19.12.1946
Efri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Þetta frv. er, eins og kunnugt er, í sambandi við samning þann um afnot af flugvellinum í Keflavík, sem gerður var við Bandaríkin á síðasta þingi. Þar var kveðið svo á, að þeir erlendir menn, sem hér eiga að dveljast til að vinna á flugvellinum, hafi sérlög hvað snertir skatta- og tollagreiðslur.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur farið í gegnum Nd. og að því er virðist verið samþ. þar án breyt. Því var vísað hér til fjhn., en hún er þannig skipuð, að í hana vantar einn af nm. Hann varð að fara af þingi, þegar málið kom til n., og því var ekki hægt að fá samþykki hans, en um hina fjóra nm. er það að segja, að þrír hafa fallizt á að leggja til, að málið verði afgr. óbreytt, en einn nm., 8. landsk., skilar sérstöku áliti og leggur til, að málinu sé vikið frá með rökst. dagskrá, eins og þar segir. Minni hl. álítur, eftir nál. að dæma, frv. ekki nógu greinilegt og álítur, að gera þyrfti breyt. á öllum þeim skatta- og tollal., sem hér koma til greina.

Ég get ekki verið sammála hv. þm. Í 1. gr. er getið, að nánari ákvæði megi setja í reglugerð, og leiðir það af sjálfu sér, að framkvæmd á hverju atriði yrði tekin fram í reglugerðinni og er það betra en að tína allt upp í lagaformi. Ég sé svo ekki ástæðu til frekari málflutnings, nema tilefni gefist til. Þetta er aðeins einn liður í stóru samkomulagi, sem meiri hl. Alþ. samþykkti, en þeim, sem voru á móti því, finnst ef til vill, að þeir þurfi að greiða atkv. gegn þessu líka. En úr því sem komið er, að sáttmáli þessi er gerður og það liggur fyrir að koma á löglegri samþykkt, og það er gert með þessu frv., þá leggur meiri hl. fjhn. til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.