30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

141. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Ég vildi með nokkrum orðum taka þátt í þeim umr., sem hér hafa farið fram, og minnast þá m. a. á það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði í sinni ræðu þegar í upphafi og hv. 2. þm S-M. endurtók að mestu.

Það leit þannig út hjá honum, hv. 2. þm. Reykv., að það væri eiginlega ein stétt hér í þessu landi, sem öllu réði og allir þyrftu sérstaklega að gæta sín fyrir, og það væru heildsalarnir. Ég veit það nú, að mönnum er það ljóst, að það er réttara að nefna þetta, sem hv. þm. á við með þessu, heildsöluverzlanirnar. Og einhver stærsta heildsöluverzlun landsins er Samband ísl. samvinnufélaga, og mér heyrðist nú hv. þm. V-Húnv. vilja eitthvað endurbæta réttindi og völd þess félagsskapar eða félaga innan þess, svo sem innkaupafélaga, frá þeim réttindum, sem þau hafa í dag. Og finnst mér hv. þm. V-Húnv. vera á góðri leið með að fá liðstyrk hjá hv. 2. þm. Reykv. til þess. — En það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði viðkomandi heildsölunum, er náttúrlega sú gamla plata, sem hv. 2. þm. Reykv. og hans flokksmenn hafa spilað eða látið heyra hér í hv. þd. og sömuleiðis í blaði sínu, svo að það er ekki neitt að kippa sér upp við það. Og það finnst mér geta legið alveg fyrir utan það, sem hér er um að ræða, sem sé það, hvort eigi að framlengja þau l., sem eru hér á dagskrá, eins og lagt er til með frv. á þskj. 323, sem var flutt af meiri hl. fjhn.

Ég get fallizt á það með þeim, sem hafa minnzt á þetta mál, að það eru líklega allir aðilar, sem gjarnan vilja fá breyt. á viðskiptaráði. Hitt er náttúrlega nokkuð hvatskeytlega yfirvegað af hálfu Landssambands ísl. útvegsmanna, sem kemur fram sem vilji þeirra í brtt. á þskj. nr. 345. Það er ekki nema rúm vika síðan ég hafði fund með fulltrúum þess og átti tal einmitt við framkvæmdanefnd L. Í. Ú., og þá var skiptingin með allt öðrum hætti viðkomandi skipun á mönnum í viðskiptaráð á milli aðila og samtaka en kemur fram í brtt. á þskj. 345. Þetta atriði bara út af fyrir sig er nægilegt til að sanna, að það þurfi að vanda undirbúning þess máls dálítið betur, ef breyta á reglum um skipun ráðsins.

En ég vil ræða um það, sem kom fram í ræðum hv. flm. þessarar brtt. nú — fyrir utan þau margendurteknu ummæli um heildsalana —, nefnilega að útgerðarmenn fengju ekki þann gjaldeyri, sem þeir þyrftu til innkaupa á nauðsynjum til framleiðslustarfa sinna, og að útflytjendur hafi engan fulltrúa í viðskiptaráði. Ég held, að við höfum verið sammála um það á þingi 1945, hv. 2. þm. Reykv. og ég, að útflutningsverzlunin hafi verið vanrækt einmitt á þann hátt, að henni hafi verið um of kippt úr tengslum við innflutningsverzlunina. Ég álít nefnilega, að hver sá, sem fæst við innflutningsverzlun, hafi mikla möguleika gegnum verzlunarsambönd sín víða um lönd til þess einmitt að fá gott verð fyrir útflutningsvörur. Og það er gefinn hlutur, að það má ná með því móti sama vöruverði og ætlað var að tryggja, þegar útflutningsverzlunin var farið í svo þröngan ramma hér heima sem gert var. Ástæðan til þess, að svo var gert, var sú, að álitið var, að ekki mætti selja útflutningsvörurnar við lægra verði en framleiðslan í landinu þyldi. — Ég er því sammála, að þarna á að vera fullkomið samræmi á milli, en þannig að það eigi að gefa öllum innflytjendum sem frjálsasta möguleika til þess að leita markaða, en binda svo lágmarksverðið við það, sem fært þykir að flytja vörur út úr landinu fyrir. Og ég hygg, að við hv. 2. þm. Reykv. og ég séum þarna sammála. En að útflytjendur hafa engan fulltrúa í viðskiptaráði, er af því, að útflutningurinn er bundinn við sérstakar opinberar stofnanir.

