22.12.1946
Efri deild: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Út af brtt. hv. þm. Str. (HermJ) verð ég að segja það, að mér þykir að sönnu leitt — og verð að segja það fyrir hönd meiri hl. fjhn. — að geta ekki fallizt á þá brtt., sem hann hefur hér fram flutt, en þess verður að gæta, að hún mundi raska þeim grundvelli, sem hér er byggt á, sem sé þeim, að mjög hátt síldarverð verði nokkur baktrygging fyrir ríkissjóð fyrir því að ábyrgjast annað fiskverð, sem er í því fólginn, að gr., haldist óbreytt. Þetta verð ég að taka fram, þótt mér þyki fyrir því að þurfa að hafa á móti þessari brtt. Hið sama má segja um ýmsar þær aths., sem hv. þm. Str. fram flutti í sinni ræðu við 2. umr., þótt ég gerði hana ekki að umtalsefni þá. Þess ber að geta, að ekki einasta meiri hl. fjhn. þessarar hv. d., heldur flestir hv. þm., ef ekki allir, mundu frekar hafa tekið þann kostinn, ef fyrir hendi hefði verið, að aðrar ráðstafanir og raunhæfari hefðu verið gerðar til þess að tryggja fiskveiðiflotanum sæmilega afkomu en þær, sem fyrir liggja í þessu frv., og þá í fyrsta lagi það, sem hv. þm. taldi, að sér virtist liggja næst að gera, þ. e. raunhæfar ráðstafanir gagnvart dýrtíðinni. En það verður að horfast í augu við þær staðreyndir, sem fyrir eru, því að sú gifta fylgir nú ekki þjóð vorri eða hv. Alþ. á þessari stundu, að slíkra ráðstafana sé að vænta, þannig að þær gerist skjótt. Til þess að vænta þess, þyrfti viljinn hjá öllum aðilum að vera augljósari en fram hefur komið, og af þessari ástæðu m. a. er horfið að þeim neyðarráðstöfunum, sem gert er með þessu frv.

Þetta vildi ég taka fram, áður en málið er afgr. úr þessari hv. d. Og af því að hv. þm. Str. kvað mjög fast að orði um það í lok ræðu sinnar, að nú þyrfti þ. að taka fast á réttum aðgerðum í dýrtíðarmálunum og þar með að beina afli sínu að þeirri lausn, sem gæti orðið til frambúðar, þá vil ég fyllilega taka undir þessa viljayfirlýsingu hv. þm. Str.

Hjá hv. þm. Barð. (GJ) kom fram aths. um það, að það væri ekki vel ljóst ákvæði í einni gr. frv., — ég held 3. gr., — þar sem talað er um saltfisksútflutning. Í þessu sambandi álít ég rétt — þótt það hafi komið fram í hv. Nd. — að vísa einnig hér í hv. d. til þess, að í 1. gr. er rætt um ráðstafanir til að tryggja bátaútveginum verð, og verður að líta svo á, að þar sem 1. gr. ræðir einvörðungu um bátaútveginn, þá ráði hún líka skuldbindingum eða meiningum annarra gr. frv., þannig að hér eigi ekki að vera um að villast ráðstafanir, sem gerðar eru fyrir bátaútveginn og þann fisk, sem aflast á bátaflotann.