28.02.1947
Efri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

66. mál, menntun kennara

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Síðan þetta mál var hér til 3. umr. í hv. d., hefur menntmn. haldið fund tll þess að athuga þær brtt., sem lágu fyrir á þskj. 369. N. hefur tekið afstöðu til þeirra, og yfirleitt mælir hún móti þeim, og skal ég gera nokkra grein fyrir því.

Fyrsta brtt. á þessu þskj. er við 11. gr. frv. og kveður svo á, að gr. skuli falla niður. Þessi gr. er um kennsluskyldu kennara, sem er hliðstætt ákvæði við það, sem er í l. um aðra skóla hér á landi, og nákvæmlega sams konar og samþ. voru viðkomandi menntaskólunum. N. er því á móti því að fella þessa gr. niður. Hún telur mikið ósamræmi í því að hafa ekki slíkt ákvæði í l. um þennan skóla eins og er í gildandi l. um aðra hliðstæða skóla.

Þá er 2. brtt. við 15. gr. frv., og er hún um það að breyta frá því, sem frv. gerir ráð fyrir, kennslukröftum við kennslustofnun í uppeldisvísindum við háskólann, og breytist gr. þannig, að 1. og 2. málsl. falli niður og orðin „enn fremur“ í 3. málsl. falli niður. Ég vil benda á, að það, sem hér er farið fram á með brtt., er það að svipta þessa kennslustofnun alveg eðlilegri forstöðu. Að vísu kann það að vera hugmynd hv. flm. brtt., að prófessorinn í forspjallsvísindum eigi að hafa þessa forstöðu, en á það vil ég í þessu sambandi benda, að þessi kennari er aðalkennari við aðra deild háskólans, og eru þess vegna engar líkur til þess, að hann mundi geta tekið að sér að sinna sem vera ber forstöðu þeirrar stofnunar, sem hér er um að ræða, þó að hins vegar mætti gera ráð fyrir því, að hann gæti kennt þar eitthvað af þeim fræðum, svo sem almenna sálarfræði. Og enn fremur má benda á það, að þó að þessi prófessor verði sérfræðingur í almennri sálarfræði, eru ekki líkur til þess, að hann sé svo menntaður í uppeldisfræðum eins og prófessor í uppeldisfræðum á að vera. Og með því að samþykkja þessa brtt. má segja, að búið sé að svipta þessa stofnun þeim kennslukröftum, sem eru svo nauðsynlegir, að hún mundi ekki geta komið að fullu gagni. Þess vegna mælir n, á móti því, að þessi brtt. verði samþ.

Þá eru 3., 4. og 5. brtt. um það, að skólaráð æfinga- og tilraunaskóla og starf þess falli niður. Það eru brtt. um, að 20. gr., 1, málsl. 21. gr. og 1. málsl. 22. gr. falli niður. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að þessi skóli, æfinga- og tilraunaskóli, er í fyrsta lagi barnaskóli, sem kemur til með að hafa um 200 nemendur, miðað við, að þar verði jafnmargir bekkir og aldursflokkar skólabarna eru Nú hefur aldrei verið deilt um það, að við barnaskóla eigi að vera skólan., og þetta skólaráð á einmitt að vera skólan. þessa æfinga- og tilraunaskóla. En þessi skóli kemur til með að hafa meira hlutverk með höndum en venjulegir barnaskólar, og erfiðara hlutverk, þar sem hann á að hafa á hendi æfinga- og tilraunakennslu við tilraunaskólann og að einhverju leyti í uppeldisvísindum við háskólann. Þess vegna hefur þótt sérstök nauðsyn, að einmitt skólaráð þessa skóla væri vel skipað, og er þess vegna gert ráð fyrir því hér í 20. gr., að skólaráð þessa skóla skuli vera skipað í fyrsta lagi skólastjóra Kennaraskóla Íslands, enn fremur prófessor í uppeldisvísindum við háskólann og sérfræðingi í uppeldis- og fræðslumálum, sem kennslumálarh. skipar til fjögurra ára í senn, og sé hann formáður.

Það hefur þótt sérstök ástæða til þess að vanda til þessa skóla, og þess vegna væri það óneitanlega einkennilegt að fara að fella þessa gr. burt og fela stjórn þessa skóla algerlega einum manni, sem sé skólastjóra. Ég vil enn fremur benda á, að það þarf að vera svo mikið samstarf á milli kennaraskólans og uppeldisdeildar háskólans, að út frá því einu sjónarmiði virðist alveg nauðsynlegt að hafa þetta skólaráð, sem tengi þetta saman.

Þá eru 6. og 7. brtt. um það, að 30. gr. falli niður og orðin „og skólanefndar“ í 31. gr. falli niður. Þessar gr. fjalla einmitt um skólan. íþróttaskólans, og ég hef áður á það bent, að hér er alls ekki um nein nýmæli að ræða, heldur hefur skólan. starfað við íþróttaskólann á Laugarvatni, sem er skipuð eins og hér er gert ráð fyrir, og hefur það þótt nauðsyn vegna þess, að sú fræðslumálastjórn, sem fer með þessi mál á hverjum tíma, hefði ekki þá sérþekkingu, sem þyrfti, ef ekki væri að ræða um neinn ráðgjafa í þeim efnum, og þess vegna er ætlazt til, að íþróttafulltrúi sé form. þessarar skólanefndar.

