30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

141. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Það er vegna þess, að ég álít nú eins og áður, að l. þessi eigi að gilda aðeins takmarkaðan tíma. Eins og hv. þm. V-Ísf. tók fram, hefur ekki enn unnizt tími til að taka þessi l. til endurskoðunar, sem þó er þörf að gera og ég tel, að ekki verði hjá komizt, en hins vegar nauðsyn að framlengja l. nú.

Það er rétt hjá hv. þm. V-Ísf., að Alþ. getur, hvenær sem er, breytt l., en ég tel rétt, að tímatakmark sé í þeim, því að í því felst yfirlýsing um, að l. þurfi að taka sem fyrst til endurskoðunar. Ég leyfi mér því að leggja fram brtt. varðandi þetta atriði. En brtt. er svohljóðandi með leyfi hæstv. forseta: „2. málsgr. 9. gr. laganna orðist svo: Lög þessi falla úr gildi 1. apríl 1947“.

Þar sem brtt. er skrifleg og of seint fram komin, leyfi ég mér að afhenda forseta hana með ósk um, að hann leiti nauðsynlegra afbrigða, til þess að hún geti komið til atkvæða.