21.12.1946
Neðri deild: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í gærkveldi vegna till. hv. þm. Borgf. Það er ekki svo, að þessi brtt. eða efni hennar kæmi að óvörum. Sú regla hefur löngum verið gildandi, að hafi hlutur aðalatvinnuveganna verið erfiður, þá hefur verið leitað til Alþ., og hafa vandamálin þá venjulega verið greidd eftir föngum. Við þessu er náttúrlega ekkert að segja, en það þyrfti að gilda sama máli um allar stéttir þjóðfélagsins. En það gerir það ekki, það gildir allt annað gagnvart verkalýðnum. Hann er aldrei talinn framleiðandi og verkamennirnir eru einu sinni varla taldir þjóðfélagsþegnar af sumum. Þetta kemur greinilega fram hjá hv. þm. Borgf. og að því leyti er alveg víst, að hann hefur hitt naglann á höfuðið í ræðu sinni. En þm. V-Húnv. var ekki nóg að lýsa þessu yfir fyrir sitt leyti, heldur fyrir hönd alls flokks síns. Ég get vel trúað því, að þessir hv. þm. séu sammála um þetta, því að það er jafnan svo þegar verkalýðurinn á í hlut. Þá er eins og ekki komi til mála að gera neina samninga við hann. Hann er ekki það merkilegur eða mikilvægur í þjóðfélaginu að margra dómi, að það komi til mála, heldur skuli málin útkljáð án hans íhlutunar eða samþykkis. Þeir eru engir framleiðendur, og þess vegna þarf ekki að taka tillit til þeirra. En nú er það staðreynd, hvort sem menn álíta verkamennina framleiðendur eða ekki, að ef þeir hætta störfum, já, þá vill oft koma leiðinda strik í reikning þjóðarbúskaparins. Það er óþarfi að telja upp öll þau störf, sem verkalýðurinn innir af hendi, en það mætti minna á ekki ómerkilegri störf en vegalagningu, byggingarvinnu o. m. fl. Það er fleira merkilegt starf en að erja jörðina og sækja sjóinn, og það má merkilegt kallast, að jafnstór og mikilvæg stétt og verkalýðurinn er skuli þurfa fjöldamörg ár til þess að ná viðurkenningu á mikilvægi tilveru sinnar. Fyrir kosningar og önnur slík tækifæri virðist samt mönnum sem betra sé að hafa verkalýðinn með sér en móti. Þá eru gefin loforð og hækkað kaup, en eftir á er hann svo ekki mikilvægari en skarnið sjálft.

Það er sannfæring mín, að það séu ekki aðeins tormerki á að lögbjóða slíkan síldartoll, sem mér heyrist menn samþykkir að koma nú á, heldur sé það ómögulegt, því að aldrei getur maður með vissu vitað, hvernig sala sjávarútvegsafurða verður.