19.12.1946
Neðri deild: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

108. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Ég hafði getið þess við fyrri umr. þessa máls, að samgmn. þessarar hv. d. hefði flutt þetta mál og ætlaði að taka það til frekari athugunar síðar eða áður en það væri afgr. frá þessari hv. d. — N. hefur nú haldið fund um málið, og eftir atvikum er hún ásátt um að mæla með framgangi þess.

Í þessu máli liggur þannig, eins og reyndar grg. frv. ber með sér, að eftir fram komnum óskum og við rannsókn á öllum aðstæðum hefur þótt rétt að leggja til, að varamenn skyldu vera fimm, jafnmargir aðalinönnum, í þeirri n., sem samkv. l. frá 30. jan. 1945, 2. gr., skal kjósa til þess að annast um undirbúning að veitingu sérleyfa á fólksflutningum með bifreiðum. Það hefur þótt vera til baga, að ekki hafa verið varamenn í þessari n. Aðalatriði frv. er þó það, að lagt er til með því, að sérleyfin skuli gilda í 5 ár í stað þess, að í gildandi l. er sérleyfistímabilið ákveðið 3 ár. Það hefur komið í ljós, að þessi tími er of skammur, vegna þess m. a., að komið hefur í ljós upp á síðkastið, að mjög er erfitt að afla stórra bifreiða, nema með ærnum kostnaði, og halda þeim við og endurnýja þær, svo sem þarf, þó að ekkert slys beri til. Sérleyfishafar hafa því eðlilega farið fram á það við ráðuneytið, að það sæi um, að sérleyfistíminn yrði ekki svo skammur sem ákvarðað var, og hafa sætt sig við, að fimm ára tími væri nægilegur til þess, að þeir gætu lagt í nauðsynlegan kostnað við rekstur fólksflutninganna án þess að eiga á hættu að verða sviptir réttinum, sem sérleyfin veita, of fljótt. — Og í sambandi við þetta þykir einnig rétt, og er hér lagt til, að n., sem hafa skal á hendi skipulagningu fólksflutninga, verði kosin til fimm almanaksára, en ekki þriggja, eins og á að gera eftir gildandi lögum.

Loks er í frv. gerð till. um, að við 7. gr. l. bætist ný málsgr., um það, að n. sú, sem skipuð er samkv. 2. gr., og sú stofnun, sem fer með stjórn þessara mála í umboði ráðh. — sem varð að samkomulagi, að væri póststjórnin eða önnur stofnun —, skuli hafa sem nánasta samvinnu. Hefur samgmn. þessarar hv. d. látið þetta ákvæði haldast í frv., þó að hér sé að vísu aðeins um góða ósk að ræða, sem mætti vera til hvatningar þess, að nokkuð ákveðin samvinna, sem hentar öllum aðilum, gæti átt sér stað á milli þessara stofnana, sem hvor tveggja er nauðsynleg til aðalumráða málsins í framkvæmdinni.

Af þessum ástæðum þykir samgmn. rétt að mæla með því, að frv. nái fram að ganga, og er það komið á síðasta stig í þessari hv. þd.