22.12.1946
Efri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala langt mál um þetta, en vildi aðeins lýsa afstöðu minni í fjhn., en eins og fulltrúar hafa heyrt í ræðu frsm. meiri hl., vildum við þm. Str. (HermJ) samþykkja þetta frv. óbreytt.

Í öllum þessum umr. hefur ekki komið fram ein einasta ástæða til þess að mótmæla því, að ábyrgðin sé nauðsynleg. Það hefur verið hér almenn skoðun, að ábyrgðin væri nauðsynleg til þess, að bátaflotinn færi af stað í byrjun næsta árs. Hins vegar hefur verið um það deilt, hvort hugsanlegt væri að taka það fé, sem til þarf, af síldarútveginum á næstkomandi síldarvertíð. Ég get lýst yfir því nú þegar, að síldarútvegsmenn eru yfirleitt á móti því að taka þetta af síldinni, og sérstaklega sökum þess, hve margir þeirra eru illa komnir eftir þessi tvö slæmu ár, sem hafa gengið yfir nú síðast. Auk þess má benda á nokkra báta, sem bara stunda síldveiðar, en ekki þorskveiðar, og af þeim er þá verið að taka fé, sem ekki er réttlátt. Á sama hátt mætti setja l. um það, að ef meiri veiði yrði á togarana, mætti ákveða, að þeir skyldu skattlagðir, til þess að taka á sig ábyrgð vegna bátaútvegsins.

Hv. þm. Str. færði mikil rök fyrir þessu, og sé ég ekki ástæðu til að taka neitt upp af því. — Hins vegar mun ég greiða atkv. móti þeirri brtt., sem meiri hl. fjhn. hefur borið fram um þetta atriði. En viðvíkjandi 2. brtt. þessa meiri hl., um það, að 8. gr., sem sett var inn í frv. í Nd., falli niður, vil ég taka það fram, að ég lýsti þeirri afstöðu minni í fjhn. gagnvart henni, að ef frv. verður samþ. þannig, að ekki verði gengið út frá því, að síldarútvegurinn skuli leggja fram fé, sem kynni að þurfa til þess að tryggja þorskveiðarnar, þá finnst mér sanngjarnt, að þessi gr. standi í frv. En ef aftur á móti þetta verður sett inn í frv., þannig að það verði ákveðið, að sjávarútvegurinn eigi að öllu leyti að standa undir sér sjálfur og tryggja, að það geti aldrei fallið neitt á ríkissjóð vegna þessarar ábyrgðar, þá finnst mér ekki sanngjarnt, að 8. gr. standi í frv. og mun þá greiða atkv. með brtt. minni hl. n., sem leggur til, að hún falli niður.