30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

141. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Það var í nóvemberlok, sem samþ. voru l. um framlengingu l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð, og hafði komið fram beiðni um það frá hæstv. fjmrh. Til samkomulags voru l. þá aðeins framlengd til 1. febr. Við vorum allir svo bjartsýnir að halda, að þá yrði komin stjórn og að henni hefði þá unnizt tími til að setja ný l. um þetta efni fyrir 1. febr. Vonir þessar brugðust, og því er þetta frv. fram komið til framlengingar á lögunum.

Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir að tímabinda 1., og verð ég að segja það sama og í nóvember, að ekki er nauðsynlegt fyrir Alþ. að vera að setja sjálfu sér takmörk, enda er það og vitað, að þessi mál eru ein af þeim fyrstu, sem bíða afgreiðslu komandi stjórnar.

Fjhn. barst í gær erindi frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna ásamt frv., sem gerbreytir skipun þessara mála. Ég hygg, að mönnum sé það ljóst, að slíkt er ekki hægt að taka fyrir nú, þar sem ekki er nema einn dagur til stefnu, þar eð 1. um innflutning og gjaldeyrismeðferð falla úr gildi 1. febr. Ég geri ráð fyrir, að þeir og aðrir misskilji það, að hér sé um endanlega afgreiðslu þessara mála að ræða, en því fer fjarri. Hér er aðeins um framlengingu að ræða, en um endanlega endurskoðun l. er ekki að ræða, því að til þess er tíminn allt of naumur. Í bréfi því, sem ég gat um í upphafi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna segir, með leyfi hæstv. forseta : „Vér gerum ráð fyrir því, að ýmislegt megi að undirbúningi þessa máls frá vorri hendi finna, þar sem tími hefur orðið naumari en við var búizt til afgreiðslu málsins vegna þess, hve bráðan bar að, að Alþ. tók til meðferðar nú framlengingu l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð, nr. 91 30. nóv. 1945.“

En eins og ég hef gert grein fyrir, er hér aðeins um framlengingu til skamms tíma að ræða, en ekki endanlega afgreiðslu. Meiri hl. n. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt.