24.01.1947
Efri deild: 55. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ef til vill hefði verið formlega réttara, að þeir, sem ekki eru ánægðir með þær breyt., sem í þessu frv. felast, hefðu sagt til sín við fyrri umr. málsins, en þar sem um er að ræða breyt. á fyrri lagaákvæðum og aðeins um það að ræða, hvort menn vilja samþykkja þessar breyt. eða ekki, hefur það ekki svo mikla þýðingu, þó að gagnrýni á þessari breyt. komi ekki fram fyrr en þetta.

Ég vil þá segja það, að ég álít, að það orki tvímælis, að rétt sé stefnt með breyt. þessum. Fyrri breyt. er um það að lengja starfstíma opinberra starfsmanna um 5 ár úr 65 árum í 70 ár. Þetta er vafalaust borið fram í sparnaðarskyni, en sparnaðurinn er vafasamur, þegar það er athugað, að einn flokkur manna, kennarar, hafa fengið vinnutíma sinn styttan úr 24 stundum á viku í 17 stundir á viku, auk þess sem allir menn á þessu skeiði hafa hærri laun, og nemur það stórfé. Skóli, sem hefur tvo kennara á þessu aldursskeiði, verður, ef þessi breyt. nær fram að ganga, að bæta við einum kennara í viðbót vegna þessarar vinnustundafækkunar kennara, sem ég hef minnzt á. Sá aukakostnaður, held ég, að verði verulegur. Ef það ákvæði stendur, að embættismenn skuli láta af störfum 65 ára, koma ungir menn að, sem hafa fullan starfstíma og eru á miklu lægri launum. Auk þess munu kennarar, sem hefja starf sitt 21 ára gamlir, vera búnir að fá nóg undir flestum kringumstæðum eftir 44 ár, en eftir þessari breyt. yrðu það 49 ár. Þó að ég hafi tekið kennarastéttina til dæmis, af því að ég þekki hana bezt, mun vera líkt ástatt um aðrar stéttir. Flestir eru orðnir útslitnir á þeim aldri, en í þeim fáu tilfellum,. sem menn eru ekki orðnir þreyttir, hygg ég, að bezt væri, að þeir fengju að gefa sig að frjálsum áhugastörfum.

Síðara ákvæðið, að embættismenn fengju að ráða því sjálfir, hvenær þeir vildu hætta, tel ég óeðlilegt vegna þess, að ég tel mestar líkur til þess, að þeir samvizkusömu og dómbæru á sjálfa sig mundu hætta, en hinir, sem ekki eru dómbærir á sjálfa sig, vildu ekki sleppa 40% af launum sínum. Þeir mundu því ekki vilja hætta fyrr en í fulla hnefana, en mundu nota sér heimild l. að sitja til 70 ára aldurs.

Ég tel þau rök, sem ég hef talið hér, svo veigamikil, að ástæða sé til, að málinu sé frestað og því vísað aftur til n., og legg ég til, að það verði athugað betur þar, en verði hæstv. forseti ekki við því, mun ég greiða atkv. á móti frv.