15.01.1947
Efri deild: 51. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

34. mál, sala verzlunarlóðarinnar á Sauðárkróki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil þakka n. fyrir þá athugun, sem hún hefur gert á þessu máli, og tel ég brtt. hennar til stórbóta, en hins vegar tel ég, að n. hafi ekki tekið til athugunar nema annað atriðið, sem ég drap á í gær, en látið hitt standa óbreytt. Ég benti á það í gær, að ég tel liðinn í brtt., þar sem rætt er um leigu til hreppsins o. s. frv., ekki heppilegan. Hann er að sjálfsögðu settur til þess að fyrirbyggja, að hreppurinn okri á þessum lóðum, og ætti tilverurétt, ef einhver hætta væri á slíku, en ég tel enga hættu á því. Sama lóðarleiga getur ekki gilt alls staðar, þó að sú regla gildi um lóðir í erfðafestu. Það eru viss svæði í þorpum og kauptúnum, sem þannig er ástatt um, að þorpið þarf á þeim að halda undir byggingar eða annað, og þess vegna ekki hægt að haga öllum leigum eins, og kem ég því með skrifl. brtt. Ég vil enn fremur benda á það, að sams konar ákvæði var sett inn, þegar Hvanneyri var seld Siglufjarðarbæ, en hæstv. ríkisstj., þótt léleg hafi verið, hefur ekki séð sér fært að nota þessa heimild. Ég sé enga ástæðu til þess að setja það í l., sem engin ríkisstj. sér sér fært að framkvæma.