27.01.1947
Efri deild: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

72. mál, byggðasöfn o. fl.

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem nú er til umr., er búið að ná samþykki Nd. Það má segja, að það sé viðbót við l. um verndun foraminja frá 16. nóv. 1907.

Það er kunnugt, hversu nauðsynlegt og gagnlegt það er að vernda þær minjar, sem til eru frá eldri tímum, en við Íslendingar höfum gert minna að því en skyldi, og getur það m. a. stafað af því, hversu byggð landsins er tiltölulega ung. Það var fyrst árið 1907, sem fyrsta sporið var stigið í áttina til verndunar fornra mannvirkja og minja með þeim lögum sem þá voru sett og áður eru nefnd. Frv. þetta fer lengra en þessi lög í nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi þykir ástæða til að varðveita hús eða önnur mannvirki vegna menningarsögulegs gildis þeirra eða af öðrum ástæðum, þótt þau hafi ekki náð þeim aldri, að þau verði talin til fornleifa samkv. fyrirmælum l. um verndun fornminja frá 1907, og er þjóðminjaverði þá heimilt, að fengnu leyfi menntmrh., að taka byggingar þessar eða mannvirki á fornleifaskrá, enda fer þá um viðhald þeirra samkv. 1. gr. frv.

Í öðru lagi skulu byggingar í eigu ríkisins, sem varðveittar eru sem fornminjar, t. d. gamlir bæir, notaðir til geymslu ýmissa gamalla muna, og verði þeir þá nokkurs konar byggðasöfn samkv. samþykki þjóðminjavarðar. Það virðist á allan hátt eðlilegt, að þessar gömlu byggingar verði notaðar til slíks, þar sem hægt er að koma því við. Gert er ráð fyrir, að söfn þessi skuli vera deildir úr þjóðminjasafninu, en samt sem áður skuli þau talin eign viðkomandi héraða, enda skuldbindi eigendur sig til að annast viðhald safnsins og umsjón með því, svo að í góðu lagi sé. Þar sem ekki eru fyrir hendi byggingar, sem nothæfar eru fyrir áðurnefnd söfn, þar skal ríkissjóður láta byggja ný hús, en þó ekki án þess, að þjóðminjavörður samþykki uppdráttinn að byggingunni. Í þriðja lagi skuli söfn þessi njóta styrks úr ríkissjóði, og beri honum að greiða 2/3 hluta kostnaðar við umsjón og viðhald þeirra, en 1/3 hluti greiðist af þeim, sem að byggðasafninu standa.

Hvað viðvíkur viðhaldi gamalla húsa, þá hefur nauðsyn þess verið viðurkennd af fjárveitingavaldinu, t. d. með því að veita fé til viðhalds gömlu bæjanna á Burstarfelli, Glaumbæ og Grenjaðarstað. Hafa í því skyni verið veittar um 20 þús. kr. á fjárlögum síðustu ára. Enn fremur hefur fé verið veitt til varðveizlu bæjarrústanna á Stöng, sem hafa mikið menningarsögulegt gildi. En höfuðtilgangur þessa frv. er að gera l. um verndun fornminja fullkomnari og að tryggja það, að sá vísir til verndunar þjóðlegra verðmæta, sem til hefur verið, skuli þróast áfram og njóta til þess styrks hins opinbera. Leggur því n. til, eftir að hafa athugað málið, að frv. verði samþ. óbreytt.