05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Það hefur verið bent á það hér, að fyrir þessu þingi liggi einnig frv. um afgreiðslustöðvar fyrir sérleyfisbifreiðar og samkvæmt því skuli árlega verja fjórum fimmtu hlutum sérleyfisgjaldsins, eða 7% gjaldsins, til að byggja þessar stöðvar, og þá hefur verið spurt í því sambandi, hvort afgangur þess gjalds mundi nægja handa ferðaskrifstofunni. Ég veit nú ekki, hve miklu þetta gjald nemur í heild á ári hverju, og get því ekki upplýst það í þetta sinn. Ef til vill getur hv. samgmrh. gert það, a. m. k. skal ég afla mér upplýsinga um þetta fyrir 3. umr.

Eins og frá 3. gr. þessa frv. er nú gengið, er þar aðeins heimildarákvæði. Ríkisstj. er heimilt að nota þessar tekjur. Hún ræður því sjálf. En gera má ráð fyrir og raunar telja víst, að sú heimild verði notuð, ef Alþ. ráðstafar þessum tekjum ekki á annan hátt.

Þá spurði hv. þm. Barð., hvort meiningin væri, samkv. 1. gr., að ferðaskrifstofan skipulegði svo ódýrar orlofsferðir og orlofsdvalir, að ekki yrði um rekstrarhalla að ræða. Ég skil 1. gr. svo. Hún á að semja við hið opinbera og eigendur farartækja um afslátt án þess að greiða nokkuð úr sínum sjóði. Samkv. 1. gr. er það hlutverk hennar að skipuleggja ferðirnar með sem hagkvæmustu móti og semja jafnframt um sem ódýrastan farkost, án þess að um bein fjárframlög hennar sé að ræða í því sambandi. Þannig skil ég ákvæði greinarinnar, og ég held, að ekki orki tvímælis um það, að meiningin sé sú.