28.02.1947
Efri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

66. mál, menntun kennara

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Afgreiðsla þessa frv. hefur nú nokkuð beðið, eftir minni ósk, sem var vegna þess, að ég var málinu mjög lítið kunnugur áður en ég tók við starfi sem menntmrh., og langaði mig til að kynna mér það áður en frv. væri afgr. og sérstaklega brtt., sem fyrir lægju.

Ég hef reynt að kynna mér þetta mál eftir ástæðum og hafði tal af ýmsum, sem starfað hafa að undirbúningi málsins og eiga hlut að máli. Ég þarf ekki að vera langorður um afstöðu mína í málinu. Hún er, í sem stytztu máli, í samræmi við afstöðu hv. menntmn. — Viðvíkjandi einstökum atriðum skal ég taka fram mína skoðun. Það eru eitthvað 4 eða 5 atriði, sem meiningamunur er um í hv. þd. Fyrst, hvort ákveða skuli kennslustundafjölda í þessum l. Get ég um það vísað til þess, sem hv. frsm. menntmn. og hv. 1. þm. Eyf. sagði. Ég er því sammála. Og sama gildir um það ákvæði, sem er í 50. gr. frv. og lýtur að möguleikum kennara til að fá frí. Mér sýnist eðlilegt, að þessi ákvæði hvor tveggja séu í samræmi við það, sem er í þeim fræðslul., sem nýlega hafa verið sett. Og ef breyta ætti stefnu í þessu viðkomandi þessu frv., þá álít ég, að það ætti að gera með því að breyta þá um leið tilsvarandi ákvæðum fræðslul.

Þá hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa athugað þetta mál nokkuð, að ekki muni vera fært að gera ráð fyrir því, að prófessor í forspjallsvísindum annist kennslu, sem ráðgerð er í II. kafla frv., heldur verði að gera ráð fyrir því, að sérstakur prófessor hafi það starf með höndum.

Þá er eftir að minnast á skólanefndirnar. Það má auðvitað nokkuð mikið um það ræða, fram og aftur, við hvaða skóla skynsamlegt sé að hafa skólanefndir og við hvaða skóla ekki. En ég geri ráð fyrir, að flestum finnist sjálfsagt að hafa skólanefnd við æfinga- og tilraunaskólann. Og þá er spurningin um íþróttakennaraskólann og húsmæðrakennaraskólann, og að athuguðu máli vil ég mæla með því, að ákvæði frv. um skólanefnd við þá skóla verði ekki felld niður. Það er vegna þess, að þessir skólar hafa nokkra sérstöðu, eins og komið hefur fram hjá hv. frsm. menntmn., og virðist ekki óeðlilegt, að skólanefndir starfi við þessa skóla. Ég veit, að sumir álíta ekki meiri þörf á að hafa skólanefndir við þessa skóla en ýmsa aðra skóla, t. d. kennaraskólann og ýmsa aðra skóla sjálfstæða. En þess ber að gæta, að gera má ráð fyrir, að fræðslumálastjórnin hafi heldur minni þekkingu um þau efni, sem þessir tveir skólar eiga að fjalla um, heldur en þau, sem aðrir skólar hafa með höndum, og því hygg ég, að ekki sé óskynsamlegt að gera ráð fyrir, að við þessa skóla séu einmitt skólanefndir. Ég skal ekki fara langt út í að ræða það fram og aftur, en aðeins láta í ljós þessa skoðun.

Um heimavistina, sem hér hefur verið um rætt nú, er það að segja, að ég hygg, að skynsamlegt sé að gera ráð fyrir því ákvæði, sem hv. menntmn. leggur til, að sett verði í frv. þar um, og að það sé sjálfsagt að stefna að því, að í framtíðinni geti orðið heimavist við þennan skóla, þannig að stúlkur utan af landi, sem þennan skóla vilja sækja, geti átt þar fullkomið athvarf.

Viðvíkjandi 38. gr. frv. og brtt. við hana, þá lít ég svo á, að ákvæði 38. gr. geri beinlínis ráð fyrir því, að þessu verði fyrir komið framvegis þannig, að skólinn starfi í Rvík að öðru leytinu og að hinu leytinu á Laugarvatni, við ekki ólíka aðstöðu til búrekstrar og hann hefur haft þar, og skilst mér, að það sé talið allvel viðunandi og við eigandi af þeim, sem bezt þekkja til. Ég hygg, að það sé réttast að ákveða það ekki nánar í l., hvaða mánuði þessi skóli skuli starfa í Rvík og hvaða mánuði annars staðar, heldur en gert er í frv., af því að ég hygg, að það sé betra að hafa það opið eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja, en endurtek það, að ég vil mæla með því, að frv. verði afgr. á þá lund, sem hv. menntmn. hefur gert að sinni till.