30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

141. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Ég er ósammála meiri hl. n. um afgreiðslu þessa máls. Það er rétt hjá hv. þm. V-Ísf., að sams konar frv. lá fyrir Alþ, seint á síðasta ári. Það kom upphaflega, án þess að ákvæði væri í því til að tímabinda það, en fjhn. setti þá ákveðið tímatakmark inn í það. Það þótti rétt, að þingið setti sér þannig aðhald, og ég sé ekki, að hin slæma reynsla á þessum málum undanfarið réttlæti ekki fullkomlega, að svo sé enn þá og að slíkt aðhald sé fullkomlega nauðsynlegt. Og frá sjónarmiði þeirra, sem eru óánægðir með skipun þessara mála, er þetta eðlileg krafa, því að þetta er eina tryggingin fyrir breytingum, því að ef l. eru tímabundin, hljóta þau að koma til meðferðar aftur, þó að eigi tækist að mynda stjórn eða það endaði með þingrofi. Þessar kröfur eru því alls ekki óeðlilegar, þar sem hér er um að ræða eitt veigamesta mál þjóðarbúskaparins.

Núverandi skipun þessara mála er þannig, að flestir eru óánægðir með hana, enda fullnægir hún alls ekki kröfum nútímans. Hún er ekki miðuð við það að fullnægja þörfum þjóðarinnar, heldur sérstakrar stéttar, þeirra manna, sem mestan hafa haft gróðann og innflutninginn hafa haft með höndum. Þeir hafa þar sérréttindi í krafti þess valds, sem þeir hafa nú. Það er því eðlilegt, að það sé óánægja með þjóðinni yfir skipun þessara mála, sérstaklega hjá þeim, sem framleiða gjaldeyri. Hagsmunir verzlunarstéttarinnar eru að græða sem mest, og því hugsa þeir meira um að flytja inn dýrar vörur en hvað kemur þjóðinni bezt.

Það eru því flestir sammála um, að ástandið sé afleitt, því að það er ekki einu sinni frjáls verzlun, heldur einokun einstaklinga. Til þess að tryggja réttindi þjóðarinnar höfum við sósíalistar haldið því fram, að eðlilegasta lausn þessara mála væri sú, að ríkið tæki innflutninginn í sínar hendur. Það er eðlilegt, þegar allt er seljanlegt og oft aðalatriðið, að þær vörur séu til, sem á þarf að halda. Það er líka betra fyrir eina stofnun að tryggja það en einstaklinga. Ástandið er sem sé þannig, að verzlun er rekin með stórgróða — á sama tíma og margar greinar framleiðslunnar eru reknar með taprekstri. Þetta er vitanlega andstætt hagsmunum þjóðarinnar. Eigi að fá fjármagnið í atvinnuvegina í venjulegu kapítalísku þjóðfélagi, verður þar að vera hagnaðarvon. Þess vegna hefur fjármagnið streymt til verzlunarinnar. Þar hefur ágóðavonin verið. En til þess að fá fjármagnið í atvinnuvegina verður að sjá til þess, að verzlunarágóðanum sé útrýmt. En það verður ekki gert nema með því að þjóðnýta verzlunina, því að það er ekki hagkvæmt að þjappa svo að verzluninni, að þar sé engin hagnaðarvon. Frá sjónarmiði atvinnuveganna er þetta nauðsynjamál, en ég býst við, að ekki þýði að koma með slíkar till. nú.

Nú hafa komið fram kröfur af hálfu útvegsmanna og fleiri ítrekaðar kröfur um, að þeirra sjónarmið verði meir tekin til greina en verið hefur. Þeir komu á fund í fjhn., eins og hv. þm. V-Ísf. skýrði frá. Lögðu þeir fram bréf og frv., og höfum við hv. 2. þm. S-M, tekið upp aðalatriðin úr því frv. í brtt. þær, sem við flytjum, og mun hann gera grein fyrir þeim hér á eftir. En því fara þessar brtt. ekki lengra en þær gera, að við töldum ekki til neins að bera þær till. fram, sem við hefðum helzt kosið. Svo framarlega sem þessar brtt. falla, þá mun ég freista við 3. umr. að bera fram brtt. um að tímabinda l., svo að það sé tryggt, að Alþ. setji sér takmörk, hve lengi þessi l. geti gilt, án þess að til umr. og meðferðar Alþ. kæmi.