðarsamt að framkvæma þessa hugmynd ríkisstj., þar eð byggja átti skóla fyrir hálfa aðra milljón kr., eins og í Borgarfirði, og af þeim kostnaði átti sýslan að greiða fjórðunginn. Það átti m. ö. o. að rífa niður allt listaverk hinnar látnu forstöðukonu og láta sýsluna taka þátt í að kosta miklu stærri skólabyggingu en hún þurfti á að halda. Síðan, þegar sýslunefndin athugaði þessi tilboð, vildi hún ekki sjá þessa greiðasemi. Sýslan hafði lagt sitt ýtrasta fram, eða 25 þús. kr., til að stækka skóla Kristjönu, en sá enga ástæðu til að gera það fyrir ríkisstj. að selja sinn gamla skóla og kosta nýja skólabyggingu, þótt gerðar hefðu verið samfelldar vitleysur af Alþ. og ríkisstj. í þessu máli, og stofna sér þannig í botnlausar skuldir í stað þess að láta sér nægja þann húsmæðraskóla, sem hún hafði upphaflega lagt 50 þúsund krónur í. Hann hefði þá kostað hana 75 þús. kr. eftir stækkunina og verið hæfilegur fyrir meðalsýslu. En síðan Þingeyjarsýsla rannsakaði fyrrgreind skilyrði, hefur komið fram frv. frá menntamálastjórninni, sem gengur út á, að hægt sé að neyða sýslur til að taka lán til ýmissa byggingarframkvæmda á ábyrgð ríkissjóðs, og eftir sama frv. á að neyða Landsbankann til að veita lánin, en hann er nú eina lánastofnunin í landinu, sem ennþá er ekki þurrausin. Með þessu er stuðlað að því, sem hvergi þekkist í siðuðu landi, að setja lög, er skyldi þjóðbankann til að veita nauðungarlán. Það er litið nokkuð öðrum augum á slíkt í Danmörku. Það var alsiða þar í sumar, að menn, sem þurftu að fara yfir til Svíþjóðar, fengu aðeins tvær krónur í farareyri, og einn fyrrv. danskur ráðh., er þurfti að fara þangað, fékk svo lítinn farareyri, að hann hætti við förina. En þetta er ekki alveg tilviljun. Þessar tvær krónur eru ekki einstakt atriði, því að danska þingið hefur sett l. um, að bankarnir, t. d. Landmandsbanken, fái ekki að taka nema lítið af inneignum sínum í þjóðbankanum út úr honum. Danir ætla sér að rétta við með sparsemi og ráðdeild, og því banna þeir að taka innstæðurnar út úr þjóðbankanum. Hér er búið að þrengja svo aftur á móti að Útvegsbankanum og Búnaðarbankanum, að innstæður þeirra í Landsbankanum eru orðnar mjög litlar. Allt er gert til að saga út úr bönkunum allt, sem hægt er að eyða. Við höfum farið öðruvísi að á síðustu árum en allir aðrir, við höfum reynt á sem stytztum tíma að eyðileggja fjárhaginn bæði innanlands og utan, og þetta nær hámarki í frv. menntmrh. um að neyða sýslur landsins til að taka lán gegn vilja þeirra út úr þjóðbankanum, en hann lendir síðan í stór vandræði. (Forseti: Ég verð að biðja hv. ræðumann að halda sér við að ræða um það frv., sem hér er til umræðu). Þessi inngangur minn er þó betur viðeigandi en sumar umræður hér, sem jafnvel hafa beinzt gegn hæstv. forseta sjálfum og hefðu mátt vera styttri vegna hans góða málstaðar.

Hér er okkur nú sýnt toppblómið í jurtagarðinum. Það frv., sem hér liggur fyrir, er í lítið breyttri mynd frv. atvmrh., er hann bar hér fram fyrir nokkru. Utan þings er það stutt af Finnboga í Gerðum, einum kröftugasta foringja nazistaflokksins, er hér var, svo að nazistar og kommúnistar sameinast ná í stuðningi sínum við þetta þjóðnýtmgarfrv. Ef litið er til Rússa. er það ríkið, sem stendur undir framleiðslunni og stjórnar henni, en lætur ekki aðra stjórna henni með ríkisábyrgð, eins illa og þeim sýnist, eins og hér er gert. Þar er ekki heldur sagt við þegnana: Þið hirðið gróðann, sem kann að verða, en við greiðum tap, ef það verður. Í Rússlandi er ríkisframleiðsla, og þar er vinna greidd eftir afköstum, sem er betra fyrirkomulag en hjá sumum öðrum. Sá munur er því hér á, að þjóðnýting Rússa er alvarleg tilraun til að geta staðizt. En hér er á ferðinni ný tegund þjóðnýtingar, þar sem ríkið ber áhættuna af atvinnurekstrinum upp í topp, en atvinnurekendur eiga að stjórna og hafa gróðamöguleikana.

