20.12.1946
Neðri deild: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Helgi Jónasson:

Ég skal ekki hafa mörg orð. Ég flyt hér ásamt hv. þm. A-Sk. brtt. á þskj. 243 um það, að aldurshámarkið sé miðað við 67 ár. Fannst okkur eðlilegast, þar sem núgildandi l. gera ráð fyrir, að allur almenningur muni vera ellitryggður á þeim aldri, 67 ára, að þá líti íslenzk löggjöf svo á, að þá fyrst sé dagsverkinu í raun og veru lokið, að þeir eigi rétt á að fá tryggingu eftir þann tíma, og því vildum við miða aldurshámarkið við 67 ár, en ekki þann aldur, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En nú sé ég, að komin er fram brtt. frá meiri hl. allshn., sem mjög bætir það fyrirkomulag, sem nú er á þessum málum, og breytir að miklu leyti viðhorfi mínu til þessa máls. Mér er fullkunnugt um það, að fjöldi embættismanna, sem hefur starfað í erfiðum embættum, er búinn að fá nóg og orðinn slitinn að kröftum, þegar mennirnir eru orðnir 65 ára, og eins er mér kunnugt um, að ýmis embætti hafa þörf fyrir að fá yngri, óþreytta krafta til að reka embættin. En ég tel, að þessi brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. meiri hl. allshn., gangi það mikið til móts við mína brtt., að ég geti tekið hana aftur, enda mun ég gera það.