05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Það er meginefni þessa frv., að lagt er til, að numið sé úr l. það ákvæði l. nr. 99 14. maí 1940, um bráðabirgðabreyt. nokkurra l., að l. um Ferðaskrifstofu ríkisins komi ekki til framkvæmda um sinn.

Ef þetta frv. verður samþ. og þetta bráðabirgðaákvæði niður fellt, þá verður afleiðingin sú, að Ferðaskrifstofa ríkisins tekur til starfa á ný. Önnur breyt., sem í þessu frv. felst, er sú, að verksvið ferðaskrifstofunnar verður aukið frá því, sem var, meðan hún starfaði. Er í frv. gert ráð fyrir því, að ferðaskrifstofan skuli annast, skipuleggja og beita sér fyrir orlofsferðum og orlofsdvölum innanlands. Þá er loks í þessu frv. lagt til, að kostnaður af Ferðaskrifstofu ríkisins verði greiddur með nokkuð öðrum hætti en gert er ráð fyrir í ferðaskrifstoful. frá 1936. Í þeim l. var svo ákveðið, að ferðaskrifstofukostnaðurinn skyldi greiddur sem sérstakt stimpilgjald, sem leggja átti á farseðla með áætlunarbifreiðum. En í þessum l. er þetta stimpilgjald afnumið, en ríkisstj. heimilað að nota sérleyfisgjald bifreiða, sem lagt hefur verið á samkv. l. nr. 22 30. jan. 1945, til þess að standa undir rekstri ferðaskrifstofunnar. Þessi þrenn ákvæði eru meginatriði frv.

Allshn. hefur haft þetta frv. til athugunar og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir. Ferðaskrifstofa ríkisins var stofnuð með l. nr. 33 1. febr. 1936. Meginefni þeirra l. var það, að þessari ferðaskrifstofu var falið að annast um landkynningu út á við og annast um og leiðbeina ferðamönnum, erlendum og innlendum, sem ferðast vildu um landið og óskuðu eftir upplýsingum. Þá skyldi ferðaskrifstofan einnig annast eftirlit með gistihúsum og hafa sérstakt eftirlit með veitingahúsum og fargjöldum með fólksbifreiðum. Þá var einnig ákveðið í ferðaskrifstoful., að þessi ferðaskrifstofa skyldi hafa einkarétt til að sjá um og reka skrifstofu, er sæi um ferðir fyrir erlenda menn, sem hér vildu ferðast. Þó var á því sú takmörkun, að þær ferðaskrifstofur, sem fyrir voru og störfuðu í landinu, þegar ferðaskrifstoful. gengu í gildi, áttu kost á að sækja um löggildingu til ríkisstj. til þess að geta starfað áfram, og skyldi löggildingin veitt til fimm ára í senn. Framkvæmdin á því mun hafa orðið sú, að allar ferðaskrifstofur, sem fyrir voru, fengu þessa löggildingu, þegar þær sóttu um hana. Þegar þetta frv. um Ferðaskrifstofu ríkisins var á ferðinni hér á Alþ. 1935, þá voru menn yfirleitt á einu máli um það, að það væri nauðsynlegt og eðlilegt, að ríkið beitti sér fyrir því, að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að koma upp sérstakri stofnun, er annaðist landkynningu út á við og inn á við, auk þess sem það væri eðlilegt, að þessi skrifstofa hefði það starf með höndum að leiðbeina ferðamönnum og hafa eftirlit með því, að ekki væri okrað á mönnum, sem hér vildu ferðast.

Um þessi ákvæði í ferðaskrifstoful. mun yfirleitt ekki hafa verið ágreiningur, þegar málið var hér á ferðinni í þinginu, en hins vegar voru tvö ákvæði í þessu frv. sérstaklega, sem urðu þess valdandi, að um frv. urðu miklar deilur í þinginu á sínum tíma. Þegar frv. kom fyrst fram, þá var ferðaskrifstofunni veittur fortakslaus einkaréttur til að annast og reka skrifstofu, er sæi um ferðir erlendra manna, sem hér færu um. Samkv. frv., eins og það lá fyrir upphaflega, átti að loka þeim erlendu ferðaskrifstofum, sem hér höfðu útibú, og þær áttu ekki að hafa rétt til að starfa áfram. Þá var einnig í frv. upphaflega heimild ferðaskrifstofunnar til að láta erlenda ferðamenn, sem hér dveldust, ganga fyrir innlendum mönnum. Þessi tvö atriði í frv. komu af stað miklum ágreiningi, sem að lokum var jafnaður með því, að ferðaskrifstofur, sem fyrir voru, gátu fengið undanþágu til að starfa áfram, og var þannig dregið úr einkaleyfisheimild ferðaskrifstofunnar og ákvæðið um forréttindi erlendra manna fellt niður. Þegar málið var komið í það horf, fór það hljóðalítið gegnum þingið, og hygg ég, að menn hafi yfirleitt viljað fella sig við frv., úr því sem komið var.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir því, að nein breyt. verði á þessum ákvæðum, sem ágreiningnum ollu í upphafi. Það er gert ráð fyrir því að láta haldast alveg óbreytt, að þær ferðaskrifstofur, sem fyrir eru, geti fengið leyfi til að starfa áfram, ef þær sækja um það til ríkisstj., og þau leyfi yrðu þá veitt til 5 ára í senn. Mér þykir rétt að vekja sérstaka athygli á þessu, vegna þess að það var einmitt þetta ákvæði í frv., sem óánægjuna vakti á sínum tíma; og skapaði hér deilur.

