12.02.1947
Efri deild: 70. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

166. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1947

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Því miður gat ég ekki verið við hér í d., þegar frv. var borið fram, vegna starfa í Nd., en ég hugði, að mál þetta skýrði sig sjálft, enda svo kunnugt þm. Það er auðsætt, að ekki var hægt að ljúka þinginu 1946 fyrir 15. febr., og vita þm. ástæðurnar fyrir því. Hins vegar tek ég undir þau orð hv. 1. þm. Eyf., að það sé óviðunandi, að láta afgreiðslu fjárlaga dragast fram á það ár, sem þau eiga að gilda fyrir. Það er nú því miður svo nú, að allt útlit er fyrir, að fresta þurfi afgreiðslu fjárlaga, ekki aðeins til 1. marz, heldur til 1. apríl. En nú liggja fyrir afar mikilvægar ástæður fyrir þessu, eins og menn vita, þar eð ríkisstj. sagði af sér störfum í byrjun október s. l. og sú stjórnarkreppa, sem ríkt hefur síðan allt fram á þann tíma, að ný stjórn var mynduð, hlaut að hafa í för með sér áhrif á afgreiðslu fjárlaga og annarra mála. Ég vil lýsa því yfir af hálfu ríkisstj., að hún telur æskilegt að hraða afgreiðslu fjárlaga, svo mjög sem unnt er, og mun hún gera allt, sem í hennar valdi stendur til þess að stuðla að því. Það var réttilega fram tekið hjá hv. 1. þm. Eyf., að það er mjög óþægilegt fyrir þm., sem búa á Norður- og Austurlandi, að fá aðeins stutt jólafrí og þurfa að koma til þings þegar eftir áramót.

Tvö dæmi man ég þess, að fjárlög hafi verið afgr. fyrir nýár, enda þótt þing kæmi ekki saman fyrr en í október, en það var árið 1934 og svo s. l. ár. Það er vitanlega teflt á tæpasta vaðið, ef þing kemur ekki saman fyrr en í byrjun október, en þó má takast að afgreiða fjárlög fyrir áramót, þótt þing byrji ekki fyrr. Hitt er svo auðvitað athugandi, eins og hv. 1. þm. Eyf. benti á, að ríkisstj. kalli þing saman fyrr en bein lagafyrirmæli ákveða, ef sérstakar ástæður eru til. Þó að ég geti ekki lofað neinu, sem skuldbindandi sé fyrir ríkisstj., um, að afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1948 verði lokið á þessu ári, þó lofa ég því, að ríkisstj. mun gera allt, sem í hennar valdi stendur til þess, og vænti, að svo megi verða. Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv., því að öllum mun ljós nauðsyn þess. Spurningin er aðeins, hvort þingið komi saman fyrir 1. okt., en það mun ríkisstj. taka til athugunar, ef henni þykir ástæða til, m, a. vegna afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót.