20.12.1946
Neðri deild: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Pétur Ottesen:

Það er aðeins örstutt. Ég vil þakka hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. fyrir þær ræður, sem þeir héldu hér í sambandi við mína brtt. Þetta þakklæti mitt byggist á því, að þessar ræður þeirra upplýsa ákaflega vel, hvað gersamlega þýðingarlaust þetta ákvæði, sem felst í 9. gr., er í sambandi við það, að það eigi að verða til þess að stöðva dýrtíðina. Þeir hafa báðir lýst yfir, að ég ætla, að þeir ætli að fylgja þessu frv. og samþ. ákvæði 9. gr. Og af hverju? Af því að þeir líta svo á, að hún feli ekki í sér neitt, sem getur orðið til þess að stöðva dýrtíðina. Og ef þetta er rétt mynd af afstöðu þeirra manna, sem fylgja þessu frv., þá er það alveg ljóst, að hér er einskis að vænta. En þá vil ég varpa fram þeirri spurningu: Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir þá, sem þetta á að koma til góða, útgerðarmenn og sjómenn, ef dýrtíðin heldur áfram að vaxa og ganga inn í vísitöluna og kemur á kaup- og launagreiðslur? Hvað tekur það þá langan tíma að éta upp þá hækkun, sem á að falla í skaut útvegsmanna og sjómanna, 15 aura á fiskkíló og tilsvarandi gagnvart þeim, sem kaupa og verzla með aflann? Hvað tekur langan tíma að hækka dýrtíðina til að eta upp alla þá tryggingu og gera að engu hagsmuni, sem tryggingin á að veita þessum aðilum? Og þegar svo er komið, hvað standa þeir þá nær? Það er ákaflega gott að fá þessar upplýsingar hér undir þessum umr., að það á ekkert að gera, að því er virðist, til að stöðva dýrtíðina, en það þýðir, að áframhald hennar getur gert það að verkum, áður en varir og áður en vetrarvertíðinni lýkur, að búið verði að þurrka út þann hagnað, sem ætti í sambandi við ábyrgðina að falla í skaut útgerðarmönnum og sjómönnum. Svo fer ég ekki frekar út í þetta. Mín brtt. miðar að því að marka ákveðna stefnu, að nú eigi að færa að vinna að lækkun dýrtíðarinnar og verðbólgunnar í landinu yfirleitt og það eigi að koma fram um áramót á þann hátt, að sú hækkun, sem verða kynni á vísitölunni þann mánaðartíma, sem n. er ætlað að starfa, verði ekki til þess að draga úr þeim hlunnindum, sem gert er ráð fyrir, að falli útgerðarmönnum og sjómönnum í skaut. Ég sé ekki annað, ef svona á frá þessum málum að ganga, en að beinlínis sé vitandi vits verið að blekkja þessa aðila, útgerðarmenn og sjómenn, veita þeim fríðindi, sem áður en varir geta orðið engin fríðindi og líklegast, að verði aldrei nein fríðindi fyrir þá.

Hv. 2. þm. Reykv. fór að tala um heildsölugróðann og ekkert væri gert til að beita skarpari verðlagsákvæðum og vildi átelja mig fyrir það að hafa ekkert aðhafzt í þessu efni og vildi slá föstu, að ég vildi ekkert gera í þessu efni. Nú mætti segja, að þetta væri sök á mig, en ég vil senda þessa sök til baka til hv. 2. þm. Reykv., sem hefur haft miklu sterkari aðstöðu í tvö ár að hafa áhrif á þetta en ég. Sú stj., sem setið hefur að völdum síðast liðin tvö ár, hefur haft öll verðlagsmál í sinni hendi, og þó hafa heildsalarnir safnað til sín óhóflegum gróða. Hvers vegna hafa þeir leyft þeim að fara meira en góðu hófi gegnir ofan í vasa hvers borgara í þjóðfélaginu? Hvers vegna hafa þeir liðið þeim þetta? Ég veit, að sá flokkur, sem hv. 2. þm. Reykv. tilheyrir, er oft að tala um, að Sjálfstfl. haldi verndarhendi yfir heildsölunum og heildsalagróðanum þeim til handa. En hvers vegna hefur hv. 2. þm. Reykv. og kommúnistafl. látið þetta viðgangast í stj.? Það eru fjórir ráðh. móti tveimur, sem Sjálfstfl. hefur í stj. Hvers vegna hafa þessir flokkar ekki með þessa sterku aðstöðu á tveimur árum neytt hennar til að koma í veg fyrir, að óeðlilegur gróði félli í skaut heildsölunum?

Er þetta vanræksla hjá þeim? Er það kjarkleysi hjá þeim að nota ekki þessa sterku aðstöðu til að vernda borgarana fyrir þessari féflettingu og hruni, sem heildsalarnir eru að leiða yfir almenning? Ég get líka verið þakklátur hv. 2. þm. Reykv. fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli, en hann kemst ekki undan því, að kommúnistafl. í ríkisstj. og Alþfl. í ríkisstj. hafa þar haft aðstöðu til að láta þetta mál til sín taka, ef þeir hefðu haft áhuga fyrir því. Þeir hafa alltaf talið sig fyrst og fremst verndara og velunnara alls almennings í þessu landi og komið með útbreiddan faðminn: Komið þið hingað. Hér er ykkar verndarskaut! Hvers vegna hafa þeir ekki verndað landslýðinn fyrir þessu óhóflega okri? Það þýðir ekkert að tala um, að Sjálfstfl. og ráðh. hans í ríkisstj. hafi þar nokkra sök. Þeir hafa þar ekkert bolmagn móti hinum. Við skulum segja, að þeir hafi viljað vernda heildsalana og heildsalagróðann. Þeir höfðu ekkert bolmagn til að þjóna lund sinni í þessu efni, ef hinir hefðu sýnt nokkra viðleitni til að gera það gagnstæða. Já, hv. þm. stendur nú ekki sterkar en þetta.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta atriði, en ég vildi aðeins minna á þetta, af því að á þetta var minnzt og því beint til mín, að ég hefði átt að sýna viðleitni í þessa átt. Ég býst við, að ef þessi flokkur hefði sýnt rögg í þessu efni, þá hefði hann átt góðan stuðning hjá mér til þess að koma þessu fram. (EOl: Það er gott að eiga það inni). Það er bara, að þeir sýni þá einhverja víðleitni. En máske hafa þeir haft þar einhverja til að vernda og ekki verið ógeðfellt, að þeir gætu komizt ofan í vasa til að klófesta þar eitthvað til að draga þar eitthvað í sinn dilk.