Hvernig hefur árferðið verið síðan 1940? Stöðugt vaxandi fjármálagóðæri, svo að enn eru í gildi orð Sigurðar Kristjánssonar, er hann mælti í útvarpsræðu 1942: „Menn tala um erfiðleikana, en hvar eru þeir? Hvenær hefur verið meiri vinna, hærra kaup og meira keypt til landsins en nú?“

Og hann sýndi fram á, að hér ríkti fullkomin velgengni. Og hvernig er það nú? Er hér atvinnuleysi, hefur kaupið verið lækkað eða afurðaverðið lækkað? Nei, alls ekki. Því er óhætt að fullyrða, að það er fordæmalaust í sögu nokkurrar þjóðar eftir margra ára vaxandi góðæri, að ríkið þurfi að ganga í ábyrgð fyrir aðalatvinnurekstur þjóðarinnar. Þetta væri sambærilegt við það, að danska ríkið gengi í ábyrgð fyrir landbúnaðinn þar, eða sænska ríkið í ábyrgð fyrir skógarhöggið. Það vantar allan grundvöll undir þessar kröfur, þótt hv. þm. Borgf., er setið hefur hér lengst á þingi, eða síðan 19l6, tali hér nú um neyðarástand, eins og hann gerði, en hvenær verður það betra síðar, eða síður hjálpar þörf en nú? Og ef á að láta ríkið ganga í ábyrgð fyrir þorskveiðarnar, því eru togararnir þá útundan? Á að láta þorskinn gjalda þess, á hvaða skipum hann veiðist?

En svo búast þeir við, að síldarverðið verði afskaplega hátt á næsta ári, en síldarútgerðarmenn vilja ekki ganga í neina ábyrgð eða samábyrgð. En það er ekki útlit fyrir hátt verð. Það má hiklaust búast við, að fiskur, lýsi og saltsíld stórfalli á næstunni, — og hvað segja útgerðarmenn þá? Því hefur verið haldið fram í dag, að uppbótin ætti ekki eingöngu að koma frá síldarútveginum, og það er rétt. En þar sem nú kröfur okkar um verð á blautfiski eru þriðjungi hærri en verðið í Noregi, líður ekki á löngu að fiskverðið verði pressað hér niður eins og 1931–1932, og þá kemur að því, hverjir eigi að borga. Formælendur þessa frv. segja, að ríkisábyrgðin leiði ekki til neinna vandræða á næsta ári. En það verður að halda áfram þessum ábyrgðum, þegar byrjað er á þeim, og þar af leiðir, að hættan liggur í því, að taka þurfi af kapítali eða innstæðum annarra stétta til útvegsins, og það er það, sem kommúnistar stefna að. Ég óska atvmrh. til hamingju með þessa þróun, hún er eins æskileg fyrir hann og hugsazt getur. Atvinnurekendur við sjóinn rétta upp hendur og gefast upp skilyrðislaust, ef þeim er ekki hjálpað af ríkinu. Hér á að innleiða verstu tegund þjóðnýtingar og sjúga út allt fé í landinu, og þegar allt er komið í kaldakol, leita kommúnistar til hjálparandans í því föðurlandi, sem þeir geyma sál sína í.

