19.12.1946
Efri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. — Eins og hv. frsm. minntist á, hef ég ekki getað orðið sammála meiri hl. n. um afgreiðslu þessa máls, og hann gat að nokkru þeirra atriða, sem ósamkomulag varð um. Því verður ekki neitað, að í sambandi við ýmis ákvæði eru allveigamiklar breyt. á íslenzkum tolla- og skattal. og hvað sem því líður, hvort menn hafa verið á móti samningnum, þá kemur það ekki málinu við. Hinu verður ekki neitaó, að bezt er að ganga sem skýrast frá því í íslenzkum l., sem ágreiningi gæti valdið. Það kemur fram í aths., að þeim, sem sömdu frv., var ljóst, að betra væri að breyta hverjum þeim íslenzkum l., er samninginn snerta, en þeir segja, að það sé of umsvifamikið, og er það einkennileg röksemdafærsla. Má vera, að það hefði kostað meiri undirbúning, en þar sem nauðsyn krefur, ber ekki að horfa í þá vinnu, sem því fylgir. Það var rétt hjá hv. þm. Vestm., að samningurinn hefur verið gerður, og getur þetta þing ekki breytt því. Annað mál er það, að það, sem þetta þing getur gert, er að tryggja, að sem minnstir árekstrar verði í framkvæmd samningsins, en það er ekki tryggt í þessu frumvarpi.

Í 9. lið samningsins frá 7. okt. 1946 segir, að ekki megi leggja neina tolla eða önnur gjöld á útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem flutt er inn til afnota fyrir Bandaríkjastjórn eða til afnota fyrir starfslið það, sem hér dvelur vegna starfa, sem leiðir af framkvæmd samningsins. Hér virðist vera smuga á tollalöggjöfinni, sem getur skapað smygl. Í Nd. var þetta rætt ýtarlega, og varð þar ágreiningur um þetta og sömuleiðis um skattfríðindin. Það kemur t.d. fram í 10. gr., að eigi skal leggja tekjuskatt á það starfslið, sem hefur störf á hendi fyrir Bandaríkjastjórn á flugvellinum, en vel má vera, að þetta lið vinni eitthvað utan síns starfa, þá ber að athuga það, að þeir eiga að vera skatt- og útsvarsskyldir fyrir þau störf. Um þetta eru mjög ófullnægjandi upplýsingar hjá þeim, sem sömdu þetta frv. Ef til árekstra kemur, þá á úrskurðarvaldið að vera hjá Íslendingum, og væri það rangt af Alþ. að sleppa að lögfesta þetta svo skýrt, að ekki þurfi að vera á valdi dómaranna, sem gætu túlkað málið hver á sinn veg. Enn fremur get ég ekki séð, að það séu frambærileg rök, að of umsvifamikið sé að breyta l. Þess vegna legg ég til, að mín rökst. dagskrá verði samþ.