Það eru tvö atriði, sem mig langar sérstaklega til að leggja áherzlu á, fyrst, að innflytjendur, a. m. k. heildsalarnir, telja alveg sjálfsagt, að útflutningsverzlunin hafi þann gjaldeyri, sem hún þarf, — fyllilega — til þess að geta keypt inn vörur, sem tryggja framleiðsluna í landinu. Um þetta hefur aldrei orðið nokkur ágreiningur milli þessara aðila. Og þegar umr. urðu um þetta atriði hér í Alþ. og orð féllu frá hæstv. atvmrh. í þá átt, að stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna hefði farið fram á það að fá landsverzlun komið á, þá kom mér það ákaflega kynlega fyrir, og mitt fyrsta verk á eftir var að fá úr því skorið, einmitt frá stjórn L. Í. Ú. Skrifaði þá verzlunarráðið fyrirspurn um það, sem ég, með leyfi hæstv. forseta, vil lesa hér, og fékk svar sem sýnir bezt, að samvinna milli sjávarútvegsins og verzlunarstéttarinnar í heild hefur verið með fullum skilningi.

Verzlunarráðið skrifaði stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna, þann 26. marz 1946, á þessa leið : „Að gefnu tilefni leyfir stjórn Verzlunarráðs Íslands sér hér með að leggja þá spurningu fyrir stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna, hvort Landssamband ísl. útvegsmanna sé því meðmælt, að komið verði á landsverzlun.“ — Fyrirspurnin var ekki önnur. Og svarið, sem við fengum, þá örfáum dögum seinna, var þannig: „Sem svar við bréfi yðar, dags. 26. þ. m., hefur stjórnarfundur vor í gær samþykkt eftirfarandi ályktun: „Út af fyrirspurn frá verzlunarráðinu um það, hvort stjórn L. Í. Ú. sé með eða móti landsverzlun, var eftirfarandi till, samþykkt:

„Stjórn Landssambands íslenzkra útvegsmanna er alveg mótfallin því, að landsverzlun verði sett á stofn, og getur þess jafnframt, að ósk um slíkt hafi aldrei komið fram á stjórnarfundum Landssambandsins.“ “

Þessi bréfaskipti voru út af alveg sömu ummælum þá eins og eiga sér stað nú, sem áttu þá ob eiga nú að sýna, hvað innflutningsverzlunin í raun og veru gengi á hlut útflutningsverzlunarinnar, en slíkt er fjarri sanni. En það er alllangt mál að skýra það til hlítar í einstökum atriðum. Innflutningsverzlunin hefur reynt að skera úr um möguleika með útflutningsverzlun og um ákvæði um hana, og vil ég ekki hvað sízt í því sambandi nefna, að fulltrúar innflutningsverzlunarinnar bentu á, þegar til mála kom um sölu til Ítalíu, að vinningurinn við þá sölu væri svo óljós, að það þyrfti að ganga miklu nánar frá ákvæðum um það fyrirkomulag, sem ætlazt var til, að gengið væri þar að. Mun viðskiptaráði hafa verið fullkunnugt um, að full þörf væri á að tryggja þar örugga leið. En ég vildi mótmæla sérstaklega því, að hér hefði ekki alltaf verið fullkominn skilningur milli útflytjenda og innflytjenda um gjaldeyrisþörf útflytjenda, og þó að útflytjendur í mörgum tilfellum fái sín leyfi, þá hefur það sýnt sig, að þeir hafa fengið hagkvæmust tilboð frá okkur, sem höfum fengizt við innflutningsverzlunina.

Ég vil nú ekki vera að orðlengja þetta eða vera að karpa um einstök atriði í þessu. Þó vildi ég segja það og endurtaka, að ég álít, að hver sú ríkisstj., sem tekur við völdum, hljóti að álíta, að það liggi alveg beint við, að öll þessi mál þurfi að taka mjög gaumgæfilega upp, og m. a. athuga vel, hvert hagræði það væri að sameina inn- og útflutningsverzlunina, þannig að sömu mennirnir hefðu aðstöðu til að starfa að hvoru tveggja. Hér hafa komið fram í þessum umr. margar ásakanir í garð viðskiptaráðs. En ég þekki ekkert „ráð“ hér, sem ekki fær sínar aths. á einn eða annan hátt, og það er ekki létt verk fyrir viðskiptaráð í mörgum tilfellum að framkvæma það, sem ætlazt er til af því og er innan þess verkahrings. En þó hefur því í mörgum tilfellum tekizt að gera glöggar till. í nauðsynlegum atriðum.

