18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

112. mál, tilraunastöð háskólans í meinafræði

Frsm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Þetta frv., sem menntmn, flytur, er flutt að beiðni háskólans, og sem grg. fyrir því, sem hér fylgir með, er bréf háskólarektors, dags. 13. nóv. 1946, þar sem gerð er grein fyrir þeim breyt., sem háskólinn óskar, að gerðar verði á þeirri löggjöf, sem Alþ. samþykkti þann 10. okt. s. l. um Rannsóknarstofnun háskólans í búfjármeinafræði.

Einstakir nm. í menntmn, áskildu sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. og eins að fylgja brtt., sem fram kynnu að koma.

Ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim höfuðbreyt. á nefndum l., sem í frv. felast. Með frv. þessu er lagt til, að breytt verði nafni þessarar stofnunar, þannig að hún nefnist Tilraunastöð háskólans í meinafræði, í stað þess, að nú heitir hún Rannsóknarstofnun háskólans í búfjármeinafræði. Háskólinn gerir þá grein fyrir þessari till. til breyt. á nafni stofnunarinnar, að það sé ekki óhugsandi, að þessi stofnun hafi með fleira að gera en rannsóknir búfjársjúkdóma eingöngu. Það er gert ráð fyrir, að verksvið þessarar stofnunar geti a. m. k. orðið meira en það. Háskólinn telur því eðlilegra, að þetta nafn sé á þessari stofnun, en það, sem henni var valið, þegar l. frá 10. okt. voru samþ. Þær breyt., sem hér er lagt til, að gerðar verði með 1. og 2. gr. frv., eru aðeins þær, sem leiðir af breyt. á heiti stofnunarinnar.

Í 3. gr. frv. er ákveðin tala þeirra sérfræðinga, sem við stofnun þessa skulu vinna. Samkv. gildandi l. heimilast menntmrh., að fengnum till. læknadeildar, forstöðumanns stofnunarinnar og yfirdýralæknis, að ráða til stofnunarinnar dýralækna og sérfræðinga, „eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum hverju sinni“. Sú breyt., sem í þessari 3. gr. frv. felst, er fyrst og fremst sú, að ákveðin er tala sérfræðinga, sem lagt er til, að þarna verði ráðnir, og þeir eru 3 auk forstöðumanns. Það er sama tala og upphaflega var gert ráð fyrir í þeirri áætlun, er ríkisstj. Íslands sendi stjórn Rockefellers sjóðsins í nóvember 1944 og sjóðurinn lagði til grundvallar ákvörðun sinni um gjöfina til stofnunarinnar. Háskólarektor bendir á, að óheppilegt sé og geti orðið til þess, að mjög erfitt verði að fá hæfa starfsmenn til þessarar stofnunar, ef fjárveiting til að greiða þessum starfsmönnum stofnunarinnar er háð veitingu fjár á fjárl. frá ári til árs. Og það mun mega til sanns vegar færa, að menn mundu verða tregir til að ráða sig í stöður, sem ekki væri betur að búið en svo, að laun fyrir störf í þeim væru háð afgreiðslu fjárlaga frá ári til árs. Ég hygg, að þegar þessi breyt. var sett í l. í hv. Ed., þá hafi það ekki verið hugsun þeirrar hv. d. að þeir menn, sem störfuðu við þessa stofnun, gætu átt það á hættu að verða vikið úr störfum sínum vegna þess, að fjárveiting væri ekki á fjárl. fyrir greiðslu á launum til þeirra. Hitt mun hafa vakað fyrir þeirri hv. þd. að hafa nokkurn hemil á því, hversu margir menn yrðu ráðnir við þessa stofnun, vegna þess að í l. var menntmrh. heimilað, að fengnum till., að ráða ótakmarkaða tölu sérfræðinga við þessa deild háskólans. Ég held, að fyrir hv. Ed. hafi frekar vakað að skapa þarna aðhald nokkurt heldur en hitt að hafa áhrif á það frá ári til árs, hversu margir menn störfuðu þarna.

Í 4. gr. þessa frv. er lagt til, að sú breyt. verði gerð á gildandi l., að 1. aðstoðarmaður taki laun eftir 5. flokki launal., en ekki eftir 6. launaflokki. Þessi till. til breyt. er þannig til komin, að maður sá, sem ráðgert er, að taki við stöðu þessari, er búinn að vinna við slíkar rannsóknir og hefur nú laun af almannafé, sem samsvara launum í 5. flokki launalaga. Og það er í samræmi við till. væntanlegs forstöðumanns stofnunarinnar, að lagt er til, að þessi maður, 1. aðstoðarmaður, verði settur í sama launaflokk og sjálfur forstöðumaðurinn. Þetta virðist vera mjög sanngjörn breyt. á l. Þessi maður, sem gert er ráð fyrir að verði 1. aðstoðarmaður, er mjög hæfur og nýtur maður, sem um langt árabil er búinn að fást við þessi störf.

5. gr. þessa frv. er samhljóða að efni 5. gr. l. nr. 86 10. okt. 1946, sem hér er lagt til að breyta í öðrum atriðum.

En í 6. gr. þessa frv. er tekið upp ákvæði um, að um lagningu vegar að tilraunastöðinni á Keldum frá þjóðveginum um Mosfellssveit gildi ákvæði IV. kafla vegalaga nr. 101 frá 1933. Þetta ákvæði var í bráðabirgðal., sem hæstv. ríkisstj. gaf út á síðasta sumri. En það var fellt niður í meðferð þingsins, er bráðabirgðal. voru samþ., af því að þingið taldi ekki æskilegt að blanda vegalagaákvæðum inn í löggjöf sem þessa. En þessi niðurfelling hefur valdið nokkru óhagræði, þannig að vegagerðin að þessum stað, sem talið er nauðsynlegt að framkvæma fljótt, mun hafa stöðvazt. Háskólinn leggur þess vegna til, að þetta ákvæði verði tekið á ný inn í l. þessi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta frv. Ég endurtek það, að einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja við frv. brtt. eða fylgja brtt., sem fram við það kunna að koma. — Ég segi sem mína persónulegu skoðun, að ég hygg, að þær breyt., sem háskólinn leggur hér til, að gerðar verði á löggjöf þeirri, sem hér er um að ræða, horfi heldur til bóta. Í fyrsta lagi virðist mér nafn stofnunarinnar heppilegra eins og háskólinn leggur hér til, og að það nái betur að gefa til kynna meiningu eða efni þessarar löggjafar, ef frv. verður samþ. Í öðru lagi er viðkunnanlegra, að Alþ. viti, hversu margir starfsmenn koma til með að vinna við þessa stofnun og þar með nokkru nánar um þau útgjöld, sem ríkissjóður muni af henni hafa.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.