28.02.1947
Efri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

66. mál, menntun kennara

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, að þegar hv. þm. Barð. ræddi síðustu brtt. sína, þá sagði hann, að hann hefði haft sömu skoðun á þessum málum, þótt stjórnarskipti hafi orðið, en hins vegar hefði ég snúizt. Ég vil því skjóta því til hæstv. fyrrv. menntmrh., hvort ég hafi snúizt á hæli í skólamálunum. Og ég vil taka það fram, að ég hef ekki verið á móti fyrrv. ríkisstj. hvað þau mál snertir, því að þótt hún hafi farið afkeipa að ýmsu leyti, þá á það sízt við um skólamálin. Það er því alveg út í hött, að ég hafi sýnt þessu fjandskap.

Þá hefur hv. þm. haldið því fram, að skv. frv. eigi að veita kennurum orlof tíunda hvert ár, og býst ég við, að hann geri það enn, en slíkt er auðvitað alger fjarstæða og bendir til, að hv. þm. Barð. hafi ekki athugað frv. gaumgæfilega. En e. t. v. finnst hv. þm., að það þurfi þá ekki að vera svo nákvæmt, eins og haft er eftir einum góðum stjórnmálamanni.