Gott dæmi um það, hvert stefnir, eru skrif eins helzta útgerðarmanns við Faxaflóa, Haraldar Böðvarssonar, í Morgunblaðið, þar sem hann skrifar um, að krónan verði minnkuð. En hann er ekki einn um þetta, heldur margir fleiri, og er annað ósennilegt en hnigið verði að því ráði að fara inn á þessa leið, þótt ekkert væri okkur meira til skammar. Ég held, að það sé fordæmalaust, að 100 þúsund manna þjóð hafi átt 600 milljóna kr. inneign erlendis, eins og við áttum, og ef sú þjóð felldi nú gjaldeyri sinn, þá væri það einnig fordæmalaust. Aðalatriðið er, að við höfum farið öfuga leið og allt aðra en nágrannaþjóðir okkar. T. d. stefna Englendingar, Svíar, Danir og Norðmenn nú að því að rétta við fjárhaginn, það er aðalatriðið. Hjá okkur er aftur á móti talað um að fella krónuna, sem mundi leiða til þess, eins og í Þýzkalandi, að aftur og aftur þyrfti að lækka hana, unz búið væri með öllu að ganga frá eignum landsmanna. Því erum við nú eftir 6 ára stöðuga velgengni á merkilegum þröskuldi, við, sem vorum tiltölulega ríkasta þjóð heimsins. Við erum staddir þar, sem annar aðalatvinnuvegur landsins gefst upp, og ríkið verður að soga inn í taphítina allt, sem þjóðin á. Kommúnistar hafa því ástæðu til að vera glaðir. Þeir hafa skilið rétt sitt hlutverk, en ekki er hægt að segja hið sama um borgaraflokkana, það getur ekki talizt þeirra hlutverk að kasta atvinnuvegunum inn í þá verstu þjóðnýtingu, sem til er.

Ef við hugsum okkur, að Jón heitinn Þorláksson væri nú hér kominn (við vorum andstæðingar í stjórnmálum, eins og kunnugt er) og liti yfir þessa samkomu og útskýrt væri fyrir honum, hve óheyrilega ríkir við hefðum verið undanfarin ár og að nú ætluðum við að fara að segja okkur til sveitar sökum þess, að manndáð vantar, þá mundi hann aldrei hafa heyrt meiri býsn. Enda fer ekki hjá því, að síðar verði talað um merkilegan inflúenzufaraldur í gáfnafari manna á þessum árum, er verið er að eyðileggja krónuna og fjárhag landsins. Því að mig grunar, að svo fari, að uppáskrift ríkisins á víxla Landsbankans verði ekki mikils virði. Það er fullkomin ástæða til að minnast á þessa undarlegu glópsku. Hér er reynt að pína þjóðbankann sem mest, en í öllum öðrum löndum er reynt að skapa þeim sem öruggastan grundvöll og gera þá sjálfstæða og óháða. En hér eru á hverju þingi borin fram frv., sem fela raunverulega í sér, að við eigum að vera bankastjórar þjóðbankans, þótt við vitum ekkert, hvað bankinn getur, svo að loka þyrfti bankanum, ef öll þessi frv. væru lögfest. Og nú er hér talað um að leggja niður sjálfstæðan útveg og láta Alþ. ráðstafa fé þjóðbankans í stað þess að hafa hann sem sjálfstæðastan og ábyrga stofnun. Allir vitum við vel, að það er ekki þessi leið, sem á að fara. Allir vita, að við eigum að hætta að ímynda okkur, að dýrtíðin sé æskileg. Og ef við hættum að gera það og kæmum okkur saman um að lækka allt, kaup, vörur, skatta o. s. frv., svo að framleiðslan gæti borið sig eins og í Englandi t. d., þá gætu útvegsmenn gert út, bændur búið, og ekki þyrfti að fella krónuna. Ég vil segja það við n., að það er ekki hægt fyrir þá þm., sem vita, að stefnan, sem þetta frv. boðar, er röng, að fylgja þessu máli. Það er að segja, þetta boðar aukna dýrtíð, sem í þess stað er nauðsynlegt að lækka.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta frv. þurfi minnar aðstoðar við, enda mundi hún ekki veitt, en mér hefur þótt rétt að segja hér frá því ástandi, sem við erum í. Við erum á glötunarbarmi og hafðir að háði og spotti erlendra þjóða fyrir stjórn okkar fjármála og félagsmála, enda ekki við öðru að búast. Ég hef nú gert grein fyrir afstöðu minni, taldi rétt að lýsa þessu ástandi nokkuð, þó að ég búist hins vegar ekki við, að mín orð eða mitt atkvæði hafi nein áhrif, og mun þó margur iðrast þess síðar.