Eftir að ferðaskrifstoful. voru samþ. 1935, tók ferðaskrifstofan til starfa og starfaði í 3 ár að því að vinna að þeim málum, sem henni voru falin, eftir því sem geta og efni stóðu til. Hygg ég, að menn hafi verið á einu máli um það, að nokkurt gagn hafi verið að henni og vel hafi til tekizt. Árið 1939 varð hér mikil breyt. á flestum sviðum, sem leiddi af styrjaldarástandinu, sem þá skapaðist, auk þess sem hér voru þá komnir miklir fjárhagsörðugleikar nokkru áður en styrjöldin skall á, sem leiddu til þess, að Alþ. gerði ýmsar ráðstafanir til þess að draga saman seglin og sýna meiri sparnað á fé ríkissjóðs en áður. Eitt af því, sem þá varð fyrir þeim ráðstöfunum, var ferðaskrifstofan, og þótti rétt að láta niður falla framkvæmd ferðaskrifstoful. um sinn og loka skrifstofunni. Það má segja, að þetta hafi a. m. k. síðar reynzt alveg sjálfsögð og sjálfgerð ráðstöfun, vegna þess að heimsstyrjaldarástandið tók fyrir allan ferðamannastraum til landsins og útilokaði jafnframt alla möguleika á landkynningu og útbreiðslustarfi, a. m. k. í því formi, sem ferðaskrifstofan hafði haft og hefði haft möguleika á að reka þá starfsemi sína.

En nú, þegar styrjöldinni er lokið og fjárhagur landsmanna og ríkisins batnaður mjög frá því, sem áður var, þá hefur þótt rétt að taka aftur upp athugun á því að endurreisa ferðaskrifstofuna, og má segja, að eins og ástandið er nú, þá sé enn meiri þörf fyrir þessa skrifstofu en var fyrir styrjöldina. Það ástand, sem var hér 1936, þegar ferðaskrifstofan var stofnuð, að við höfðum þörf á því að kynna landið og vekja athygli erlendra manna á því — það ástand er einnig fyrir hendi nú, en við það hefur einnig bætzt sú staðreynd, að landsmenn sjálfir eru farnir að ferðast miklu meira en nokkru sinni áður og því nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að koma skipulagi á þær ferðir. Það er öllum kunnugt, að talsverðir erfiðleikar eru á því hjá verkamönnum og þeim öðrum, sem orlofs njóta samkv. orlofsl., að geta komizt í hentugar og ódýrar ferðir. Með orlofsl. voru öllu vinnandi fólki í landinu skapaðir möguleikar til þess að taka sér hvíld frá störfum að sumrinu og lyfta sér eitthvað upp. Mikill áhugi er hjá mönnum að nota þennan tíma til þess að ferðast um landið og skoða það og einnig til þess að njóta hvíldar. En erfiðleikar eru á að koma þessu við, og veldur þar mestu, að af hálfu þess opinbera hafa ekki verið gerðar ráðstafanir, sem ekki er von, til þess að sjá því fólki, sem þess óskar, fyrir möguleikum á því að ferðast um landið og dveljast úti um landið. Einnig hefur það komið til, einna mest í ár, að bændur landsins hafa tekið sig saman og ferðazt um landið til þess að kynnast starfsbræðrum sínum annars staðar á landinu og búnaðarháttum þeirra og einnig til þess að skoða land sitt. Á þessum ferðum eru einnig erfiðleikar hjá bændum vegna skorts á skipulagi og möguleikum á því að komast ferða sinna, eins og æskilegt hefði verið. Með frv., sem hér liggur fyrir, eru því ekki aðeins gerðar ráðstafanir til þess að taka upp landkynningu og nánari úrgreiðslu fyrir erlenda ferðamenn, heldur eru einnig gerðar ráðstafanir til þess að landsmenn sjálfir geti notið þess orlofs, sem þeir fá samkv. landslögum og sérstökum samningum. Er ætlazt til þess, að inn í ferðaskrifstoful. verði tekin ný gr., sem verði 4. gr. l., þar sem fyrirmæli eru um það, að ferðaskrifstofan eigi að skipuleggja ódýrar orlofsdvalir og orlofsferðir og geri ráðstafanir til þessa, að þeir, sem tækifæri hafa til þess að fara í slíkar ferðir og dvalir, geti notið þeirra og það á sem ódýrastan hátt. Þegar orlofsl. voru á ferðinni á sínum tíma, þá var alveg sérstaklega vikið að þeirri nauðsyn, sem á því væri, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess að sem mest gagn yrði að þeim hlunnindum, sem í l. felast. Með því frv., sem hér liggur fyrir, er leitazt við að efna það heit, sem þeir, sem stóðu að þeirri lagasetningu á sínum tíma, gáfu í sambandi við framkvæmd l.

Ég held, að þá sé aðeins eftir að vekja athygli á því í þessu frv., að gert er ráð fyrir því, að ríkissjóður þurfi ekki að bera neinn sérstakan kostnað af framkvæmd ferðaskrifstoful., ef til kemur. 5% stimpilgjaldið af farseðlum er að vísu fellt niður, en þess í stað er ferðaskrifstofunni fengið sérleyfisgjaldið — 7% gjald, sem sérleyfishafar verða að greiða og ferðaskrifstofan fær til ráðstöfunar. Talið er, að það muni nokkurn veginn nægja fyrir rekstri ferðaskrifstofunnar. Það er mjög eðlilegt að þetta gjald sé látið ganga til að bera uppi ferðaskrifstofuna og rekstrarkostnað af henni. Þetta gjald er komið frá þeim, sem um landið ferðast, og það eru þá fyrst og fremst þeir sjálfir, sem bera þetta.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram, en vil ítreka till. n. um það, að frv. verði samþ. og afgr. eins og það liggur fyrir.