21.12.1946
Neðri deild: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna þess, að tveir hv. þm. hafa talað til mín, þeir 8. þm. Reykv. og 4. landsk., út af afstöðu minni til till. hv. þm. Borgf. Mér fannst gæta misskilnings hjá þessum hv. þm. á afstöðu minni til málsins, því að áður en hv. þm. Borgf. lagði till. sína fram, hafði ég lagt fram till. á þskj. 252 um, að 9. gr. skyldi niður falla, en í stað hennar kæmi, að hæstv, ríkisstj. leggi till. fram um stöðvun dýrtíðarinnar. En eins og hv. þm. Mýr. benti á, þá kemur till. hv. þm. Borgf. til greina að minni till. felldri. Nú, ef menn eru á móti till, hv. þm. Borgf., þá er bara að samþ. mína till. Annars fæ ég ekki séð, að till. hv. þm. Borgf. sé svo óttaleg, því að ef vísitalan hækkar ekki, þá leggst ekki byrði á neina stétt sérstaklega. En nú hefur hæstv. ríkisstj. heimild í lögum til að koma í veg fyrir hækkun vísitölunnar. Till. hv. þm. Borgf. kemur ekki til framkvæmda fyrr en í febrúar, því að janúarmánuður er greiddur með desembervísitölu. En það er einmitt tíminn, sem ég ætla verðandi stjórn til þess að leysa þetta mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til fleiri orða að þessu sinni.