Við vitum, að í hverju landi er verzlunarstéttin stétt, sem er þjónustustétt. Og það var það fyrsta á stríðsárunum, að áskoranir komu fram um, og það í öllum löndum, að þessi stétt ætti að duga sem bezt. Átti verzlunarstéttin hér einnig að inna það hlutverk af hendi að draga vörur að, flytja þær inn í landið. Það var ekki hægt að fá nema takmarkað vörumagn frá fyrstu hendi, og urðum við þá að kaupa dýrari vörur frá öðrum stöðum í staðinn. Úr þessum og þvílíkum vanda, álít ég, að verzlunarstéttin hafi leyst með mikilli prýði, nefnilega að ná inn vörum á þessu tímabili — einnig S. Í. S., sem er stærsti heildsali landsins. En verzlunarstéttin er sú stétt, sem er umsetin af mörgum n., verðlagsnefnd og viðskiptaráði, þegar aðrar stéttir hafa getað tekið sínar ákvarðanir um verðlag eftir sínum geðþótta. Þó að þessi stétt hafi fengið aðkast, þá hafa fleiri orðið fyrir því. Hv. 2. þm. Reykv., sem hefur átt sæti í nýbyggingarráði, hefur vafalaust ekki heldur sloppið við að heyra, ýmis orð falla í garð nýbyggingarráðs.

Ég er ekki í vafa um, að það þurfti að ýmsu leyti að breyta viðskiptaráði. Og hvaða breyt., sem gerðar kunna að verða í þessum efnum, þá verða þær að vera réttlátar gagnvart öllum stéttum í landinu, þannig að þar sé vel yfirvegað, hvaða úrlausnir eru beztar gagnvart neytendum, því að ég er fyllilega þeirrar skoðunar, að það er skylda og vilji verzlunarstéttarinnar í heild að fá sem beztar og ódýrastar vörur til landsins. (EOl: Er það alveg öruggt, að hún vilji fá þær sem ódýrastar?) Þetta er hægt að segja, ef maður vill aðeins sjá málefnin frá annarri hliðinni. En ég mótmæli því, að verzlunarstéttin hafi nokkurn tíma leitað annars en þess að ná sem allra hagkvæmustum og ódýrustum innkaupum á vörum til landsins. (EOl: Fyrir hverja?) Bæði fyrir hönd okkar heildsalanna og annarra. Við, sem t. d. höfum haft með innflutning á kornvöru að gera frá því fyrir stríð, höfum getað leyst það þannig af hendi, að við höfum tryggt landinu nægan kornforða með hagkvæmasta verði, þegar aðrar þjóðir fengu ekki nema skammtað. En hér á landi hefur aldrei á þessu tímabili orðið skortur á kornvörum.

Ég vildi þá aðeins minnast á þau ummæli hv. þm. V-Húnv., að hann vildi gjarnan fallast á b-lið hér í brtt. En núverandi skipan málanna — eins og ég tók fram áðan, — hefur aldrei staðið í vegi fyrir því, að framleiðendur hafi getað fengið vörur til framleiðslu sinnar. Ég veit ekki annað en að bæði S. Í. S., bankarnir, viðskiptaráð og verzlunarstéttin í heild telji þetta alveg sjálfsagðan hlut. Og ég veit, að enginn útgerðarmaður vill neita þessari staðhæfingu minni. Þess vegna þykir mér óþarft að taka þetta úr, og sérstaklega þegar við vitum, að þessi framlenging er ekki nema til bráðabirgða og getur ekki verið nema til bráðabirgða, vegna þess að allir eru sammála um það, að það þurfi að gera almennar breyt. á þessum l. síðar.

Ég vonast því til, að hv. þd. geti fallizt á það að samþykkja frv., eins og það var afgr. frá hv. Ed., alveg án breyt., þar sem ekki er eftir nema einn dagur, sem þessi l. eru í gildi. Ég er fylgjandi frjálsri verzlun. Hins vegar ímynda ég mér, úr því sem komið er, að þar sem þessi höft og kerfi um verzlunina hafa verið höfð, þá sé það nokkuð hvatskeytislega gert að láta l. falla alveg niður, og mæli ég ekki með því fyrir mitt leyti.