22.12.1946
Efri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Þetta mál er komið frá Nd., eins og kunnugt er. Frv. er borið fram vegna þeirra erfiðleika, sem steðja að sjávarútveginum nú, einkum bátaútveginum, og felur það í sér sérstakar aðgerðir til þess að tryggja, að vertíð hefjist með venjulegum hætti.

Nú kann það að vera mjög umdeilt, hvort málið sé rétt tekið, en eftir þá meðferð, er það hefur fengið hér á þingi, og þær undirtektir, sem það hefur fengið utan þings, væri hlutur útgerðarmanna sínu verri, að mínu áliti, ef frv. væri fellt.

Í Nd. var gert ráð fyrir í upphafi, að sá hluti sjávarútvegsins, sem mestrar arðvonar er að vænta af, gæti rétt hinum hlutanum hjálparhönd, þ. e. síldarútvegurinn, með ríkisábyrgð að baktryggingu. En eins og kunnugt er, var þetta ákvæði fellt í Nd., og þar með það ákvæði fellt úr, að sjávarútvegurinn hjálpaði sér sjálfur. Þá bætti Nd. í frv. frekari ábyrgð, sem ekki snertir beinlínis sjávarútveginn, þ. e. 8. gr. frv. — Nú hefur þetta mál komið fyrir hér og var áðan eftir 1. umr. skilað til fjhn., sem hefur haft það til meðferðar, og vil ég nú skýra frá afstöðu nefndarinnar.

Minni hl., hv. þm. Str. og 8. landsk., vilja samþ. frv. óbreytt. Meiri hl., hv. þm. Dal., 7. landsk. og þm. Vestm., vilja gera á frv. þá breyt. að færa það í svipað horf og það var áður en 2. umr. fór fram í Nd., þ. e. a. s. setja aftur í frv. þau tryggingarákvæði fyrir ríkissjóð, sem úr frv. voru felld í Nd., þannig að þegar ákveðið verð, hátt verð, hefur náðzt fyrir síldina á væntanlegri síldarvertíð, verði því, sem umfram er, varið til að standa undir þeim útgjöldum, sem ríkissjóður kann að verða fyrir vegna þeirrar ábyrgðar, sem hér um ræðir.

Enn fremur leggur annar minni hl. til, þeir 8. landsk. og þm. Vestm., að 8. gr. frv. falli burt, en þm. Dal. er því andvígur.

Þetta er þá afstaða fjhn. þessarar hv. d. til frv. Til skýringar vil ég leyfa mér að lesa brtt, upp, með leyfi hæstv. forseta: [Sjá þskj. 264.]

Ég sagði áðan, að með þessu væri horfið aftur að því upprunalega markmiði, sem í frv. var, en hér er einnig tekið tillit til vilja Nd. varðandi afgang af tryggingarsjóði, ef einhver verður, þ. e., að hann verði greiddur sjómönnum og útvegsmönnum í réttum hlutföllum við aflann. Það mætti mikið um þetta mál fjalla, til þess að allir mundu vel við una, og sennilega alls ekki mögulegt, en til þess að fá því framgengt, sem mestu máli skiptir, þ. e., að vertíð geti hafist á venjulegum tíma, verður að horfa yfir ýmsar misfellur. Það er með þetta fyrir augum, sem meiri hl, fjhn. hefur fallizt á að flytja þetta frv., vitandi þó, að hér kann að vera sitt hvað, sem öðruvísi mætti fara, og ekki goldið varhugar við öllu, sem skyldi, en málið verður að afgreiða, þó að menn hafi skiptar skoðanir um sum atriði þess og jafnvel málið sjálft.

Eins og eðlilegt er, vannst ekki tími til að fá brtt. prentaðar, og verð ég því f. h. meiri hl. fjhn. að flytja brtt. skriflegar. Ég hef látið afrita brtt. á nokkur blöð, til að þm. gætu kynnt sér innihald þeirra.

Ég held, að ég hafi þá tekið fram allt það, er máli skiptir varðandi afstöðu meiri hl. fjhn. á þessu stigi. Ég læt hér staðar numið, enda ekki rétt að tefja umr. á þessum tíma sólarhringsins lengur en nauðsyn krefur.