Þá er 8. brtt. við 38. gr. frv. um það, að Húsmæðrakennaraskóli Íslands skuli starfa í Rvík frá 15. sept. til 15. maí ár hvert, en annan tíma árs í sveitum, þar sem skilyrði eru fyrir húsmæðrakennslu og bú rekið í sambandi við húsmæðraskóla. Hv. flm. þessarar brtt. kom inn á það við 2. umr. þessa máls, hvort ekki væri stofnað til óþarflegs kostnaðar með því að hafa orðalagið þar eins og það er í frv. Og mér skilst, að meining hans með þessari brtt. sé að koma í veg fyrir það. Ég vil þá gefa þær upplýsingar, að eins og þetta er starfrækt nú, þá er það mjög svipað því, sem hv. þm. Barð. leggur hér til í sinni brtt., að öðru leyti en því, að þessi sumarkennsla fer ekki fram nema annað hvert ár (kennslutímabilið er tveir vetur og eitt sumar). Þess vegna er það, að þótt þessi brtt. yrði samþ., þá getur hún ekki staðizt eins og hún er, vegna þess að það er ekki þörf á þessari kennslu nema annað hvert sumar. Og enn fremur get ég upplýst það, að það er alls ekki meiningin, að farið verði að setja upp neitt stórt bú eða kaupa stórar jarðir hér í námunda við Rvík til þess að hafa þessa starfsemi fyrir skólann yfir sumartímann, heldur er meiningin að halda áfram eins og verið hefur, þannig að hafa þessa sumarkennslu við einhvern skóla úti á landi. Hún hefur hingað til ekki verið við unglingaskólann á Laugarvatni, heldur við gagnfræðaskólann þar. Það gæti vel verið, að hentugast þætti að hafa þessa kennslu við einhvern bændaskólann, t. d. þegar hinn nýi bændaskóli í Skálholti tekur til starfa. N, leggur til, að þessi brtt. verði ekki samþ., því að eins og ég hef bent á, þá er hún ekki í samræmi við þá þörf, sem hér er um að ræða.

Þá er hér 9. brtt. við 39. gr. frv. um það, að gr. falli niður. Það er það ákvæði, að heimavist skuli vera fyrir þá nemendur, sem búa sig undir kennarastörf við húsmæðraskóla. Á meðan svo er háttað sem nú er, að Húsmæðrakennaraskóli Íslands hefur mjög takmarkað húsnæði í háskólanum, þá er ekki hægt að koma við heimavist fyrir þá nemendur. Hins vegar leit n. svo á, að þegar til þess kæmi, að hægt væri að hafa heimavist fyrir þessa nemendur, — og mér er kunnugt, að forstöðukona skólans telur það nauðsynlegt, til þess að þeir nemendur fái æfingu í að stjórna skóla, sem þeir fá bezta með því að vera í heimavist sjálfir, — en auk þess hefur n. litið svo á, að húsnæðisleysið í Rvík væri nóg til þess, að keppa bæri að því, að heimavist verði við þennan skóla í framtíðinni.

Hins vegar flytur n. brtt. við þessa gr, á þskj. 430, þar sem gert er ráð fyrir því, að þegar hús verði reist fyrir skólann, þá skuli þar verða heimavist fyrir þá nemendur, er búa sig undir kennarastörf við húsmæðraskóla, svo og aðra nemendur, er heimili eiga utan Rvíkur. Það ber að því að stefna, vegna þess húsnæðisleysis, sem nemendur utan af landi eiga við að stríða, að við þá skóla, sem staðsettir eru hér í Rvík, en eiga hins vegar samkvæmt eðli sínu að vera fyrir allt landið, — að sköpuð sé aðstaða fyrir nemendur utan af landi til þess að búa í heimavist þann tíma. Og má í þessu sambandi minna á, hvernig þetta vandamál nemenda háskólans hefur verið leyst, þar sem þeir hafa nú hinar ágætu heimavistir í stúdentagörðunum, sem allir munu vera sammála um, að var mikil nauðsyn. N. vill því eindregið mæla með því, að þessi brtt. verði samþ.

Þá er 10. og 11. brtt. við 46. og 47. gr. frv. 10. brtt, er um það, að 46. gr. falli niður, og 11. brtt. um það, að orðið „skólanefnd“ falli niður. Þar er átt við, að þar sem gert er ráð fyrir skólan. húsmæðrakennaraskólans, falli niður, og er 47. gr. því viðkomandi. En um þessar brtt. var meiri hl. n. ekki sammála, og einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að hafa óbundnar hendur við atkvgr. um þær. Meiri hl. n. mælir samt á móti þeim.

Þá er hér 12. brtt. við 50. gr. frv., um það, að sú gr. skuli falla niður. Eins og hv. þm. er kunnugt, er sú gr. um orlof kennara. Það er sams konar og sett var á síðasta þingi inn í l. um bæði gagnfræðaskóla og menntaskóla, og það sýnist því vera mjög mikið ósamræmi í því að ákveða kennurum við þá skóla orlof tíunda hvert ár til þess að mennta sig erlendis, en kennurum við kennaraskólann skuli ekki þá líka vera ákveðið slíkt orlof. N. mælir því með, að þetta verði samrímt og þessi brtt. verði felld, en leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt að öðru leyti en því, að samþ. verði brtt. n. á þskj. 430, við 39. gr. En eins og ég sagði áðan, þá hafa einstakir nm. óbundnar hendur um atkvgr. við 10. og 11. brtt. hv. þm. Barð.