22.12.1946
Efri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Ég vildi aðeins í stuttu máli geta þess út af aths. hv. þm. Barð. við niðurlag orða fyrri málsgr. brtt. fjhn., sem hljóðar þannig: „Nú verður afgangur af fé tryggingarsjóðs, og skal hann þá greiðast útvegsmönnum og sjómönnum að tiltölu við síldarafla hver skips“, taka fram, að ég er fús til þess að taka til athugunar milli umr. í n. þessi atriði, sem hann kom að, og líklegt, að á það verði fallizt — þó að ég viti það ekki með vissu — að fella þessi orð niður. Ég tek þetta fram, ef einhverjir fleiri skyldu hafa ætlað sér að gera þetta sérstaka atriði að umtalsefni til þess að það yrði athugað milli umr., því að ég heiti því hér með, að það skuli verða gert. Ég segi þetta til að forðast umr. að óþörfu um atriði, sem getur verið sjálfsagt að leiðrétta. Það má vel vera, að það hafi ekki verið athugað við samningu þessarar brtt., að hið breytta viðhorf getur haft áhrif á, hvort þetta orðalag eigi að vera eða ekki.

Þetta er aðeins það, sem ég vildi taka fram að þessu sinni, en ég ætla ekki að svo komnu að fara út í neinar umr. um málið eða ræður þeirra hv. þm., sem talað hafa.