20.12.1946
Neðri deild: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég er á móti því að breyta l. um aldurshámark embættismanna. Hins vegar verð ég að viðurkenna, að með tryggingarl., eins og þau voru afgr. hér á síðasta þingi, þá er því slegið föstu, að almenningur í landinu skuli taka full eftirlaun, eftir því sem ríkið borgar, þegar menn hafa náð 67 ára aldri en ekki fyrr. Út frá því sjónarmiði má segja, að það væri ekki algerlega óréttmætt að breyta aldurshámarki embættismanna ríkisins, er þeir skyldu láta af störfum, og binda það við 67 ára aldur. Gæti ég til samkomulags fellt mig við till., sem færi í þá átt. Aftur á móti tel ég ekki rétt að láta það vera á valdi embættismanna einhliða, að þeir geti tekið eftirlaun fyrr og látið af störfum, ef þeir kynnu að óska þess, ef hið opinbera teldi, að þeir hefðu næga starfskrafta til þess að gegna störfum sínum áfram. Ég mun því greiða atkv. móti þeirri brtt., sem fer í þá átt að veita embættismönnum sjálfum þennan ákvörðunarrétt.

Mér skildist, að hv. 5. landsk. þm. (StJSt) hefði tekið upp brtt., sem hér liggur fyrir um að breyta aldurshámarkinu í 67 ár, og mun ég því til samkomulags geta greitt atkv. með henni, ef menn teldu nauðsyn á því að breyta þessu til samræmingar við l. um almannatryggingar, sem hér voru afgr. á síðasta þingi.