12.02.1947
Efri deild: 71. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

146. mál, beitumál

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Tilgangur þessa frv. er sá að hamla á móti óhóflegri eyðslu á beitu á vetrarvertíð, sérstaklega hér við Faxaflóa. Talið er, að í kapphlaupinu, sem verður um veiðina, sé gengið óhæfilega langt í að skera beituna of stórt, en við það ganga síldarbirgðirnar mjög til þurrðar. Beitunefnd talaði við útgerðarmenn og sjómenn, og töldu þeir rétt að setja reglur um beituskurð til þess að koma í veg fyrir óhóflega eyðslu. Beitunefnd sneri sér til atvmrh. og óskaði eftir lagaheimild um þetta, og flutti sjútvn. Nd. að hans beiðni þetta frv., er hér liggur fyrir. Sjútvn. Nd. leitaði álits L. Í. Ú. og tjáði það sig samþykkt efni frv. og reglum þeim, sem þar er gert ráð fyrir, að settar verði. Sjútvn. Ed. telur rétt að verða við óskum þeirra aðila, er ég hef áður getið, og leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það er á þskj. 329. Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Þetta er einfalt mál og auðvelt fyrir þm. að átta sig á efni þess. Legg ég því til, að frv. verði samþ. óbreytt.